Fréttir Greiningar

Óvænt hækkun stýrivaxta Seðlabankans

04.11.2015 11:44

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í dag að hækka stýrivexti bankans um  0,25 prósentur. Ákvörðunin er þvert á spár, en við sem og aðrir sem spá opinberlega fyrir um stýrivexti reiknuðum með því að bankinn myndi halda vöxtum óbreyttum. 

Mildari vaxtahækkunartónn

Peningastefnunefndin breytir framsýnni leiðsögn sinni og mildar þann vaxtahækkunartón sem mátti áður finna í yfirlýsingu nefndarinnar. Segir nefndin nú að sterkari króna og hagstæðari alþjóðleg verðlagsþróun hafi gefið svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Áður sagði í yfirlýsingunni að það væri aðeins hægar en áður var talið nauðsynlegt.   

Nefndin ræðir nú sérstaklega í yfirlýsingu sinni um að mótun peningastefnunnar mun ráðast af þróun lausafjárstöðu í tengslum við losun fjármagnshafta og af því hvort öðrum stjórntækjum hagstjórnar verði beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum. Er nýlunda að sérstaklega sé fjallað um áhrif losunar fjármagnshafta á lausafjárstöðu í yfirlýsingunni, og helgast það væntanlega af þeirri framvindu sem orðin er, og þá lausn sem komin er fram um slit búa gömlu bankanna.

Verðbólguhorfur betri til skamms tíma

Seðlabankinn birti nú samhliða vaxtaákvörðuninni ritið Peningamál sem inniheldur nýja þjóðhags- og verðbólguspá bankans. Líkt og nánast óhjákvæmilegt var þá lækkaði verðbólguspá Seðlabankans umtalsvert til skemmri tíma litið. Spáir bankinn nú t.d. 2,3% verðbólgu á síðasta fjórðungi þessa árs en hafði í ágúst spáð að verðbólga yrði komin upp í 3,8% á yfirstandandi fjórðungi. Ástæða þessa er fyrst og fremst þróun verðbólgunnar í millitíðinni, sem hefur verið mun hagfelldari en Seðlabankinn hafði reiknað með í spá sinni í ágúst.  Það má svo rekja til þess að krónan hefur styrkst umtalsvert frá því sem gengið var út frá í ágústspá bankans, en hann  reiknar jafnan með óbreyttu gengi frá spádegi. Er forsenda spárinnar nú að vísitala meðalgengis krónunnar verði 192,2 út spátímabilið en í ágústspá bankans var byggt á vísitölugildinu 205,4. 

Byggir á forsendu um aukið peningalegt aðhald

Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi vegna ákvörðunarinnar í morgun að spá bankans byggði á þeirri forsendu að aðhald peningastefnunnar komi til með að aukast á spátímabilinu. Án þessa aukna aðhalds mun verðbólgan verða meiri á spátímabilinu. Einnig er byggt á því að aðhaldið í opinberum fjármálum verði minna á næsta ári en á þessu ári. 

Í þessu sambandi má nefna að samkvæmt okkar síðustu stýrivaxtaspá reiknum við með því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með hækkun stýrivaxta á næsta ári. Spáðum við 0,75  prósentustiga hækkun stýrivaxta á árinu 2016. Við það bætist væntanlega aukið peningalegt aðhald þegar virkir stýrivextir bankans færast nær miðju vaxtagangsins en sú breyting mun að okkar mati verða ígildi um 0,75 prósentustiga hækkun stýrivaxta. Þar með munu virkir stýrivextir hækka um 1,5 prósentustig á næsta ári. Aðhaldsstig peningamála, mælt út frá muninum á virkum stýrivöxtum bankans og verðbólgu, mun aukast nokkuð á fyrri hluta næsta árs samkvæmt þessari spá, en hjaðna að nýju með vaxandi verðbólgu þegar líður á árið.

Meiri framleiðsluspenna

Hagvaxtarspá bankans hefur breyst mun minna frá síðustu spá en verðbólguspáin. Bankinn reiknar með aðeins meiri hagvexti í ár og á næsta ári en í fyrri spá, þ.e. 4,6% í ár og 3,2% á næsta ári samanborið við 4,2% í fyrri spá í ár og 3,0% á næsta ári. Er bankinn af þessum sökum að reikna með aðeins meiri framleiðsluspennu næsta kastið en í síðustu spá sinni. 

Slakur framleiðnivöxtur áhyggjuefni

Hagvaxtarhorfur litið lengra fram í tímann endurspegla að framleiðnivöxtur er hægur í hagkerfinu og undir langtímameðaltali samkvæmt því sem fram kom í máli aðalhagfræðings Seðlabankans á kynningarfundinum í morgun. Dregur þannig talsvert úr hagvexti þegar líður á spátímabilið, þegar fjara út áhrif tímabundinna þátta sem eru að auka hagvöxt litið til skemmri tíma. Spáir bankinn því að hagvöxtur 2017 verði 2,9% og 2,6% árið 2018. Það er nokkuð undir sögulegum meðalhagvexti og mun draga úr framleiðsluspennunni í hagkerfinu á þessum tíma. Mun hún einungis mælast 0,7% undir lok spátímabilsins. 

Launakostnaður að hækka hratt

Launakostnaður á framleidda einingu mun í ár hækka um 9,0% i ár og um 8,1% á næsta ári samkvæmt nýrri spá bankans. Mun síðan draga úr hækkun launakostnaðar þegar líður á spátímabilið. Er þetta langt umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans og er stór þáttur í því af hverju bankinn reiknar með því að verðbólgan muni aukast á næstunni og fara yfir verðbólgumarkmiðið þegar kemur fram á næsta ár.  

Flýta þarf innleiðingu tækja til að draga úr virkum vaxtamun

Aðspurður sagði seðlabankastjóri á kynningarfundinum í morgun að nauðsynlegt væri að flýta því að innleiða tæki sem dregið geti úr virkum vaxtamun, en slíkt getur aukið bit peningastefnunnar. Nýtur slíkt töluverðs pólitísks stuðnings að sögn seðlabankastjóra. Talsvert innflæði hefur verið í krónuna frá upphafi sumars vegna kaupa erlendra aðila á íslenskum ríkisskuldabréfum, en Seðlabankinn hefur mætti þessu innflæði með kaupum á gjaldeyri til aukningar á óskuldsettum gjaldeyrisforða bankans. Einnig nefndi seðlabankastjóri að nýlegar rannsóknir bentu til þess að sjálfstæð peningastefna væri illmöguleg í litlum, opnum hagkerfum án tækja til þess að draga úr áhrifum af, og auka viðnámsþrótt gegn, alþjóðlegu fjármagnsflæði.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall