Fréttir Greiningar

Fyrsta hækkun Moody´s eftir fallið mikla

01.07.2015 09:46

Í fyrradag tilkynnti matsfyrirtækið Moody´s að það hefði hækkað lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs fyrir erlendar og innlendar skuldbindingar um eitt þrep, þ.e. úr Baa3/P-3 í Baa2/P-2. Er hér um að ræða fyrstu hækkun fyrirtækisins á einkunnum ríkissjóðs frá hinu mikla lækkunarferli sem hófst í ársbyrjun 2008. Horfur verða áfram stöðugar í bókum Moody´s líkt og þær voru fyrir þessa aðgerð. Þetta má sjá í tilkynningu fyrirtækisins sem birt var á síðu Seðlabanka Íslands á mánudag. 

Þrír lykilþættir:

Í tilkynningu Moody´s eru tilgreindir þrír lykilþættir sem réðu því að fyrirtækið ákvað að hækka lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs: 
  1. Vandlega undirbúnar aðgerðir hafa verið kynntar til að losa fjármagnshöft sem gera ráð fyrir að draga úr viðkvæmri erlendri stöðu þjóðarbúsins samhliða því að standa vörð um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.
  2. Væntingar um bætta skuldastöðu Ríkissjóðs Íslands á næstu þremur til fjórum árum vegna öflugs hagvaxtar, frekara aðhalds í ríkisfjármálum og fyrirframgreiðslu skulda ríkissjóðs.
  3. Bætt umgjörð þjóðhags- og eindarvarúðarreglna sem miða að því að varðveita fjármálastöðugleika til framtíðar.

Sjáum við frekari hækkun á lánshæfismati í júlí?

Ofangreind hækkun á lánshæfiseinkunnum ríkissjóðs hjá Moody´s eru ótvírætt jákvæð tíðindi, enda liðka allar jákvæðar breytingar á slíkum einkunnum fyrir skuldabréfaútgáfu hans erlendis. Einnig skiptir miklu máli fyrir aðra innlenda aðila sem hyggja á erlenda lánsfjármögnun að ríkissjóður sé virkur og njóti ásættanlegra kjara á erlendum mörkuðum.

Lánshæfismat ríkissjóðs er á jákvæðum horfum hjá matsfyrirtækjunum S&P og Fitch, en þau koma bæði til með að gefa út lánshæfismat á ríkissjóð nú í júlí. S&P mun birta lánshæfismat á ríkissjóð þann 17. júlí nk., en ríkissjóður er þar með BBB- í einkunn fyrir langtímaskuldbindingar bæði í erlendri og innlendri mynt. M.v. áhætturöðun á einkunnaskala matsfyrirtækjanna er BBB- einu þrepi lægra en einkunn ríkissjóðs er hjá Moody´s nú (Baa2). Hjá Fitch er einkunn ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt BBB en þrepi ofar fyrir skuldbindingar í innlendri mynt, þ.e. BBB+. Fitch mun gefa út lánshæfismat á ríkissjóð þann 24. júlí nk. Stóra spurningin er eðlilega sú hvort að þau munu taka í sama streng og Moody´s og hækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Við teljum það a.m.k. ekki ólíklegt þar sem einkunnir eru á jákvæðum nótum hjá fyrirtækjunum og höfðu þau einmitt lagt áherslu á sömu þætti og Moody´s. 

Að mati Moody´s gæti lánshæfismat ríkissjóðs verið hækkað ef bati hagkerfisins reynist viðvarandi og jafnvægi viðhelst á ríkisfjármálum. Einnig myndu vel útfærð slit gömlu bankanna og árangursrík losun gjaldeyrishafta án verulegra gengissveiflna auka líkur á hækkun matsins. Takist miður til um framangreinda þætti og/eða gengi krónu veikist verulega mun það að sama skapi hafa neikvæð áhrif á einkunn ríkissjóðs. 

Mikil sveifla á einkunnum Íslands

Lánshæfismat ríkissjóðs var hæst á árunum 2005 og 2006. Þá hafði ríkissjóður einkunnina AAA hjá Moody´s, en AA- hjá bæði S&P og Fitch. Munurinn á einkunnum Moody´s annars vegar og einkunnum hinna tveggja hins vegar var óvenju mikill á þessum tíma, eða sem nemur um þremur þrepum. Á þessum árum voru einkunnir ríkissjóðs Íslands sambærilegar við einkunnir flestra annarra iðnríkja sem eru á meðal traustustu lántakenda á alþjóðlegri grundu.

Í desember 2006 byrjaði svo að halla undan fæti á lánshæfismati ríkissjóðs þegar S&P lækkaði einkunn ríkissjóðs um eitt þrep, og nokkrum mánuðum síðar gerði Fitch hið sama. Árið 2008 hófst svo gríðarlegt lækkunarferli á lánshæfiseinkunnum ríkissjóðs, og náði lánshæfismat botni í janúar 2010 þegar Fitch setti einkunnir ríkissjóðs í spákaupmennskuflokk. Snemma árs 2012 fór þróunin fyrst að snúast til betri vegar þegar Fitch hækkaði einkunnir ríkissjóðs í fjárfestingaflokk á ný, og hækkaði svo aftur ári síðar. Eins og áður segir er ofangreind hækkun Moody´s fyrsta hækkun þess á lánshæfiseinkunnum ríkissjóðs eftir hrunið, en S&P hefur ekki hækkað einkunnir frá lækkunarferlinu mikla. 

Í lakari kantinum af Evrópuríkjum 

Ekki eru mörg ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) með lakara lánshæfismat en Ísland nú  um þessar mundir. Af 31 ríkjum EES eru aðeins 7 með verra lánshæfismat, þ.e. Búlgaría, Rúmenía, Ungverjaland, Portúgal Króatía, Kýpur og svo Grikkland. Lánshæfismat Íslands er þó á svipuðum nótum og Spánar og Ítalíu, en þar átti sér einnig stað mikil lækkun undir lok seinasta áratugar. Lánshæfismat á hinum Norðurlöndunum er eins og það gerist  hvað best, en Danir, Svíar og Norðmenn eru með hæstu einkunn frá öllum matsfyrirtækjunum þremur. Lánshæfismat Finna er einnig gott, en það er með hæstu einkunn hjá bæði Moody´s og Fitch en næsthæstu hjá S&P. Eigum við þar með langt í land að sigla upp í lánshæfi frændþjóða okkar þótt góðar líkur séu á að bilið minnki eitthvað á komandi árum.
 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall