Fréttir Greiningar

Afgangur af utanríkisviðskiptum og erlend staða batnar á 1. ársfjórðungi

03.06.2015 11:28

Viðvarandi afgangur af utanríkisviðskiptum undanfarin ár er stór þáttur í þeim mikla bata sem orðið hefur á erlendri stöðu þjóðarbúsins. Er nú svo komið að undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins er viðráðanleg, og útlit er fyrir að áframhaldandi viðskiptaafgangur og uppgjör slitabúa gömlu bankanna muni enn bæta stöðuna næsta kastið.

Undirliggjandi viðskiptaafgangur var 12,0 ma.kr. á 1. ársfjórðungi 2015 samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Er það 4,8 mö.kr. meiri afgangur en á sama fjórðungi í fyrra, en mun minna en sá 27,5 ma.kr. undirliggjandi viðskiptaafgangur sem var að jafnaði á hverjum ársfjórðungi árið 2014. Þáttatekjur án áhrifa slitabúa voru óhagstæðar um 2,2 ma.kr. á fjórðungnum og rekstrarframlög voru óhagstæð um 3,2 ma.kr. Þegar lá fyrir að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði nam 17,3 mö.kr. á tímabilinu. Að slitabúunum meðtöldum nam þáttatekjuhalli hins vegar 10,8 mö.kr. og viðskiptaafgangur 3,3 mö.kr. Þar verður að hafa í huga að reiknuð vaxtagjöld gömlu bankanna vega talsvert þungt í síðarnefndu tölunum, en þar er að stórum hluta um bókhaldsæfingu að ræða fremur en raunverulegar greiðslur.

Jöfnuður þáttatekna sveiflast oft verulega milli ársfjórðunga. Ástæðan er að stórum hluta tekjur og gjöld vegna ávöxtunar af beinni fjárfestingu milli landa. Að þessu sinni virðast bæði gjöldin hafa verið með meira móti og tekjurnar með minna móti í þessum lið. 

Við gerum ráð fyrir í nýútkominni þjóðhagsspá okkar að undirliggjandi viðskiptaafgangur muni nema 4,9% af VLF í ár, sem samsvarar ríflega 100 mö.kr., og er ekkert í þessum nýju tölum Seðlabankans sem breytir þeirri skoðun okkar. Líklegt er að drjúgur hluti þessa afgangs komi til á 3. ársfjórðungi, þegar þjónustuafgangur nær hámarki vegna ferðamannastraums hingað til lands. Í fyrra átti til að mynda nærri helmingur 120,5 ma.kr. undirliggjandi viðskiptaafgangs ársins uppruna á þeim fjórðungi.

Hrein erlend staða batnar um nærri 100 milljarða

Seðlabankinn birti einnig mat á undirliggjandi erlendri stöðu þjóðarbúsins, en þá er búið að áætla áhrif af uppgjöri slitabúa gömlu bankanna og fleiri fyrirtækja í slitameðferð. Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins var neikvæð um 38% af VLF, eða 783 ma.kr., í lok 1F 2015 samkvæmt þessu mati bankans. Er það bati um 97 ma.kr. frá áramótum. Hagstæðar innbyrðis virðisbreytingar eigna og skulda um samtals 71 ma.kr. eru ein stærsta ástæða batans. Undirliggjandi hrein erlenda staða þjóðarbúsins er því neikvæð um svipað hlutfall af VLF og var á tíunda áratug síðustu aldar. Oft er miðað við 60% sem hættumörk fyrir hreinar erlendar skuldir landa, og lítur því út fyrir að staðan sé umtalsvert betri en svo. Í töflunni að ofan má sjá stöðu erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins m.v. mismunandi forsendur. 

Rétt er að hafa í huga að við mat á undirliggjandi stöðunni er ekki gert ráð fyrir niðurfærslu eða skattlagningu á hluta eigna slitabúanna, sem getur bætt erlendu stöðuna verulega. Til að mynda hefur Seðlabankinn nýlega metið það misvægi milli landasamsetningar eigna búanna annarsvegar, og krafna hinsvegar, sem skapar þrýsting á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins. Er niðurstaða bankans að misvægið nemi ríflega 500 ma.kr. Verði þetta misvægi þurrkað út með stöðugleikaskatti, eftirgjöf eigna í nauðasamningum eða öðrum leiðum bætir það erlendu stöðuna um allt að 25% af VLF. Gæti hrein erlend staða þjóðarbúsins því reynst neikvæð um minna en 20% af VLF á komandi misserum ef þetta verður reyndin, sér í lagi ef við bætast áhrif af áframhaldandi viðskiptaafgangi líkt og við gerum ráð fyrir næstu ár.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall