Fréttir Greiningar
Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í júní
12.06.2015 09:46
.gif?proc=_Greining)
Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru svipaðar og í síðustu spá að okkar mati. Við teljum að verðbólgan muni verða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans stærstan hluta ársins, en fara yfir markmiðið á síðasta ársfjórðungi. Horfur eru á vaxandi verðbólgu í kjölfarið, en hún verður þó samkvæmt spánni rétt innan 4,0% efri þolmarka verðbólgumarkmiðsins næstu ár. Hagstofan birtir VNV fyrir júní kl. 09:00 þann 26. júní næstkomandi.
Ferðaliðir meginskýring hækkunar VNV

Á móti virðast líkur á því að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar markaðsverð íbúðarhúsnæðis, muni lækka um 0,4% (-0,06% í VNV) í júní. Nokkur óvissa er um þetta, enda standa verkföll lögfræðinga á höfuðborgarsvæði enn og því hefur engum kaupsamningum verið þinglýst í Reykjavík og nágrenni frá páskum. Við gerum hins vegar ráð fyrir að Hagstofan bregði ekki frá venjulegri aðferðafræði þrátt fyrir stopul gögn, og skilar athugun okkar skv. þeirri aðferðafræði ofangreindri niðurstöðu.
Þá gætu orðið sveiflur í verðþróun á ýmsum tegundum matvæla og drykkja, þótt við gerum ráð fyrir litlum breytingum á liðnum í heild. Þar mun verkfall BHM líklega einnig hafa áhrif, enda hefur framboð á ýmsum kjötvörum verið takmarkað undanfarið, sem eykur líkur á verðhækkun á þeirri kjötvöru sem þó fæst. Þá er líklegt að ávextir hækki talsvert í verði en á móti gæti grænmeti lækkað nokkuð eftir verulega verðhækkun undanfarna tvo mánuði.
Vaxandi verðbólga þegar fram í sækir

Horfur fyrir næstu mánuði hafa þó batnað lítillega. Við gerum ráð fyrir 0,2% lækkun VNV í júlí, 0,4% hækkun í ágúst og 0,3% hækkun í september. Útsöluáhrif skýra stóran hluta bæði af lækkun í júlí og hækkun í ágúst. Gangi spáin eftir mun VNV hækka um 0,5% á 3. ársfjórðungi, og verðbólga mælast 2,1% í lok fjórðungsins.
Í kjölfarið spáum við því að verðbólga fari yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans á síðasta fjórðungi þessa árs, og mælist 3,1% í árslok. Enn mun bæta í verðbólguna á næsta ári, og gerum við ráð fyrir 3,7% verðbólgu í lok ársins 2016. Verðbólga verður samkvæmt spánni rétt undir efri mörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans stærstan hluta næsta árs, og ljóst að ekki þarf mikið til að hún fari yfir þolmörkin.
Forsendur okkar varðandi launaþróun, íbúðaverð og gengi krónu til meðallangs tíma eru óbreyttar frá fyrri spá. Vaxandi verðbólga samkvæmt spánni skýrist að stórum hluta af mun hraðari hækkun launa en samrýmist stöðugu verðlagi, enda bendir flest til þess að sú verði raunin. Þá teljum við að íbúðaverð hækki áfram að raunvirði, og setji þar með þrýsting upp á við á verðbólguna. Loks festum við gengi krónu í núverandi gildi, enda hefur gengi krónunnar verið óbreytt í nærri hálft annað ár undir styrkri stjórn Seðlabankans. Í ljósi þess að nú fer í hönd tímabil þar sem fjármagnshöft verða losum jafnt og þétt má þó búast við auknum sveiflum í gengi krónu á komandi fjórðungum, þótt óvissan um gengisbreytingar sé nokkurn veginn samhverf að mati okkar.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?