Fréttir Greiningar

Spáum 0,1% lækkun neysluverðs í september

11.09.2015 10:15

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,1% í september frá ágústmánuði. Ef spáin gengur eftir helst verðbólga óbreytt í 2,2%. Verðbólga verður því áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað frá síðustu spá að okkar m.a. vegna hækkunar að gengi krónunnar. Við teljum að verðbólgan muni þó fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir árslok, en þar eru aðallega grunnáhrif að verki. Horfur eru á vaxandi verðbólgu í kjölfarið, en hún verður þó samkvæmt spánni talsvert undir 4,0% efri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins á næsta ári, en nálægt þeim árið þar á eftir. Hagstofan birtir VNV fyrir september kl. 09:00 þann 25. september næstkomandi.

Útsölulok og húsnæði hækkunar

Að vanda munu útsölulok vega talsvert til hækkunar VNV í september. Þó hækkaði verð á fatnaði og skóm nokkuð minna í ágúst sl. en að jafnaði hefur gert í ágústmánuði undanfarin ár, og teljum við því að hækkunin verði ívið meiri nú september en í september í fyrra. Gerum við ráð fyrir að útsölulok vegi til u.þ.b. 0,24% hækkunar VNV, og að þar af vegi fata- og skóliðurinn til 0,19% hækkunar. Áhrifin af fötum og skóm eru meiri en fyrir ári síðan en þó minni en var að jafnaði fyrir þann tíma þar sem vægi þessa liðar í VNV hefur minnkað töluvert.

Þá gerum við ráð fyrir að hækkun á húsnæðisliðnum hafi áhrif til 0,16% hækkunar VNV í september. Kemur þar einna helst til þess að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar markaðsverð húsnæðis, hækkar um 0,8% milli mánaða í september (0,13% í VNV). Loks teljum við að árviss hausthækkun á tómstunda- og íþróttaiðkun sem og afþreyingu hafi áhrif til um 0,08% hækkunar VNV.

Eldsneyti og flugfargjöld til lækkunar

Hins vegar lítur út fyrir að ferða- og flutningaliður VNV muni lækka talsvert í september (-0,50% áhrif í VNV), annan mánuðinn í röð. Þar vegur lækkun flugfargjalda þyngst (-0,35% í VNV), en könnun okkar bendir til að veruleg lækkun hafi orðið á flugfargjöldum til útlanda milli mánaða. Einnig hafa olíufélögin lækkað eldsneyti töluvert frá ágústmælingu Hagstofunnar á VNV. Samtals nemur verðlækkun eldsneytis 5,3% á tímabilinu (-0,19% í VNV).
 
Af öðrum liðum má hér nefna að við reiknum með að verðlækkun IKEA á vörum sínum um 2,8% í ágúst hafi áhrif á liðinn húsgöng og heimilisbúnaður í september, þá bæði bein og óbein, en verslunin hefur mikla markaðshlutdeild og er leiðandi í verðmyndun á ódýrari hluta þessa markaðar. Reiknum við með 1,8% verðlækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði (-0,03% í VNV) í september. 

Verðbólga upp fyrir markmið fyrir árslok

Við teljum að verðbólga muni aukast eftir því sem nær dregur árslokum og dagurinn styttist. Að stórum hluta er ástæðan sú að tímabil verðstöðnunar á seinni hluta síðasta árs dettur út úr 12 mánaða mælingu VNV. Sú verðstöðnun kom til að stærstum hluta vegna hagstæðrar þróunar eldsneytisverðs, áhrifa af breytingum á sköttum og gjöldum á neysluvarningi og fremur lítils kostnaðarþrýstings innanlands eftir hófsama kjarasamninga í upphafi síðasta árs.

Við gerum ráð fyrir 0,1% hækkun VNV bæði í október og nóvember, og 0,2% hækkun í desember. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga fara upp fyrir markmið í nóvember næstkomandi, og mælast 2,8% en 2,7% í lok árs. Í spá okkar gerum við m.a. ráð fyrir að afnám tolla af fötum og skóm um næstu áramót hafi áhrif á næstu mánuðum, og þá að verslanir komi til með að lækka vöruverð jafnvel strax í október. Gæti verðþróunin þar því orðið áþekk þeirri sem var hjá raftækjaverslunum í fyrra þegar þau brugðust við fyrirhuguðum lækkun vörugjalda á raftækjum um áramótin með því að lækka verð fyrir breytingu.
   
Innlendur verðbólguþrýstingur er töluverður nú um stundir. Þar vegur þungt umtalsverð hækkun launa hjá stórum hluta vinnumarkaðarins í nýlegum kjarasamningum, en einnig kemur til viðvarandi hækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis, lítill framleiðnivöxtur og vaxandi framleiðsluspenna á ýmsum sviðum hagkerfisins. Munu þessir þættir þrýsta verðbólgu upp á við. Á móti vegur talsverð hækkun á gengi krónunnar undanfarið og lítill innfluttur verðþrýstingur.  Við spáum því að bæta mun í verðbólguna á næsta ári, og gerum við ráð fyrir 3,4% verðbólgu í lok ársins 2016 og 3,9% yfir árið 2017. Verðbólga verður samkvæmt spánni rétt undir efri mörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans seinni hluta spátímabilsins.
 
Verðbólguspá fyrir september


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall