Fréttir Greiningar

Stærri og stöðugri hlutabréfamarkaður

27.04.2015 09:56

Fyrirfram bjuggust flestir við því að stækkandi hlutabréfamarkaður hér á landi myndi skila aukinni veltu á hlutabréfamarkaði. Það hefur að vissu marki gerst en ekki til samræmis við stækkun markaðarins. Ef litið eru til þriggja fyrstu mánaða þessa árs og sama tímabils tveggja undangenginna ára má sjá að hlutfallsleg velta dregst saman. Velta í krónutölu hefur þó aukist alla mánuði að janúar undanskildum. 

Minnkun á hlutfallslegri veltuaukningu kemur þó í raun ekki á óvart. Þau félög sem nýskráð hafa verið á árinu voru að töluverðu leiti komin í nokkuð endanlegt eignarhald og því lítill veltuþrýstingur af þeirra hálfu. Þó hafa ein stór viðskipti átt sér stað í Reitum þar sem Landsbankinn minnkaði eignarhluta sinn. Líklegt er að þau fjármálafyrirtæki sem eru í eigendahópnum muni áfram minnka við sinn hlut en sú eignalosun þarf þó ekki endilega að eiga sér stað á þessu ári. Við væntum þess að það sama verði upp á teningnum hvað varðar Skipti þ.e. félagið er að töluverðu leiti komið í hendur fjárfesta sem ólíklegt er að velti sínum eignarhluta og því enginn sérstakur þrýstingur til veltuaukningar á markaði af þeirra hálfu.

Valda arðgreiðslur og endurkaup kaupþrýstingi?

Arðgreiðslur þessa árs hafa verið verulegar en á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs voru um 19,4 ma.kr.  greiddir til hluthafa og þar af má áætla að um 18,7 ma.kr. fara til innlendra aðila. Við þessar greiðslur er líklegt að við bætist 1,5 ma.kr. endurkaup TM og tæpir 3 ma.kr. vegna breytingar á fjármagnsskipan N1. Þá hefur ársuppgjör Haga ekki verið birt en búast má við að félagið greiði arð vegna síðasta rekstrarárs þó fjárhæð hans liggi ekki fyrir. Alls gæti sú fjárhæð er kemur til vegna arðgreiðslna og endurkaupa og leita mun að nýjum fjárfestingum verið um 25-27 ma.kr. 

Þessi fjárhæð kann að virðast gríðarstór í fyrstu en í þessu samhengi þarf þó að hafa í huga að stærstu arðgreiðslufélögin eru tryggingarfélögin. Af þessum 25 mö.kr. koma um 12 ma.kr. frá þeim. Til þess að greiða þennan arð hafa félögin þurft að losa fjármuni úr öðrum fjárfestingum.

Það má því segja að um 13 ma.kr. séu  nýir fjármunir sem gætu leitað inn á fjármálamarkaði. Það er þó engin sérstök ástæða til að ætla að þeir fjármunir fari endilega til hlutabréfafjárfjárfestinga á skráðum markaði. Ef litið er yfir lista yfir stærstu hluthafa er vísbending um að a.m.k. um 3 ma.kr. verði greiddir til sjóða. Það er ekki ólíklegt að þeir fjármunir leiti í sambærilega fjárfestingu þá vegna fjárfestingastefnu viðkomandi sjóðs. Afgangur arðgreiðslufjárhæðarinnar mun leita í það sem menn telja besta fjárfestingarkostinn hverju sinni, hvort sem um er að ræða hlutabréf á hinum skráða markaði eða annars konar fjárfestingu. Á heildina litið sjáum við ekki að arðgreiðslur þessa árs ættu að vera til þess fallnar að valda kaupþrýstingi, raunar höfum við væntingar um að markaðurinn verði í ágætis jafnvægi á árinu. 

Breyttur markaður með minni spákaupmennsku

Eins og við höfum áður sagt er hlutabréfamarkaður nú ólíkur þeim markaði er var hér fyrir hrun. Helsta breytingin er sú að meiri hluti þeirra félaga sem skráð eru á markað eru að vaxa lítið og ekki í útrás. Þá eru skráð innlend félög því sem næst öll arðgreiðslufélög sem greiða töluverðan hluta hagnaðar síns út í formi arð. Þá eru spákaupmenn minna sýnilegir á innlendum hlutabréfamarkaði sem bendir til þess að fjárfestar kaupi hlutabréf meira sem langtímafjárfestingu sem er raunar í takt við eðli þessa eignaforms. Í þessu samhengi er þó eðlilegt að hafa í huga að háar arðgreiðslur sumra félaga á markaði eru liður í því að ná fram heppilegri fjármögnunarskipan þeirra og eðlilega munu félög ekki greiða langt umfram 100% af uppsöfnuðum hagnaði í arð mörg ár. 

Í það heila virðist hinn stækkandi markaður vera mun stöðugri en sá markaður sem við sáum fyrir hrun. Ákveðið heilbrigðis merki er einnig að sjá í því að félögin greiði arð fremur en að leita að mis heppilegum fjárfestingartækifærum. Hvort breyting verður þar á við opnun gjaldeyrishafta verður tíminn að leiða í ljós.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall