Fréttir Greiningar

Hóflegur hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi

09.06.2015 12:05

Hagvöxtur á 1. fjórðungi þessa árs mældist 2,9% samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Um er að ræða viðlíka hagvöxt og mældist á 4. ársfjórðungi í fyrra, en þá var hann 3,0%. Tölurnar benda til þess að hagkerfið vaxi áfram með hóflegum hætti m.v. það sem sést hefur hér á landi í mörgum fyrri uppsveiflum. Er það í takti við þann tón sem við slógum í þjóðhagsspá okkar sem við birtum þann 26. maí síðastliðinn. 

Nokkuð undir því sem spáð er fyrir árið

Hagvöxturinn á 1. ársfjórðungi er nokkuð undir því sem hagvaxtarspár fyrir árið í heild hljóða upp á, en við reiknum með því að hagvöxtur í ár verði 4,0% og spá Seðlabankans er 4,6%. Vöxturinn er einnig nokkuðundir því sem tölur af vinnumarkaði gáfu tilefni til að ætla, en heildarvinnustundum í hagkerfinu fjölgaði um 4,2% á 1. ársfjórðungi milli ára samkvæmt tölum Hagstofunnar. Rétt er að árétta að hagvaxtartölur fyrir 1. ársfjórðung eru bráðabirgðatölur sem kunna að vera leiðréttar síðar.   

Hraður vöxtur í innlendri eftirspurn

Hagvöxturinn á 1. ársfjórðungi einkenndist af miklum vexti í innlendri eftirspurn. Jókst einkaneysla um 3,9% og fjárfesting um 23,5%. Er vöxturinn í einkaneyslunni nokkuð nálægt því sem við spáum fyrir árið í heild, en aukinn kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur verið einn helsti drifkraftur þess vaxtar. Vöxturinn ber þess merki að hagur heimilanna er að vænkast. Hins vegar er vöxtur einkaneyslu öllu hóflegri en við höfum séð í mörgum fyrri uppsveiflum og er ekki drifinn áfram af aukinni skuldsetningu heimilanna með sama hætti og oft áður í uppsveiflum hér á landi. 

Fjárfestingarstigið að hækka 

Mikill vöxtur í fjárfestingum á 1. ársfjórðungi er ánægjuefni, en fjárfestingarstigið í hagkerfinu hefur verið lágt undanfarin ár þrátt fyrir að hafa rétt nokkuð úr kútnum frá upphafi áratugarins. Var fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu á 1. fjórðungi þessa árs 19,3% og hefur hlutfallið ekki mælst hærra á síðustu árum. Lægst fór hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu í ríflega 14% árið 2010. Þessi mikli vöxtur í fjárfestingum á 1. ársfjórðungi skýrist hins vegar að miklu leyti af flugvélakaupum á tímabilinu, en án þeirra fjárfestinga og fjárfestinga í skipum var aukning atvinnuvegafjárfestingarinnar 5,4% og vöxtur fjármunamyndunar í heild 2,9% . 

Útflutningsvöxturinn drifinn áfram af vexti ferðaþjónustu

Útflutningur jókst um 2,7% á 1. ársfjórðungi, sem er frekar hægur vöxtur miðað við undanfarin ár. Skýrist aukningin alfarið af vexti þjónustuútflutnings sem jókst um 7,6% á tímabilinu. Má rekja þann vöxt að stórum hluta til vaxtar í ferðaþjónustu, en ferðamenn á fyrsta ársfjórðungi voru hátt nær þriðjungi fleiri en á sama tímabili í fyrra. Samdráttur mældist hins vegar í vöruútflutningi um 0,8% bæði vegna samdráttar í útflutningi á sjávarafurðum á tímabilinu og iðnaðarvöru. Hér þarf hins vegar að hafa í huga að veruleg birgðaaukning varð í  sjávarafurðum á fjórðungnum vegna aukins loðnuafla, og koma þær birgðir væntanlega fram í auknum útflutningi á næsta ársfjórðungi.

Mikill vöxtur í innflutningi

Afar hraður vöxtur var í innflutningi á 1. ársfjórðungi, en hann jókst um 17,4% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Skýrist vöxturinn að hluta af miklum flugvélainnflutningi á tímabilinu, enda námu flugvélakaup 20,5 mö. kr. samanborið við 1,5 ma. kr. á sama tímabili í fyrra. Mældist vöxturinn í innflutningi tæp 10% á tímabilinu án þessara kaupa á flugvélum. Vöxturinn í innflutningi neysluvara var þrátt fyrir þetta hraður. Skýrist það einkanlega af miklum vexti í innflutningi á varanlegum neysluvörum og bifreiðum til einkanota, sem tengist þá aftur þeim vexti í einkaneyslu sem mældist á tímabilinu.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall