Fréttir Greiningar

Sjaldan verið meiri vöxtur í kortaveltu útlendinga

15.06.2015 10:20

Eins og við mátti búast var kortavelta útlendinga mikil hér á landi í maímánuði, og var enn eitt metið slegið í þeim efnum. Þannig nam kortavelta þeirra hér á landi 13,3 mö. kr. í mánuðinum, sem er ríflega 4,2 mö. kr. hærri fjárhæð en í maí í fyrra. Þetta jafngildir aukningu upp á 47% í krónum talið á milli ára, sem er mesta aukning á þann kvarða síðan í nóvember 2012. Þetta er jafnframt talsvert umfram þann vöxt sem varð á brottförum útlendinga í mánuðinum, en alls fóru 91 þús. útlendingar frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF) í maí sl. sem er 36,4% fleiri en á sama tíma í fyrra. 

Hagstæðasta útkoma frá upphafi

Kortavelta Íslendinga í útlöndum (vegna ferðalaga og netviðskipta) nam alls 8,9 mö. kr. í maí sl., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga erlendis) þar með jákvæður um 4,4 ma. kr. í mánuðinum. Er hér um að ræða lang hagstæðustu útkomu á kortaveltujöfnuði í maímánuði frá upphafi. Á sama tíma fyrra var hann jákvæður um 1,2 ma. kr. og ári áður um 0,3 ma. kr., sem jafnframt var í fyrsta sinn sem kortavelta Íslendinga í útlöndum var umfram kortaveltu útlendinga  hér á landi í maímánuði.

Frá áramótum talið nemur kortavelta útlendinga hér á landi 47,7 mö. kr., en Íslendinga í útlöndum 37,8 mö. kr. Hefur kortavelta útlendinga aukist um 41% í krónum talið á milli ára en Íslendinga aukist um tæp 16% á sama tímabili. Er kortaveltujöfnuður þar með hagstæður um 9,9 ma. kr. á þessu tímabili samanborið við 1,2 ma. kr. á sama tíma í fyrra, en fyrir þann tíma var jöfnuðurinn ávallt í halla á fyrstu 5 mánuðum ársins. 

Seðlabankinn bætir í gjaldeyrisforðann

Á fyrstu 5 mánuðum ársins hefur Seðlabankinn keypt 350 m. evra af gjaldeyri (jafnvirði 52,1 ma. kr.) á millibankamarkaði og jók þar með gjaldeyrisforða sinn sem því nemur. Á sama tíma hefur gengi krónu hins vegar verið stöðugt gagnvart körfu helstu viðskiptamynta. Endurspegla kaup Seðlabankans því að verulegu leyti það nettó gjaldeyrisinnflæði sem var á innlendum gjaldeyrismarkaði á tímabilinu, en það má að miklu leyti þakka þeim mikla uppgangi sem verið hefur í ferðaþjónustu hér á landi. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall