Fréttir Greiningar

Væntingavísitalan ekki hærri síðan í janúar 2008

01.07.2015 09:48

Mikil hækkun var á væntingum neytenda til efnahags- og atvinnulífs í júní frá fyrri mánuði skv. Væntingavísitölu Gallup (VVG) sem Gallup hefur nú birt. Þannig mældist gildi vísitölunnar 107,1 stig í júní sem er hæsta gildi hennar síðan í janúar 2008. Er vístalan komin nokkuð yfir 100 stig sem segir að fleiri neytendur eru bjartsýnir en svartsýnir á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum. Hefur vísitalan mælst yfir 100 stigum einungis í fjóra mánuði frá upphafi árs 2008. Hækkunin núna á milli maí og júní mælist 24 stig sem er umtalsvert og sjaldgæft að vísitalan hækki svo mikið á milli einstakra mánaða.  

Hvað einstakar undirvísitölur Væntingavísitölunnar varðar hækkuðu bæði vísitölur sem lýsa væntingum til næstu 6 mánaða og mati á núverandi ástandi. Hefur undirvísitalan sem lýsir skoðun neytenda á núverandi efnhags- og atvinnuástandi ekki verið hærri síðan í apríl 2008, en sú sem lýsir væntingum til næstu 6 mánaða hefur mælst hærri á eftirhrunsárunum. 

Væntingar karlmanna og hátekjufólks hækka mest

Athygli vekur að hækkunin nú á milli mánaða er mest hjá karlmönnum og þeim sem hafa hæstar tekjur. Þannig mælist væntingavísitalan fyrir karlmenn nú 131,4 stig og hækkar um 43,6 stig á milli mánaða á meðan væntingavísitalan fyrir konur mælist 75,9 stig og lækkar um 2,8 stig á milli mánaða. Hefur munur á væntingum karla og kvenna til efnahags- og atvinnuástandsins aldrei verið meiri frá því að mælingar hófust á Vængingavísitölunni árið 2001. Er það áleitin spurning af hverju þessi mikli munur er og hvers vegna hann eykst svo mikið nú sem raun ber vitni. Lýsir munurinn eflaust aðstöðumun kynjanna að einhverju leyti, s.s. launamun. Einnig kann það að skipta máli nú og skýra að hluta af hverju gliðnar jafn mikið á milli hópanna á milli maí og júní og raun ber vitni að hjúkrunafræðingar, sem að stærstum hluta konur, eru enn í erfiðum og langvinnum kjaradeilum við ríkið. Þriðja skýringin gæti síðan verið tölfræðilegs eðlis þar sem úrtakshópurinn getur valdið nokkru flökti í þessum kynjuðu undirvísitölum Væntingavísitölunnar á milli mánaða. 

Væntingavísitalan hækkar hins vegar fyrir alla tekjuhópa, en líkt og áður sagði mest hjá þeim sem eru með hæstu tekjurnar. Væntingavísitala þess hóps mælist nú 132,9 stig en hjá þeim tekjulægstu mælist hún 79,6 stig. 

Kjarasamningar og áætlun um afnám gjaldeyrishafta

Við teljum að þetta stökk í Væntingavísitölunni megi rekja að miklu leyti til þess að nú hefur verið samið við stóran hluta vinnumarkaðarins, en harðvítugar og langvinnar deilur stóðu á milli aðila vinnumarkaðarins þegar mælingin var gerð í maí. Við þetta bætist að nú er komin fram áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem mun væntanlega hafa talsvert jákvæð efnahagsleg áhrif. Í ljósi þessa kemur þróun Væntingavísitölunar nú ekki á óvart. 

Töluverð hækkun í fyrirhuguðum stórkaupum

Vísitala Gallup fyrir fyrirhuguð stórkaup neytenda stóð í júní í sínu hæsta gildi síðan í mars 2008 en sú vísitala er mæld ársfjórðungslega. Mældist vísitalan 66,8 stig í júní og hækkaði um 2,1 stig frá því í mars. Sá hluti þeirrar vísitölu sem hækkar mest á milli ársfjórðunga eru fyrirhuguð bifreiðakaup, sem stóðu í júní í sínu hæsta gildi síðan í september 2007, eða í 32,1 stigi og hækkar um 5,0 stig frá því í mars. Um er að ræða einn af þeim þáttum neyslu heimilanna sem er hvað næmastur fyrir breytingum í fjárhagslegri stöðu þeirra. Rímar þetta við tölur um mikla aukingu í innflutningi og sölu nýrra bifreiða um þessar mundir. Einnig hækkar undirvísitala fyrir fyrirhugaðar utanlandsferðir nokkuð, sem aftur rímar við tölur sem sýna að ferðum Íslendinga erlendis hefur fjölgað mikið undanfarið. Mældist sú vísitala í 160,1 stigi nú í júní sem er hæsta gildi hennar frá því í mars 2008 og hækkar um 2,2 stig á milli mánaða. Á hinn bóginn lækkar vísitala fyrir húsnæðiskaup um tæpt stig milli ársfjórðunga, þótt hún mælist raunar talsvert hærri en á sama tíma fyrir ári. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall