Fréttir Greiningar

Mikil samkeppni í flugi til landsins

17.03.2015 09:15

Aukinn áhugi erlendra aðila á ferðum til Íslands hefur ekki farið framhjá erlendum flugfélögum og hefur hlutdeild þeirra í flugi til landsins aukist verulega á síðustu árum. Samkvæmt gögnum frá Isavia um úthlutuð stæði á tímabilinu 1. apríl - 24. október hafa 23 flugfélög fengið úthlutuðum stæðum hér í sumar en ferðatímabil þeirra og tíðni er þó æði misjöfn. M.a. í ljósi þessa gagna gerum ráð fyrir að ferðamönnum til landsins, sem fljúga í gegnum Keflavíkurflugvöll (KEF), fjölgi um 23% milli ára 2014 og 2015 eins og fram kom í skýrslu okkar um íslenska ferðaþjónustu sem birt var 4. mars síðastliðinn.

Stæða tölur benda jafnframt til þess að enn muni draga úr árstíðarsveiflum í komum til landsins. Myndin hér til hliðar sýnir hvernig sumarið hefur lækkað í hlutfalli af heildar ferðum til landsins á meðan aðrar árstíðir hafa hægt og rólega bætt í. Ef sú sterka sætanýting sem við höfum séð hjá íslensku flugfélögunum á fyrstu  mánuðum ársins heldur áfram er jafnframt líklegt að vorið rísi hærra í hlutdeild en myndin hér til hliðar sýnir. Í þessu samhengi er vert að benda á að sætanýting í maí á síðast ári, þegar verkföll starfsmanna Icelandair stóðu sem hæst, var fremur slök sem styður enn fremur væntingar um sterkari tölur í þessum mánuðum í samanburði áranna. 

Icelandair stærst á Keflavíkurflugvelli

Icelandair verður sem fyrr umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli en hlutdeild þeirra fer þó minnkandi. Hlutdeild þeirra í flugi um Keflavík lýsir þó ekki hlutdeild þeirra í flutningum á þeim ferðamönnum er sækja landið heim enda líklegt að um helmingur farþega þeirra fljúgi um landið án þess að hafa viðdvöl hér. Næst umsvifamesta flugfélagið verður WOW en félagið hefur fengið úthlutuðum um 37% fleiri stæðum yfir sumarúthlutunartímabilið en á síðasta ári. 

WOW inn á Bandaríkjamarkað

Eins og fram hefur komið í fréttum er WOW að hefja flug til Bandaríkjanna en nýjar flugleiðir þangað skýra að nokkru þessa miklu fjölgun stæða. Icelandair sat lengi vel eitt að flugleiðinni frá Íslandi yfir Norður-Atlantshaf en WOW kemur til með að vera í beinni samkeppni við Icelandair á flugleiðunum til Boston og Washington. Á sama tíma er Delta að auka töluvert framboð sitt á flugum til New York. Í fyrra var Delta með stæði fyrir New York flug frá því í byrjun júní fram til miðs september en í ár mun flugfélagið hins vegar fljúga frá því í byrjun maí til loka september. Þá mun félagið yfir hluta tímabilsins fljúga á heldur stærri vélum en síðasta sumar

easyJet áfram í sókn

Yfir sumarið í heild verður easyJet með um 5% markaðshlutdeild. Félagið hefur verið að auka nokkuð hratt við hlutdeild sína og þá sérstaklega utan háannatíma. Bróður hluti ferða easyJet er inn á Bretlandsmarkað en engin þjóð sótti landið stífar en Bretar á síðasta ári, enda komu tæp 19% ferðamanna þaðan. Næst fjölmennasti hópurinn voru Bandaríkjamenn og því kemur það aukna framboð á þann markað, er við fjölluðum um hér að ofan, ekki á óvart. Þriðji stærsti hópurinn til að sækja landið heim voru Þjóðverjar en um 9% ferðamanna komu þaðan. Þýsku flugfélögin hafa þannig sýnt Keflavík töluverðan áhuga. Airberlin er nú fjórða stærsta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli en hingað fljúga einnig Germanwings og Lufthansa. Ekkert eitt flugfélag eykur jafn mikið við framboð sitt og Lufthansa yfir sumarúthlutunartímabilið en framboð þeirra nú er meira en þrisvar sinnum framboð síðasta sumars. Á sama tíma er bara eitt flugfélag að markverðri stærð sem sækir um færri stæði þetta árið en það er Norwegian. Norwegian mun ekki fljúga milli Íslands og Kaupmannahafnar í sumar og bítast því Icelandair og WOW ein flugfélaga um þá flugleið.

Flestir farþegar til Bandaríkjanna

Ef litið er til ferða til einstakra landa þá verða flestar komur til landsins yfir sumartímabilið frá Bandaríkjunum. Það þýðir þó ekki að allir þeir er fljúga til landsins muni hafa viðdvöl hér enda flýgur, sem fyrr segir, töluvert af farþegum Icelandair um landið. Markmið WOW virðist vera að byggja upp samskonar flugleiðir þ.e. tengja saman markaði sitt hvorum megin við Atlantshafið en verða um leið minna háð innlendum markaði. Næst flestir koma frá Bretlandi en þeir þriðju flestu frá Þýskalandi.

Stórt ferðamannaár og mikil samkeppni í flugi

Það er nokkuð ljóst af tölum Isavia yfir úthlutuð stæði að ferðamannastraumurinn hingað í sumar verður verulegur en sem fyrr segir spáum við um 23% fjölgun ferðamanna til landsins. Reiknum við með því að heildarfjöldi erlendra ferðamanna hér á landi í ár verði 1.350 þús. og af þeim muni 1.191 koma í gegnum Keflavíkurflugvöll. Lækkun olíuverðs og mikil samkeppni munu án efa leiða til þess að flug hingað til lands verður hagstæðara en oft áður. Í þessu samhengi er vert að benda á að mörg þeirra flugfélaga er sótt hafa mest á markaðinn teljast til lággjaldaflugfélaga. Á sama tíma höfum við séð hreint út sagt ótrúleg nýtingarhlutföll hjá íslensku flugfélögunum í byrjun árs og það er því full ástæða til að horfa björtum augum á ferðamannasumarið 2015.

Ríflega 26 þús. ferðamenn á degi hverjum

Út frá ofangreindri spá okkar um fjölda ferðamanna og meðal dvalartíma jafngildir það að hér á landi séu  um 26 þús. ferðamenn á degi hverjum allt árið. Sem hlutfall af heildar íbúafjölda að viðbættum meðalfjölda ferðamanna er það 7,2%. Þetta hlutfall hefur oft verið notað sem vísbending um það hversu stór ferðamannaþjónustan er í hinum ýmsu löndum. Er Ísland þar í sjöunda sæti á milli Mónakó og Möltu. Fyrir ofan okkur á listanum eru einungis smáríki á borð við Vatíkanið sem er efst á listanum, Andorra sem er númer tvö og Bahama eyjar sem eru númer fimm. Þess má geta að af stóru ríkjunum eru engin með nálægt því jafn hátt ferðamannahlutfall og Ísland. Þannig er Spánn með 2,2%, Frakkland með 2,0% og Ítalía með 1,3% svo einhver dæmi séu tekin. Af smærri ríkjum má nefna Eistland með 4,0%, Austurríki með 3,8%, Írland með 3,7% og Danmörk með 2,5%. Þess má geta að hér er um meðaltalstölu fyrir árið að ræða en vegna mikillar árstíðarsveiflu í fjölda ferðamanna fer hlutfalli mun hærra yfir sumarmánuðina. Þannig áætlum við að í sumar verði ferðamenn að meðaltali ríflega 16% þeirra sem eru hér á landi.

Fyrir áhugasama má finna frekari upplýsingar um þróun og horfur hjá íslenskri ferðaþjónustu í skýrslunni Íslensk ferðaþjónusta. Þá er mögulegt að horfa á upptöku með kynningu á efni skýrslunnar hér.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall