Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 13. maí

08.05.2015 11:19

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 13. maí nk. Helstu rök nefndarinnar fyrir  óbreyttum vöxtum verða að

okkar mati þau að rétt sé að staldra við uns niðurstaða fæst í kjarasamninga sem nú eru yfirstandandi, en miðað við gang kjaraviðræðna og hversu mikið ber á milli aðila er afar ólíklegt er að niðurstaða verði komin í þessar viðræður fyrir vaxtaákvörðunina nú. 


Spá okkar er í samræmi við þá framsýnu leiðsögn sem finna má í yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar nefndarinnar sem var í mars. Leiðsögnin sem þar er að finna er nokkuð eindregið á þá leið að vaxandi órói á vinnumarkaði gæti teflt í tvísýnu stöðugleikanum sem áunnist hefur. Af þessum sökum var nefndin þá sammála um að rétt væri að staldra við uns efnahagshorfur skýrðust frekar, einkum varðandi launaþróun. Lítið hefur breyst hvað þetta varðar frá fundinum í mars og reiknum við með því að nefndin muni í því ljósi halda sinni framsýnu leiðsögn óbreyttri nú.  

Aukin verðbólga og miklar launahækkanir munu kalla á hækkun stýrivaxta síðar á árinu

Í yfirstandandi kjaraviðræðum eru kröfur uppi um mjög miklar hækkanir nafnlauna. Gangi þær eftir í samningum hjá stórum hluta vinnumarkaðarins er hætta á að þeim árangri sem náðst hefur við að koma verðbólgu og verðbólguvæntingum að verðbólgumarkmiði Seðlabankans sé stefnt í voða, svo vitnað sé til orða aðalhagfræðings Seðlabankans og eins meðlima peningastefnunefndarinnar í blaðagrein eftir síðustu vaxtaákvörðun. Verðbólguvæntingar hafa aukist undanfarið eftir verulega lækkun á seinni hluta síðasta árs, og má rekja þá aukningu, að hluta a.m.k., til ofangreindra launakrafna. Hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til 5 ára t.a.m. hækkað úr 2,3% í ársbyrjun í 4,1% þann 7. maí síðastliðinn . Þannig hefur ótti aðalhagfræðings þegar raungerst að hluta þó að niðurstaða kjarasamninga liggi ekki fyrir enn.  

Verðbólgan mælist nú 1,4% og hefur aukist frá síðustu vaxtaákvörðun í mars en þá mældist verðbólgan 0,8%. Hefur verðbólgan verið talsvert meiri en Seðlabankinn spáði í sinni nýjustu verðbólguspá, sem birt var samhliða vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í febrúar. Verðbólgan er samt enn talsvert undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. 

Við spáum því að verðbólgan muni aukast á þessu ári og verða áfram umtalsvert meiri en Seðlabankinn spáir í sinni nýjustu verðbólguspá. Spáum við því að verðbólgan muni á næsta ári fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið bankans. Ástæður aukinnar verðbólgu í spá okkar eru að stærstum hluta hröð hækkun launa og áframhaldandi verðhækkun íbúðarhúsnæðis, sem hvort tveggja endurspeglar vaxandi spennu í efnahags- og atvinnulífinu. Einnig hverfa grunnáhrif vegna mikillar lækkunar eldsneytisverðs í fyrra út úr 12 mánaða taktinum á seinni hluta ársins. Verðbólga gæti þó reynst meiri en við spáum. Þar kann að koma til enn hraðari hækkun launa en við gerum ráð fyrir, meiri hækkun íbúðaverðs og síðast en ekki síst sveiflur í gengi krónu þegar og ef umtalsverð skref verða stigin til losunar gjaldeyrishafta á komandi misserum. 

Raunvextir Seðlabankans miðað við ársverðbólgu og meginvexti bankans, þ.e. vexti á 7 daga bundnum innlánum, eru nú 3,1% og hafa lækkað frá síðustu vaxtaákvörðun bankans í mars þegar þeir mældust 3,7%. Hefur því dregið úr peningalegu aðhaldi á tímabilinu. 

Reiknum við með því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, miklum innlendum launahækkunum, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með hækkun stýrivaxta bankans um 0,75 prósentustig á þessu ári og 0,5 prósentustiga vaxtahækkun á næsta ári. Mun nefndin með þessu fylgja eftir orðum sínum, en í yfirlýsingu sinni vegna síðustu vaxtaákvörðunnar sagði hún að miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný.

Óvissa vegna niðurstöðu kjarasamninga og fyrirhugaðs afnáms fjármagnshafta

Líkt og áður er mikil óvissa um þróun krónunnar næstu misseri í ljósi óvissu um uppgjör búa föllnu fjármálafyrirtækjanna og fyrirhugaðra tilslakana gjaldeyrishafta. Má segja að þetta sé einn af stærstu óvissuþáttum stýrivaxtaspár okkar litið lengra fram í tímann, og í leiðinni spár okkar um verðbólguþróun. Til skemmri tíma er óvissan mest um niðurstöðu komandi kjarasamninga. Spá okkar um stýrivexti byggir á því að þær tilslakanir sem gerðar verða á gjaldeyrishöftum á spátímabilinu verði framkvæmdar þannig að þær munu ekki raska stöðugleikanum á gjaldeyrismarkaðinum og ekki kalla á hækkun stýrivaxta til að tryggja þann stöðugleika. 

Stýrivaxtaspá okkar má nálgast hér.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall