Fréttir Greiningar

Óbreyttir stýrivextir í takti við spár

18.03.2015 10:27

Peningastefnunefnd Seðlabankinn ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum að þessu sinni og er það í takti við spá okkar og aðrar opinberar spár greiningaraðila. Helstu rök nefndarinnar fyrir óbreyttum stýrivöxtum eru í takti við það sem við reiknuðum með, en þau eru að nefndin telur rétt að staldra við uns línur skýrast varðandi launaþróun, þ.e. þangað til fæst niðurstaða í kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem nú eru yfirstandandi. 

Fremur tíðindalaus yfirlýsing

Heilt á litið er yfirlýsing nefndarinnar fremur tíðindalaus. Þannig er tónninn í yfirlýsingu nefndarinnar vegna ákvörðunarinnar nú sá hinn sami og var við síðustu vaxtaákvörðun í byrjun febrúar sl., og síðasti hluti hennar er raunar að mestu leyti orðrétt óbreyttur frá febrúar-yfirlýsingunni. Nefndin bendir m.a. líkt og áður á mikla óvissu um horfur á vinnumarkaði á sama tíma og vísbendingar eru um öflugan hagvöxt á næstu misserum. Af þeim sökum telur peningastefnunefndin nú líkt og áður rétt að staldra við uns efnahagshorfur hafa skýrst frekar, einkum varðandi launaþróun. 

Nefndin bendir á í yfirlýsingu sinni nú að verðbólguvæntingar, sem lækkuðu í upphafi árs, hafi hækkað á ný undanfarið, og mögulega endurspeglar það væntingar um að niðurstaða komandi kjarasamninga muni ekki samrýmast verðbólgumarkmiðinu. 

Lokaorð yfirlýsingarinnar eru nákvæmlega þau hin sömu og í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar. Þar segir m.a. haldist verðbólga undir markmiði og verði launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmiðið gætu skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu hins vegar grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný. Framsýna leiðsögnin sem lesa má úr þessum orðum er að okkar mati hlutlaus, þ.e. að ekki er gefið í skyn að nefndin telji umtalsvert meiri líkur á breytingu vaxta í aðra áttina en hina á næstunni.

Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar í morgun að varðandi framvirku leiðsögnina í yfirlýsingu nefndarinnar að fram að næsta fundi gæti ýmislegt komið sem væri óvænt og gæti breytt myndinni talsvert. Til að mynda gætu niðurstöður kjarasamninga breytt myndinni verulega varðandi næstu skref peningastefnunefndar í peningastjórnuninni. Hann sagði að framvirku leiðsögninni bæri því ekki að taka of bókstaflega.   

Hagvöxtur á síðasta ári í takti við spá bankans

Nefndin bendir á að hagvöxtur á síðasta ári hafi samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagsofunnar hafi verið í takti við það sem bankinn áætlaði í sinni nýjustu þjóðhagsspá, sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í byrjun febrúar sl. Tölur Hagstofunnar benda til þess að hagvöxtur sl. árs hafi verið 1,9% en Seðlabankinn áætlaði 2,0% vöxt í febrúarspánni. Staðfesta nýjar tölur Hagstofunnar það að fyrri tölur þeirra hafi falið í sér vanmat á hagvexti. Spáir Seðlabankinn því að hagvöxtur þessa árs verði 4,2% og 2,8% á næsta ári. 

Seðlabankastjóri sagði á ofangreindum kynningarfundi að honum segist svo hugur að hagvaxtartölur fyrir síðastliðið ár verði endurskoðaðar til hækkunar. Þetta sagði hann aðspurður um vöxt framleiðni vinnuafls í fyrra, en núverandi tölur um hagvöxt og vinnuaflsnotkun benda til þess að framleiðnivöxtur hafi enginn verið á þeim tíma. Hann sagði einnig að engin framleiðniaukning, ef rétt væri, eða lítil á síðasta ári væri áhyggjuefni. Lágt raungengi hefði hins vegar fært vinnuafl yfir í greinar þar sem framleiðni væri lægri en í ýmsum öðrum greinum, t.d. ferðamannaþjónustu, og gæti það skýrt þetta að hluta. 

Breytir ekki spá okkar um óbreytta stýrivexti út árið

Næsta vaxtaákvörðun er 13. maí nk. Nokkur tími er því nú á milli vaxtaákvarðana og alveg hugsanlegt að niðurstaða kjarasamninga verði komin fyrir ákvörðunina í maí. Við reiknum, líkt og áður, með óbreyttum stýrivöxtum út þetta ár. Fari kjarasamningar hins vegar úr böndunum má reikna með því að bankinn muni bregðast við með hækkun stýrivaxta. 

Líkt og áður reiknum við með því að peningastefnunefndin bregðist við vaxandi verðbólgu, vaxandi framleiðsluspennu í hagkerfinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með hækkun stýrivaxta bankans um 0,75 prósentustig á næsta ári. 

Stýrivaxtaspá okkar má nálgast hér


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall