Fréttir Greiningar

Þjónustujöfnuður aldrei hagstæðari í upphafi árs

01.06.2015 11:44

Afgangur upp á 19,5 ma. kr. var af þjónustujöfnuði við útlönd á 1. fjórðungi þessa árs skv. bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti nú í morgun. Þetta er hátt í 4 mö. kr. hagstæðari útkoma en var á 1. ársfjórðungi í fyrra, og í raun hagstæðasta útkoma þessa jafnaðar frá upphafi á 1. ársfjórðungi. 

Útflutningur á þjónustu nam 101,2 mö. kr. og jókst um 8,0 ma. kr. milli ára, en innflutningur þjónustu nam 81,8 mö.kr. og jókst um 4,1 ma. kr. á sama tímabili. Var afgangurinn að stærstum hluta vegna rúmlega 22,8 ma. kr. afgangs af viðskiptum vegna samgangna og flutninga, sem er stærsti þjónustuliðurinn í útflutningi, en einnig vegna 6,6 ma. kr. afgangs á þjónustu tengdri ferðalögum. Halli var af annarri þjónustu upp á 13,3 ma.kr., en sá liður hefur ávallt mælst í halla á síðustu árum. Er stærsta skýringin rekstrarleiga sem væntanlega endurspeglar leigu flutningafyrirtækja á skipum og flugvélum. Má raunar segja að sá liður sé hin hliðin á þjónustutekjum vegna samgagna, enda eru leiguskipin og –flugvélarnar nýttar til að afla þeirra tekna.

Mestu munar um stórauknar ferðaþjónustutekjur

Eins og á undan er getið var afgangur af þjónustujöfnuði vegna ferðalaga upp 6,6 ma. kr. nú á 1. ársfjórðungi. Það er í takti við það sem búast mátti við enda hélt sú ævintýralega fjölgun sem verið hefur á erlendum ferðamönnum hér á landi á síðustu árum, og því samfara stóraukin kortanotkun þeirra hér, áfram á 1. ársfjórðungi. Var þessi aukning langt umfram þá fjölgun sem varð á utanlandsferðum Íslendinga eða eyðslu þeirra á erlendri grundu á sama tímabili. Alls námu tekjur af útfluttri ferðaþjónustu 31,3 mö. kr. á 1. ársfjórðungi, sem er 7,5 mö. kr. umfram það sem þær voru á sama tíma í fyrra. Hefur útflutningur slíkrar þjónustu aldrei verið eins mikill í upphafi árs. Innflutt ferðaþjónusta jókst ekki með sama hraða, en hún nam alls 24,7 mö. kr. á 1. ársfjórðungi, sem er 3,4 mö. kr. meira en á sama tíma í fyrra. 

Tekjur af erlendum ferðamönnum eru þó ekki einungis inn í þessum lið þjónustujafnaðar, þar sem þær koma einnig fram í samgöngum og eru þá tekjur íslenskra flugfélaga af því að flytja erlenda farþega, hvort sem það er til og frá Íslandi eða annars staðar í heiminum. Hagstofan hefur einnig birt þann hluta, og telur að samanlagðar tekur af erlendum ferðamönnum á 1. ársfjórðungi hafi numið 56,2 mö. kr., sem er 4,5 mö. kr. umfram það sem þær voru í fyrra en 10,2 mö. kr. meiri en þær voru á sama tíma árið 2013. 

Útflutningur eykst á alla kanta 

Auk mikils vaxtar þjónustuútflutnings var einnig myndarlegur vöxtur í vöruútflutningi á 1. ársfjórðungi. Má þar hefna að útflutningur sjávarafurða jókst um 9,1 ma. kr. milli ára, og útflutningur álafurða um 23,4 ma.kr. Í báðum tilfellum koma til áhrif af hækkandi verði á heimsmarkaði, en við þau bætast t.d. betri loðnuvertíð og það að ekki var um að ræða skömmtun á orku til álvera þennan veturinn eins og raunin var í fyrra. Samanlagður vöru- og þjónustuútflutningur jókst því um 37,7 ma.kr. á milli ára, og nam alls 260,6 mö. kr. og hefur aldrei áður verið meiri á 1. ársfjórðungi.

Tölur greiðslujöfnuð birtar á morgun

Hagstofan hefur einnig uppfært brúartöflu sína sem sýnir breytingar á útgefnum tölum á vöru- og þjónustuviðskiptum og tölum um viðskipti eins og þau birtast í greiðslujöfnuði, en Seðlabankinn mun svo birta heildartölur fyrir greiðslujöfnuð á 1. ársfjórðungi á morgun. Liggja því fyrir bráðabirgðatölur um tvo af þremur undirþáttum viðskiptajafnaðarins, þjónustujöfnuð (19,5 ma. kr. afgangur) og vöruskiptajöfnuð (2,1 ma. kr. halli). Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var því 17,3 ma. kr. nú á 1. ársfjórðungi, sem er 2,8 ma. kr. hagstæðari útkoma en á sama tímabili í fyrra. Hér er rétt að hafa í huga að umfangsmikil flugvélakaup lita tölur 1. ársfjórðungs, og er því undirliggjandi bati á vöru- og þjónustuviðskiptum milli ára meiri en tölurnar gefa til kynna þar sem flugvélakaupin skila sér væntanlega í auknum þjónustutekjum á komandi misserum.

Þriðji liðurinn, þáttatekjur og tilfærslur nettó, birtist svo á morgun. Ávallt er erfitt að ráða í hvernig sá liður lítur út í einstökum ársfjórðungum. Á 1. ársfjórðungi í fyrra var hann til að mynda í halla en árið þar á undan með afgang. Mun sá liður þar með ráða hversu mikill afgangurinn verður á undirliggjandi viðskiptajöfnuði á fjórðungnum, en við teljum þó meiri líkur en minni að afgangur reynist af viðskiptajöfnuði. Í nýútkominni þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir viðskiptaafgangi sem nemur 4,9% af vergri landsframleiðslu í ár, og líklega mun sá afgangur eiga sér rætur í öllum ársfjórðungum þótt hann verði trúlega mestur á 3. ársfjórðungi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall