Fréttir Greiningar

Metafgangur af þjónustujöfnuði á 3. fjórðungi

01.12.2015 11:02

Þjónustuviðskipti við útlönd skiluðu meiri afgangi nú á 3. fjórðungi en þau hafa nokkru sinni áður gert á einum ársfjórðungi. Alls námu tekjur af þjónustuútflutningi 189,9 mö. kr. á fjórðungnum en gjöld vegna þjónustuinnflutnings voru 99,5 ma. kr. skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem  birtar voru í morgun. Hljóðar afgangurinn því upp á 90,4 ma. kr., sem er rúmlega 12,6 mö. kr. meiri afgangur en á sama tíma í fyrra. 

Ferðaþjónustan í lykilhlutverki

Ekki kemur á óvart miðað við það mikla ferðamannainnflæði sem verið hefur hér á landi að það hafi verið ferðaþjónustan sem spilaði lykilhlutverk í ofangreindum tölum. Er hún stærsti þjónustuliðurinn bæði út- og innflutningsmegin. Alls nam útflutningur hennar 86,4 mö. kr. en innflutningur 36,9 mö. kr. Hljóðar afgangur af ferðaþjónustu þar með upp á 49,5 ma. kr. nú á 3. ársfjórðungi, sem er 12,9 ma. kr. aukning frá sama tímabili í fyrra. 

Þetta rímar mjög vel við tölur Ferðamálastofu Íslands, en skv. þeim fóru rúmlega 493 þúsund erlendir gestir frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF) á 3. ársfjórðungi, sem er aukning upp á 28% frá sama tímabili í fyrra. Á sama tímabili fjölgaði brottförum Íslendinga um tæp 13%, en þær voru rúmlega 128 þús. á 3. fjórðungi. Var ferðamannajöfnuður þar með jákvæður um 365 þús. á 3. fjórðungi í ár samanborið við 272 þús. á sama tímabili í fyrra. 

Samgöngur og flutningar skiluðu afgangi upp á 55,5 ma. kr., sem er 7,5 mö. kr. meiri afgangur en á sama tímabili í fyrra. Skilaði ferðaþjónustan ásamt fólks- og vöruflutningum þar með samanlagt 105,0 mö. kr. í kassann á 3. fjórðungi samanborið við 84,6 ma. kr. á sama tímabili í fyrra. Önnur viðskiptaþjónusta var í halla eins og oft áður, en sá liður endurspeglar að töluverðum hluta kostnaðinn við að afla þjónustutekna, t.d. leigu á flugvélum. Var sá liður neikvæður um 18,7 ma. kr. sem er 0,4 mö. kr. minni halli en á sama tímabili í fyrra. 

Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði aldrei meiri

Nú liggja fyrir tölur um tvo af þremur helstu undirliðum viðskiptajafnaðar á 3. fjórðungi ársins. Halli var á vöruskiptum upp á 12,3 ma. kr. á tímabilinu, og nemur samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á 3. ársfjórðungi þar með 78,1 mö. kr. Þetta er 9,9 ma. kr. meiri afgangur en á sama tímabili í fyrra, og er hér um mesta afgang að ræða af vöru- og þjónustuviðskiptum á einum ársfjórðungi frá upphafi. 

Á fyrstu 9 mánuðum ársins er afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd kominn upp í 148,3 ma. kr. samanborið við 98,2 ma. kr. í fyrra. Samsvarar það ríflega 9% af vergri landsframleiðslu (VLF) skv. áætlun okkar, en í heild gerum við ráð fyrir að afgangur vöru- og þjónustuviðskipta muni nema tæplega 8% af VLF á árinu 2015. Verður sá afgangur raunar alfarið þjónustumegin í viðskiptunum, en með aukinni samtvinnun vöru- og þjónustuviðskipta er mikilvægara að horfa á slík viðskipti í heild, fremur en t.d. einblína á minnkandi vöruskiptaafgang undanfarin ár. Má þar nefna að talsvert af útgjöldunum við að afla þjónustutekna fellur til sem vöruinnflutningur, s.s. kaup flutningatækja, innlend fjárfesting í ferðaþjónustugreinum og innflutningur neysluvara fyrir ferðamenn.

Meiri afgang nú má alfarið rekja til hagstæðari þróunar þjónustuviðskipta, en afgangur mældist á þeim jöfnuði á tímabilinu upp á 169,3 ma. kr. og hefur hann aldrei áður verið hagstæðari.. Á sama tímabili mældist halli af vöruskiptajöfnuði upp á 21,0 ma. kr., sem er 4,6 mö. kr. hagstæðari niðurstaða en var á sama tímabili í fyrra. Á morgun klukkan fjögur mun Seðlabankinn birta tölur um greiðslujöfnuð við útlönd á 3. ársfjórðungi, og verður fróðlegt að sjá hvernig  þáttatekjujöfnuður, og þar með niðurstaða viðskiptajafnaðar, hefur þróast á ársfjórðungnum. Líklegt er þó að mati okkar að tölurnar munu sýna mjög myndarlegan viðskiptaafgang á 3. fjórðungi, sem m.a. hefur endurspeglast í styrkingu krónu og mikilli gjaldeyrisforðasöfnun Seðlabankans.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall