Fréttir Greiningar

Spáum 0,2% lækkun vísitölu neysluverðs í nóvember

13.11.2015 11:14

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,2% í nóvember frá októbermánuði. Þrátt fyrir lækkunina mun verðbólga aukast úr 1,8% í 2,1% gangi spáin eftir, enda lækkaði VNV um 0,5% í nóvember 2014. Verðbólga verður þó miðað við spána áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa batnað nokkuð frá síðustu spá okkar, en til meðallangs tíma eru horfurnar lítið breyttar. Við teljum að verðbólgan verði nokkuð undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í árslok. Horfur eru á að verðbólga aukist þegar líður á næsta ár. Verður hún samkvæmt spánni rétt við verðbólgumarkmið að jafnaði á næsta ári, en nærri efri mörkum markmiðsins árið 2017. Hagstofan birtir VNV fyrir nóvember kl. 09:00 þann 26. nóvember næstkomandi.

Breyttar horfur fyrir nóvembermælingu VNV

Spá okkar um 0,2% lækkun VNV í nóvember felur í sér umtalsverða breytingu frá bráðabirgðaspá okkar (0,1% hækkun). Breytingin felst að stærstum hluta í fjórum liðum: fötum og skóm, ferða- og flutningalið, mat og drykk, og húsnæði. Fyrrnefndu þrír liðirnir eru einnig helstu áhrifaþættir í þeirri lækkun sem við spáum nú. 

Flugfargjöld eru þyngsti einstaki áhrifaþátturinn til lækkunar í spá okkar að þessu sinni. Athugun okkar bendir til þess að þessi liður muni vega til 0,14% lækkunar VNV í nóvember. Árstíðaráhrif eru sterk í þessum lið, og auk þess gætu sterkari króna, lægra eldsneytisverð og aukin samkeppni haft hér áhrif.

Undanfarnar vikur hefur færst í aukana að fataverslanir taki forskot á yfirvofandi afnám 15% vörugjalds á föt og skó um næstu áramót með samsvarandi afslætti fram til ársloka. Við teljum að fata- og skóliður VNV muni lækka um ríflega 2% í nóvember, sem hefur áhrif til 0,10% lækkunar vísitölunnar. Þá hefur verð á ýmsum mat- og drykkjarvörum lækkað undanfarið í kjölfar styrkingar krónu, auk þess sem við gerum ráð fyrir að verð á grænmeti lækki nokkuð eftir verulega verðhækkun undanfarna mánuði. Áhrif af verðlækkun matar og drykkjar vega til 0,05% lækkunar VNV í spá okkar nú.

Líkt og gjarnan undanfarna mánuði hefur húsnæðisliður VNV einna mest áhrif til hækkunar hennar í nóvemberspá okkar. Alls eru áhrifin til 0,08% hækkunar. Þar af gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,06% í VNV) og svipaðri hækkun á greiddri húsaleigu (0,02% í VNV). Aðrir liðir vega minna og eru samanlögð áhrif þeirra á VNV óveruleg í spánni.

Skin og skúrir í VNV næstu mánuði

Á komandi mánuðum skiptist á hækkun og lækkun VNV í spá okkar. Þannig gerum við ráð fyrir 0,2% hækkun í desember, 0,6% lækkun í janúar og 0,6% hækkun vísitölunnar í febrúar næstkomandi. Verðbólga verður samkvæmt spánni 2,0% í árslok og 2,1% í febrúar 2016. 

Í jólamánuðinum eru helstu hækkunarliðir m.a. matvara og flugliðurinn, sem báðir hafa haft árstíðabundna tilhneigingu til hækkunar í þessum mánuði. Janúarmæling VNV litast svo jafnan af reiptogi milli gjaldskrárhækkana annars vegar, og útsöluáhrifa hins vegar, og þar gerum við ráð fyrir að síðarnefndi þátturinn hafi vinninginn með stuðningi af lækkun flugfargjalda og lokaáhrifum af afnámi vörugjalda á fatnað og skó. Febrúarmánuður ber svo ávallt með sér talsverðan hækkunarþrýsting á VNV vegna útsöluloka, og gerum við ráð fyrir þeim nú sem endranær. Auk þess teljum við að hækkandi íbúða- og leiguverð muni vega til ríflega 0,1% hækkunar VNV í mánuði hverjum á tímabilinu.

Vaxandi verðbólga í kortunum

Eftir því sem líður á árið 2016 gerum við ráð fyrir að bæti í verðbólgutaktinn. Teljum við að verðbólgan fari yfir 2,5% verðbólgumarkmiðið á þriðja fjórðungi næsta árs, og verði komin í 3,6% í árslok 2016. Ári síðar gerum við ráð fyrir að verðbólgan mælist 3,5%. Ástæður fyrir vaxandi verðbólgu eru fyrst og fremst mikill innlendur kostnaðarþrýstingur vegna rausnarlegra kjarasamninga og hitnunar hagkerfisins. Áhrif verðhjöðnunar á innfluttum vörum munu einnig fjara út samkvæmt spá okkar, enda gerum við ráð fyrir stöðugu gengi út spátímann og lítilsháttar hækkun á alþjóðlegu vöruverði.

Krónan er líkt og fyrri daginn einn helsti óvissuþátturinn í spá okkar. Til skamms tíma virðast meiri líkur á styrkingu hennar en veikingu, enda hefur innflæði gjaldeyris verið viðvarandi síðustu misserin og útlit er fyrir að slit búa gömlu bankanna og losun aflandskróna muni ekki hafa í för með sér verulegt gjaldeyrisútflæði samanlagt. Frekari styrking krónu gæti þó reynst skammgóður vermir, þar sem frekari hækkun raungengisins grefur að okkar mati undan samkeppnishæfni þjóðarbúsins og eykur að sama skapi hættu á gengisfalli síðar meir. Einnig gæti hækkun launa reynst hraðari næsta kastið en við gerum ráð fyrir, sem vegur þá til aukinnar verðbólgu á næstu árum.

Verðbólguspá fyrir nóvember

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall