Fréttir Greiningar

Hækkun stýrivaxta í takti við spár

19.08.2015 11:24

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að hækka vexti Seðlabankans í dag um 0,5 prósentur er í takti við okkar spá og annarra sem spá opinberlega fyrir um stýrivexti hér á landi.  Rökin fyrir hækkuninni eru að verðbólguhorfur hafa versnað m.v. síðustu spá Seðlabankans sem birt var í maí sl., sem rekja má til meiri launahækkana en gert var ráð fyrir í þeirri spá. Þá gerir bankinn ráð fyrir vaxandi framleiðsluspennu á næstu misserum.  Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, eru nú 5% og hafa hækkað um prósentu frá júníbyrjun.

Mildari tónn

Tíðindin í yfirlýsingu peningastefnunefndar eru að vaxtahækkunartónninn varðandi næstu skref í peningamálum hefur verið mildaður og er nú hin framsýna leiðsögn, sem fyrir ákvörðunina í dag var eindregið til hækkunar, minna afdráttarlaus í þá veru. Þannig sagði í yfirlýsingu nefndarinnar í júní að einsýnt þætti að hækka þyrfti vexti  umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum. Mun mildari yfirlýsing er nú, og talar nefndin um að aukist verðbólga í framhaldi af kjarasamningum eins og spáð er mun peningastefnunefnd þurfa að hækka vexti enn frekar eigi verðbólgumarkmiðið að nást til lengri tíma litið. Virðist nefndin þarna ekki vera sannfærð um að verðbólgan mun aukast jafn hratt og reiknað er með í verðbólguspá bankans sem birt var samhliða ákvörðuninni nú, og er það að milda tón hennar. 

Þá bætir peningastefnunefndin við þessari setningu: “Vaxtaferillinn mun einnig ráðast af því hvort öðrum stjórntækjum verður beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum.“ Á kynningarfundi í Seðlabankanum skýrði Már Guðmundsson seðlabankastjóri hvað í þessu fælist. Nefndi hann til að mynda samspil ríkisfjármála og peningastefnu, og að meira aðhald ríkisfjármála fæli í sér minni þörf á auknu peningalegu aðhaldi. Er þar væntanlega ekki síst horft til ráðstöfunar þess fjár sem kemur beint eða óbeint í hlut ríkissjóðs við nauðasamninga eða álagningu stöðugleikaskatts á slitabú. Einnig tiltók Már að til þess gæti komið á næstu misserum að beitt yrði tækjum til að stuðla að þjóðhagsvarúð. Þessi tæki gætu komið til sögunnar stig af stigi eftir því sem losun hafta og mótun framtíðarstefnu í peninga- og gjaldeyrismálum vindur fram. Már sagði takmarkanir á fjármagnsinnstreymi vera næsta skref, og gætu þær komið til framkvæmda á næstu mánuðum. Væntanlega yrði þar um einhvers konar skammtíma bindiskyldu að ræða, og væri hún til þess fallin að minnka áhrif vaxtamunar á gengi krónu og færa þar með virkni peningastefnunnar frá gengisáhrifum yfir í áhrif á markaðsvexti.

Meiri verðbólga, minni hagvöxtur

Líkt og búast mátti við er verðbólguspáin í nýbirtum Peningamálum talsvert svartsýnni en spáin sem birt var í maí síðastliðnum. Bankinn spáir því nú að verðbólga aukist í 4,0% snemma á næsta ári og verði í kjölfarið á bilinu 4,0% - 4,5% næstu tvö árin, en taki síðan að hjaðna á ný. Til samanburðar hljóðaði maíspáin upp á 3,0% verðbólgu 2016 og 3,2% árið 2017. Ástæðan er fyrst og fremst mikil hækkun launa í nýlegum kjarasamningum, en á móti vegur lítilsháttar styrking krónu, hagstæð þróun viðskiptakjara, minni hagvöxtur og meira aðhald peningamála. Bankinn gerir ráð fyrir ríflega 10% hækkun nafnlauna í ár, rúmlega 8% hækkun á næsta ári og ríflega 6% hækkun árið 2017.

Seðlabankinn spáir nú nokkuð minni hagvexti næstu misserin en hann gerði í maí. Gerir hann ráð fyrir að hagvöxtur verði 4,2% í ár (4,6% í maí), 3,0% árið 2016 (3,4%) og 2,8% árið 2017 (3,1%). Minni hagvöxtur í nýju spánni er til kominn vegna minni vaxtar fjárfestingar og útflutnings, og hraðari vaxtar innflutnings, en á móti spáir bankinn hraðri vexti einkaneyslu en áður. Samsetning hagvaxtarins er því óhagstæðari í nýju spánni en áður, og vinnuaflseftirspurn eykst að sama skapi hægar í nýju spánni.

Viðbrögð á mörkuðum við vaxtaákvörðuninni í morgun hafa verið tiltölulega hófstillt það sem af er degi. Þó hefur krafa óverðtryggðra ríkisbréfa lækkað, sem bendir til þess að hinn mildari tónn peningastefnunefndar hafi dregið úr væntingum um verulega viðbótarhækkun stýrivaxta á næstu mánuðum og misserum. Nemur kröfulækkunin 2-11 punktum þegar þetta er ritað (kl.11:00) og hefur velta verið nokkur hvað ríkisbréf varðar. Engin velta hefur hins vegar verið með verðtryggða markflokka enn sem komið er.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall