Fréttir Greiningar

Spáum 0,9% hækkun neysluverðs í mars

13.03.2015 09:25

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,9% í marsmánuði frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir eykst verðbólga úr 0,8% í 1,4%, og heyrir tímabil verðbólgu undir 1,0% þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans þar með sögunni til í bili. Verðbólga er þó áfram undir 2,5%. verðbólgumarkmiðinu sjálfu.

Horfur hafa versnað nokkuð, þótt enn sé fremur lítill verðbólguþrýstingur til skemmri tíma litið. Við teljum að verðbólgan muni verða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans stærstan hluta ársins. Í kjölfarið spáum við því að verðbólga fari yfir markmiðið samhliða því að hjól hagkerfisins taka að snúast hraðar, þótt verðbólga verði áfram í grennd við verðbólgumarkmiðið. Hagstofan birtir VNV fyrir mars kl. 09:00 þann 27. mars næstkomandi.

Mikil hækkun íbúðaverðs

Stærsti einstaki áhrifaþátturinn í mikilli hækkun VNV í mars er reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar verðþróun á íbúðarhúsnæði. Sá liður skýrir einnig að verulegu leyti breytingu á spánni nú frá bráðabirgðaspá okkar fyrir mars. Könnun okkar bendir til þess að íbúðaverð, reiknað sem 3ja mánaða hlaupandi meðaltal með mánaðartöf eins og Hagstofan gerir við útreikning þessa liðar, hafi hækkað um rúmlega 2,0% á milli mánaða (0,29% áhrif í VNV). Ef spáin gengur eftir verður um að ræða hröðustu hækkun á þessum lið milli mánaða síðan síðla árs 2007. 
Íbúðaverð hefur hækkað hratt síðustu mánuði, eftir fremur hóflegan hækkunartakt stærstan hluta síðasta árs. Nærtækt virðist að tengja þessa breytingu á íbúðamarkaði við „Leiðréttinguna“ svokölluðu sem kom til framkvæmda í kring um síðustu áramót, en með henni jókst veðrými hjá stórum hluta heimila talsvert á sama tíma og greiðslubyrði af íbúðalánum lækkaði. Mæling Hagstofunnar á þessum lið í mars mun ná yfir tímabilið desember-febrúar, en á því tímabili komu framangreindar aðgerðir til framkvæmda.

Ferðaliður hækkar drjúgt

Ferða- og flutningaliður VNV vegur einnig þungt í hækkun hennar í mars samkvæmt spá okkar. Við teljum að liðurinn muni hækka um 2,4% (0,35% í VNV), að mestu vegna verðhækkunar á eldsneyti og hækkunar á flugfargjöldum. Eldsneytisverð hefur hækkað allhratt frá febrúarmælingu Hagstofunnar á VNV, og bendir athugun okkar til þess að hækkunin muni nema 4,7% á milli mánaða nú (0,16% í VNV). Er það mesta mánaðarhækkun eldsneytis síðan í febrúar 2013. Þá gefur verðkönnun okkar þá niðurstöðu að flugfargjöld hafi hækkað um 10% í marsmánuði (0,15% í VNV). Auk þessa má geta þess að Strætó hækkaði fargjöld sín umtalsvert í marsmánuði, en sú hækkun er raunar léttvæg í VNV.

Hófleg áhrif útsöluloka

Af öðrum áhrifaþáttum á VNV í mars má nefna árviss áhrif útsöluloka (0,2% í VNV). Þau eru þó með hóflegra móti að okkar mati, enda hefur gengisþróun verið tiltölulega hagstæð fyrir fatnað og tækjabúnað, auk þess sem áhrif afnáms almennra vörugjalda og lækkunar VSK um síðustu áramót draga úr hækkunarþörf að útsölum loknum. 

Aðrir helstu undirliðir munu að mati okkar ekki hafa mikil áhrif á mælingu VNV í mars. Til að mynda gerum við ráð fyrir litlum breytingum á matvöruverði í mánuðinum, öfugt við síðustu ár. Þá hefur gerð kjarasamninga dregist á langinn, og er því ekki umtalsverður kostnaðarþrýstingur fyrir hendi vegna hækkunar launa nú, öfugt við það sem algengt er á þessum tíma árs. Það kann þó að reynast skammgóður vermir.

Hóflegur verðbólguþrýstingur næsta kastið

Við spáum 0,2% hækkun VNV í apríl, 0,2% hækkun í maí og 0,3% hækkun í júní. Verðbólga verður samkvæmt því 1,5% um mitt ár. Í raun gerum við ráð fyrir tiltölulega tíðindalitlum mælingum VNV næstu mánuði. Það er þó að því gefnu að innlendur kostnaður aukist ekki verulega í kjölfar komandi kjarasamninga á næstu vikum og að aftur hægi á hækkunartakti íbúðaverðs, en þar gerum við ráð fyrir u.þ.b. 0,5% hækkun í mánuði hverjum á næstunni. Þessir tveir óvissuþættir eru báðir til meiri mögulegrar hækkunar VNV næstu mánuði að okkar mati. Innflutt verðbólga verður hins vegar lítil á næstunni að mati okkar, enda er útlit fyrir að hreint gjaldeyrisinnflæði haldi áfram næsta kastið auk þess sem erlend verðbólga er nánast engin um þessar mundir.

Verðbólga yfir markmið á ný fyrir árslok

Eftir því sem líður á árið 2015 gerum við ráð fyrir því að verðbólga aukist jafnt og þétt. Spáum við því að verðbólga í árslok mælist í 3,0%, og verði þar með á ný yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Árið 2016 mun verðbólga að jafnaði verða meiri en í ár, og spáum við 3,0% verðbólgu yfir það ár. Ástæður aukinnar verðbólgu verða að mati okkar allhröð hækkun launa á vinnumarkaði á komandi misserum, áframhaldandi raunhækkun húsnæðisverðs og öllu meiri innflutt verðbólga en verið hefur undanfarið. Verðbólga verður þó fremur hófleg í sögulegu ljósi, og mun ekki víkja jafnlangt frá verðbólgumarkmiði Seðlabankans og raunin hefur oftast verið frá upptöku þess árið 2001. 

Óvissan í spánni er fremur þannig að verðbólga muni aukast hraðar en hér er spáð. Kemur þar einkum tvennt til. Annars vegar gæti niðurstaða kjarasamninga á komandi mánuðum leitt til enn hraðari hækkunar nafnlauna en við gerum ráð fyrir, þótt útlit sé nú fyrir að sú niðurstaða geti dregist fram á vorið. Hins vegar er sú forsenda sett í spá okkar að gengi krónu haldist nærri núverandi gildum, enda hefur krónan verið afar stöðug undanfarna ársfjórðunga. Það gæti þó breyst ef skref verða stigin til afléttingar hafta sem hafa í för með sér auknar gengissveiflur og meiri hættu á umtalsverðu gjaldeyrisútflæði, a.m.k. tímabundið. Horfur varðandi síðarnefnda þáttinn hafa hins vegar batnað töluvert undanfarið, og hafa líkur á viðvarandi gengisveikingu vegna hans minnkað að sama skapi.

Verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall