Fréttir Greiningar

Óbreyttir stýrivextir í takti við spá okkar

09.12.2015 10:57

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum og er það í takti við okkar spá. Helstu rökin eru að verðbólguhorfur til skamms tíma hafa batnað frá nóvemberspá bankans. Einnig hefur sterkari króna og hagstæðari alþjóðleg verðlagsþróun veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. 

Mildari vaxtahækkunartónn

Peningastefnunefndin mildar vaxtahækkunartóninn frá vaxtaákvörðuninni í byrjun nóvember. Segir nefndin nú í yfirlýsingu sinni að m.v. spá Seðlabankans frá því í nóvember er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Í nóvember var hins vegar fullyrt að auka þyrfti aðhald peningastefnunnar á næstu misserum. Í þessu sambandi er rétt að benda á að m.v. okkar spá mun verðbólgan verða talsvert undir verðbólguspá Seðlabankans á lokafjórðungi þessa árs og á fyrri helmingi næsta árs. 

Bindiskylda lækkuð að nýju fyrir áramót

Athygli vekur að bindiskylda verður lækkuð úr 4,0% í 2,5% frá og með 21.des. í því skyni að milda áhrif af afhendingu stöðugleikaframlaga gömlu bankanna á komandi vikum, sem fela í sér minnkun á lausafé í fjármálakerfinu. Jafnframt er áformað að bindiskyldan lækki í 2,0% eftir aflandskrónuútboð sem haldið verður á komandi mánuðum. Þetta er óvænt útspil, a.m.k. á þessum tímapunkti, og er ígildi minna peningalegs aðhalds, en bindiskyldan var hækkuð úr 2,0% í 4,0% í september síðastliðnum.

Á kynningarfundi í Seðlabankanum sagði Seðlabankastjóri að alltaf hefði staðið til að lækka bindiskyldu að nýju samhliða uppgjöri gömlu bankanna og aflandskrónuútboði. Áhrifin af uppgjöri gömlu bankanna verði væntanlega meiri en vænst var síðasta haust og greiðsla stöðugleikaframlags kæmi líklega fyrr en útlit hefði verið fyrir. Taldi hann að hækkun bindiskyldunnar hefði skilað tilætluðum árangri og viðbrögð bankanna hefðu verið eins og vonast var til. Raunar mátti greina af orðum Seðlabankastjóra að áhrifin hefðu verið meiri en bankinn hafði búist við, og kann þar að vera að hluta skýring á því hversu skammvinn hækkunin varð. Þá taldi Seðlabankastjóri að betri verðbólguhorfur en bankinn hefði spáð væru fyrst og fremst gleðiefni, og væri ekki ástæða til að endurskoða spávinnu bankans í þeim efnum.

Við reiknum með óbreyttum stýrivöxtum vel fram á næsta ár 

Líkt og kom fram í okkar síðustu stýrivaxtaspá reiknum við með því að stýrivextir bankans verði óbreyttir vel fram á næsta ár, en á árinu í heild hækki peningastefnunefndin vexti bankans um 0,5 prósentur. Við þetta bætist síðan ígildi um 0,75 prósentustiga hækkunar á virkum stýrivöxtum samhliða því að fjármögnun bankanna mun í auknum mæli færast í skammtíma lántökur í Seðlabankanum samhliða uppgjöri slitabúa gömlu bankanna og losun aflandskróna úr hagkerfinu, sem leiðir til minni lausafjár í umferð.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall