Fréttir Greiningar

Einn af hverjum tíu í ferðaþjónustu

29.06.2015 11:55

Starfsfólk í ferðaþjónustu hér á landi voru 18.500 í maí síðastliðnum sem var um 10,1% af heildarfjölda starfandi í hagkerfinu í þeim mánuði. Ríflega einn af hverjum tíu starfandi í mánuðinum voru því í ferðaþjónustu. Er þetta nokkuð meiri fjöldi en störfuðu í greininni í maí í fyrra en þá voru þeir 16.900 eða 9,4% af heildarfjölda starfandi í landinu í þeim mánuði. Hefur starfsmönnum í greininni fjölgað um 9,5% eða um 1.600 á milli ára og endurspeglar það þann mikla vöxt sem hefur verið í greininni á tímabilinu bæði í fjölda ferðamanna og gjaldeyristekjum. Kemur þetta fram í tölum sem Hagstofan hefur birt. 

Skýrir um 41% fjölgun starfa frá maí í fyrra

Í hagkerfinu öllu störfuðu 3.900 fleiri í maí í ár en í sama mánuði í fyrra. Skýrir  vöxturinn í ferðaþjónustunni 41% af þeirri fjölgun. Greinin heldur því áfram að vera lykilgrein í því að fjölga störfum í hagkerfinu í þessari uppsveiflu. Þess má geta að á tímabilinu frá 2010 þ.e. frá því að hagkerfið byrjaði að taka við sér og þar til í fyrra átti ferðaþjónustan 45% af heildarfjölgun starfa í hagkerfinu líkt og bent er á í skýrslu um íslenska ferðaþjónustu sem við birtum í mars á þessu ári. 

Hefur átt drjúgan þátt í að ná niður atvinnuleysinu

Í maí síðastliðnum voru 13.200 án vinnu og atvinnuleysið 6,7% samanborið við 7,2% í fyrra. Ljóst er að fjölgun starfa í ferðaþjónustu hefur átt drjúgan þátt í því að draga úr atvinnuleysinu á tímabilinu líkt og frá upphafi þeirrar uppsveiflu sem nú stendur yfir í hagkerfinu. Að sama skapi hefur greinin átt drjúgan hluta af hagvextinum eða um þriðjung að okkar mati á tímabilinu frá því að hagkerfið byrjaði að taka við sér árið 2010 þar til í fyrra. 

Yfir 20 þúsund manns starfandi í greininni á háannatíma 

Reikna má með því að fjöldi starfandi í ferðaþjónustu yfir háannatíma fari yfir 20 þúsund að meðaltali í mánuði hverjum sem er um 11% af heildafjölda starfandi í hagkerfinu. Hefur umfang greinarinnar aldrei verið meira á vinnumarkaði hér á landi. Eru þá ótaldir þeir sem starfa óbeint við ferðaþjónustu m.a. í byggingastarfsemi. Í tölunum felst því vanmat á umfangi  greinarinnar á vinnumarkaði. Má nefna að hluti af þeim vexti sem nú má greina í byggingastarfsemi er vegna vaxtar í ferðaþjónustu en umtalsverð uppbygging á sér nú stað í hótelum og gistirýmum.     

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall