Fréttir Greiningar

Brúnin þyngist verulega á landsmönnum

28.04.2015 11:00

Verulega sló á væntingar íslenskra neytenda til efnahags- og atvinnulífsins nú í apríl frá fyrri mánuði samkvæmt Væntingavísitölu Gallup (VVG) sem birt var nú í morgun. Þannig lækkar VVG um heil 17 stig í apríl frá fyrri mánuði, sem er mesta lækkun vísitölunnar á milli mánaða í tæp 2 ár. Mælist gildi VVG í apríl 84,3 stig og virðist þar með nokkuð þungt yfir landanum nú í upphafi sumars. Þessi mikla lækkun kemur á hæla ágætis hækkunar á vísitölunni síðustu tvo mánuði, en vísitalan fór yfir 100 stigin sem marka jafnvægi á milli bjartsýni og svartsýni neytenda á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar í mars sl. 

Bakslag vegna kjaraviðræðna?

Í raun kemur það okkur ekki á óvart að VVG lækki á milli mars og apríl. Hins vegar er lækkunin að þessu sinni töluvert meiri en við höfðum vænst. Við teljum afar líklegt að fréttaflutningar af kjaradeilum og yfirvofandi verkföllum hafi átt stóran þátt í lækkun VVG nú í apríl, en miðað við það virðist ekki gæta mikillar samstöðu eða bjartsýni á meðal aðila sem þar koma að borði. Nokkuð áhugavert er að greina undirvísitölur VVG með tillit til þessa, en þar má sjá að einu hóparnir þar sem væntingar eru að glæðast er hjá yngsta aldurshópnum, þeim sem minnstu menntun hafa og að lokum þeim tekjulægstu. Talsverð skörun er vitaskuld milli þessara þriggja hópa. Þannig eru væntingar allra aldurshópa að lækka að þeim yngsta undanskildum (18-24 ára) þar sem þær glæðast lítillega (4,6 stig), og eftir menntun hækkar vísitalan aðeins hjá þeim sem hafa í mesta falli lokið grunnskólaprófi (22,9 stig). Eftir tekjum þá hækkar vísitalan aðeins hjá þeim tekjulægstu (3,3 stig), en lækkar verulega hjá öllum öðrum tekjuhópum (21,2-24,9 stig).

Ofangreind þróun tímabundin?

Þrátt fyrir þessa miklu lækkun VVG á milli mánaða nú í apríl er gildi vísitölunnar aðeins hærra en það var á sama tíma í fyrra þegar hún mældist 82,7 stig.  Er það í samræmi við þróunina sem verið hefur síðustu misserin, sem lýsir sér í að VVG hefur hægt og bítandi verið að mjakast upp á við.

Við teljum mjög líklegt að væntingar íslenskra neytenda komi áfram til með að sigla upp á við næstu misserin, og að vísitalan muni jafnvel oftar en ekki að mælast yfir 100 stigunum það sem eftir lifir árs. Fjölmörg teikn eru á lofti um að hagur neytenda fari áfram batnandi, auk þess sem efnahagshorfur eru allgóðar fyrir næstu misserin. Þannig benda tölur af vinnumarkaði til þess að rífandi gangur sé í honum nú í upphafi árs, og hefur staðan þar ekki  hafa verið betri í sjö ár. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fjölgaði heildarvinnustundum í hagkerfinu um 4,2% á fyrsta ársfjórðungi, sem má má nánast að öllu leyti rekja til fjölgunar starfandi fremur en lengri vinnutíma hjá hverjum og einum. Þróun heildarvinnustunda gefur ágætis vísbendingu um umsvifin í hagkerfinu á hverjum tíma, og skv. þeim virðist því árið fara kröftuglega af stað. Jafnframt hefur kaupmáttur launa verið að aukast nokkuð hratt, og rímar það ágætlega við tölur frá eftirspurnarhlið hagkerfisins sem benda til þess að einkaneysluvöxtur gæti orðið nokkuð myndarlegur á árinu. Er útlitið þar með hið ágætasta, að því gefnu að sumarið reynist þokkalega snjólétt. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall