Fréttir Greiningar

Mesti vöxtur í kortunum síðan 2007

15.12.2015 10:20

Gríðarlegur vöxtur var í kortaveltu Íslendinga í nóvember sl., og hefur aukningin á milli ára ekki verið meiri síðan í ágúst á hinu mikla einkaneysluári 2007. Jafnframt var í fyrsta sinn nettó gjaldeyrisútflæði á árinu í nóvember vegna kortaveltu, þ.e. kortavelta Íslendinga í útlöndum var umfram kortaveltu útlendinga hér á landi, en slíkt hefur ekki atvikast síðan í desember í fyrra. Þetta má ráða af kortaveltutölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær.

Verslanir tileinka sér nýja tilboðsdaga

Alls jókst kortavelta einstaklinga um 14,1% að raunvirði á milli ára í nóvember sl., sem er eins og áður segir mesti vöxtur hennar síðan í ágúst 2007. Þar af jókst kortavelta Íslendinga innanlands um 12,9% (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis) og kortavelta Íslendinga í útlöndum um 22,1%. 

Ætla má að hinn svokallaði „Black Friday“ og svo í kjölfarið „Cyber Monday“ hafi heldur betur leitt til innspýtingar í smásöluverslun. Sá fyrrnefndi markar upphaf jólavertíðarinnar í Bandaríkjunum og er stærsti verslunardagur þar í landi, þar sem verslanir bjóða vörur á tilboðsverði í kjölfar Þakkargerðarhátíðarinnar. Virðast Íslendingar hafi tekið honum fagnandi, en mun meiri brögð voru að því að verslanir auglýstu slíkan dag nú en fyrri ár. Þó virðist sem slíkir tilboðsdagar hafi skilað sér í mismikilli veltuaukningu eftir tegundum verslana, eins og Rannsóknarsetur verslunarinnar bendir á í tilkynningu sinni í gær í tengslum við Smásöluvísitölu RSV. Samkvæmt henni virðist ljóst að áhrif framangreindra daga hafi verið afar mismunandi eftir verslunum, og virðist aukningin hafi skilað sér mest í verslun með heimilistæki og húsbúnað en sama ris var ekki að sjá í t.a.m. fataverslun. Nærtæk skýring er sá öri vöxtur sem orðið hefur í fatakaupum landsmanna í erlendum netverslunum undanfarið.

Teikn um mikinn einkaneysluvöxt

Af ofangreindum tölum má ráða að vísbendingar eru um talsvert mikinn einkaneysluvöxt þessa dagana. Sé tekið mið af október og nóvember samanlagt er kortavelta einstaklinga 10% meiri að raunvirði á þessu tímabili en á sama tímabili í fyrra, og verði þróunin áþekk í desembermánuði þá verður um mestan vöxt í kortaveltu einstaklinga að ræða nú á 4. ársfjórðungi frá sama fjórðungi árið 2007. Þó kann að vera að þessir tilboðsdagar í verslunum í nóvember hafi fært jólaverslun framar í tímann hjá Íslendingum, og því verði ekki nærri eins mikil aukning í desembermánuði. Við teljum a.m.k. að árið 2007, þar sem mikill einkaneysluvöxtur var lánsfjármagnaður að stórum hluta, sé ekki að endurtaka sig í neysluhegðun Íslendinga, þó við séum þeirrar skoðunar að einkaneysla sé að vaxa ansi myndarlega þessa dagana.

Vísbendingar um töluverða fjölgun erlendra ferðamanna

Kortavelta útlendinga hér á landi nam um 9,2 mö. kr. í nóvember sl. borið saman við 6,5 ma. kr. á sama tíma í fyrra. Jafngildir þetta aukningu upp á 41% í krónum talið á milli ára. Ferðamálastofa hefur enn sem komið er ekki birt tölur um fjölda erlendra ferðamanna í nóvember, en út frá þessum tölum má ætla að það hafi verið dágóð fjölgun á þeim á milli ára líkt og verið hefur alla mánuði ársins. Ef meðalneysla hvers ferðamanns hér á landi hefur verið á svipuðum nótum og hún var í októbermánuði hafa erlendir ferðamenn verið í það minnsta 85 þúsund í mánuðinum, sem jafngildir 40% fjölgun ferðamanna í nóvember á milli ára.

Kortaveltujöfnuður í fyrsta sinn neikvæður á árinu

Alls nam kortavelta Íslendinga í útlöndum (vegna ferðalaga og netviðskipta) um 9,4 mö. kr. í nóvember sl., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga erlendis) þar með neikvæður um tæpa 0,3 ma. kr. í mánuðinum. Þrátt fyrir neikvæðan jöfnuð er hér um að ræða hagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í nóvembermánuði, en á sama tíma í fyrra var hann neikvæður um rúmlega 1,7 ma. kr. og árið þar á undan um 2,5 ma. kr. Eru því vísbendingar um að þjónustujöfnuður á 4. ársfjórðungi komi til með að vera hagstæðari á því tímabili en nokkru sinni fyrr, en eins og við fjölluðum nýlega um var kortaveltujöfnuður í fyrsta sinn jákvæður í októbermánuði. Jafnframt er orðið ljóst að fjöldi erlendra ferðamanna sem koma hingað til lands er orðinn svo mikill að neysla Íslendinga á erlendri grundu nær ekki að slá neyslu ferðamanna hérlendis við, þrátt fyrir öran vöxt í utanferðum og netverslun Íslendinga. 

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall