Fréttir Greiningar

Spáum 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta 19. ágúst nk.

12.08.2015 11:20

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 19. ágúst nk. Mun nefndin að okkar mati rökstyðja hækkunina með verri verðbólguhorfum, miklum innlendum launahækkunum og vaxandi spennu í efnahagslífinu. 

Spá okkar er í samræmi við þá framsýnu leiðsögn sem finna má í yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar nefndarinnar, sem var 10. júní sl. Leiðsögnin sem þar er að finna er nokkuð eindregið á þá leið að framundan eru frekari vaxtahækkanir. Eftir fundinn í ágúst eru þrír vaxtaákvörðunarfundir eftir á árinu. Að okkar mati er frekari vaxtahækkana að vænta á þeim fundum.

Peningastefnunefndin sammála um að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst

Í fundargerð peningastefnunefndar, sem birt var eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund nefndarinnar 8. og 9. júní sl., kemur fram að fjórir af fimm nefndarmönnum greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra um 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta. Einn þeirra hefði þó heldur kosið að hækka vexti um 0,75 prósentur en taldi sig engu að síður geta fallist á tillögu seðlabankastjóra. Einn nefndarmaður greiddi hins vegar atkvæði gegn tillögu bankastjóra og vildi hækka vexti um 1 prósentu.

Atkvæðagreiðslan endurspeglar þann harða tón sem greina mátti í yfirlýsingu nefndarinnar vegna síðustu vaxtaákvörðunar.  Er sú afstaða sýnileg í fundargerðinni að nefndarmenn vildu í yfirlýsingunni  senda skýr skilaboð um að framundan væru frekari vaxtahækkanir. Segir í fundargerðinni að nefndarmenn hafi verið sammála um að hækka þyrfti vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum ætti að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið.  Með því að senda skýr skilaboð um væntanlegar vaxtahækkanir segir í fundargerðinni að markaðurinn yrði búinn undir þær og að áhrifa boðaðra vaxtabreytinga myndi að einhverju leyti gæta strax á skuldabréfamarkaði, líkt og gerðist í maí.  Þessi harði tónn er þannig til þess fallinn að auka peningalegt aðhald umfram það sem ákvörðun nefndarinnar um hækkun stýrivaxta um 0,5 prósentustig gerði.

Í fundargerðinni er sagt að krafturinn í þjóðarbúskapnum hefði þegar á síðasta fundi nefndarinnar, þ.e. í maí, kallað á hert taumhald óháð niðurstöðum kjarasamninga. Þörfin á hækkun vaxta hefði síðan aukist enn frekar þar sem taumhaldið hefði slaknað á milli funda vegna hækkunar verðbólguvæntinga. Loks hefði bæst við að launahækkanir í kjarasamningum væru meiri en útlit var fyrir á síðasta fundi.

Reiknum með að Seðlabankinn hækki verðbólguspá sína

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú í ágúst mun Seðlabankinn birta uppfærða verðbólguspá, en síðast birti bankinn þjóðhags- og verðbólguspá samhliða vaxtaákvörðuninni í maí. Reiknum við með því að bankinn muni hækka verðbólguspá sína, m.a. í ljósi nýgerðra kjarasamninga. Við spáum nokkuð meiri verðbólgu næsta kastið en Seðlabankinn gerir í maíspá sinni, en spá hans þá hljóðaði upp á 2,7% verðbólgu á á fjórða fjórðungi þessa árs og 3,3% á fjórða fjórðungi næsta árs svo dæmi sé tekið. Okkar spá hljóðar hins vegar upp á 3,1% verðbólgu á fjórða fjórðungi þessa árs og 3,8% á fjórða fjórðungi næsta árs.  Ástæða munarins felst eflaust að stærstum hluta í því að við reiknum með meiri launahækkunum á spátímabilinu en Seðlabankinn. 

Á móti þessu kemur að verðbólguálagið, eins og það er mælt sem munur á verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum á skuldabréfamarkaði, hefur lækkað frá síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans. Var álagið til 5 ára t.d. 4,6% við vaxtaákvörðunina í júní en er nú 4,1%. Í því sambandi mun peningastefnunefndin eflaust horfa til þess að sú lækkun skýrist a.m.k. að talsverðum hluta af innkomu erlendra aðila á skuldabréfamarkaðinn á tímabilinu sem m.a. tengist áformum um afnám gjaldeyrishafta, ásamt breyttum horfum um framboð óverðtryggðra ríkisbréfa á komandi misserum.  Einnig verður nefndin þá með í höndunum niðurstöðu nýrrar spurningakönnunnar meðal markaðsaðila þar sem m.a. er spurt um verðbólguvæntingar þessara aðila. Síðasta könnun var gerð fyrir birtingu þjóðhags- og verðbólguspár bankans í maí sl.

Við reiknum með því að Seðlabankinn breyti þjóðhagsspá sinni óverulega, en bankinn reiknar með 4,6% hagvexti í ár, 3,4% á næsta ári og 3,1% árið 2017. Þjóðhagsspá bankans er nokkuð keimlík okkar en við spáum 4,0% hagvexti í ár, 3,7% á næsta ári og 2,4% árið 2017.

Spáum 1,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta til ársloka 2016

Við reiknum með því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, miklum innlendum launahækkunum, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með enn frekari hækkun stýrivaxta á þessu og næsta ári. Samtals spáum við því að nefndin muni hækka stýrivexti bankans um 1,0 prósentustig til viðbótar á þessu ári að meðtalinni 0,5 prósentustiga hækkuninni núna í ágúst. Spáum við síðan 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta á árinu 2016. Þessu til viðbótar kemur væntanlega aukið peningalegt aðhald þegar virkir stýrivextir bankans færast nær miðju vaxtagangsins. Ástæða þess er að fjármögnun bankanna mun í auknum mæli færast í skammtíma lántökur í Seðlabankanum samhliða uppgjöri slitabúa gömlu bankanna og losun aflandskróna úr hagkerfinu. Mun peningastefnunefndin taka það með í reikninginn þegar hún setur peningastefnuna, en hækkun vaxta á millibankamarkaði sem af þessum breytingum hlýst og afleidd áhrif hennar til hækkunar aftur eftir vaxtaferlinum er ígildi hækkunar stýrivaxta. Mun sú breyting  verða að okkar mati ígildi um 0,75 prósentustiga hækkunar. Aðhaldsstig peningamála, mælt út frá muninum á virkum stýrivöxtum bankans og verðbólgu, mun þrátt fyrir þessar hækkanir ekki aukast mikið á tímabilinu þar sem svo mikið mun bæta í verðbólguna á sama tímabili. 

Líkt og áður er mikil óvissa um þróun krónunnar næstu misseri í ljósi óvissu um uppgjör búa föllnu fjármálafyrirtækjanna og fyrirhugaðra tilslakana gjaldeyrishafta. Má segja að þetta sé einn af stærstu óvissuþáttum stýrivaxtaspár okkar og í leiðinni spár okkar um verðbólguþróun. Spá okkar um stýrivexti byggir á því að þær tilslakanir sem gerðar verða á gjaldeyrishöftum á spátímabilinu verði framkvæmdar þannig að þær munu ekki raska stöðugleikanum á gjaldeyrismarkaðinum og ekki kalla á hækkun stýrivaxta til að tryggja þann stöðugleika. Áætlun um losun hafta, sem kynnt var að hluta í júní síðasliðnum, styður við þessa forsendu okkar enda er þar lögð áhersla á að takmarka sveiflur á gengi krónu og lágmarka hættu á greiðslujafnaðaráfalli eftir því sem losun hafta vindur fram.

Stýrivaxtaspá okkar má nálgast hér.


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall