Fréttir Greiningar

Olíuverð ekki lægra í rúm 11 ár

18.12.2015 13:19

Gríðarleg lækkun hefur verið á olíuverði á heimsmarkaði upp á síðkastið og hefur verðið ekki verið lægra en nú síðan 2004, eða í 11 ár. Þannig kostar tunna af Brent-olíu nú tæpa 37 Bandaríkjadollara, en á árinu fór tunnan hæst í 67-68 dollara snemma í maí sl. Hefur hún því lækkað um tæp 45% á þessu tímabili. Gengi krónunnar er svipað gagnvart dollaranum nú og var þegar verðið fór hvað hæst, og er því verðbreytingin í krónum talið nánast sú sama og í dollar.

Þróun á Brent-olíu gefur þó ekki beina vísun í endanlegt eldsneytisverð til neytenda, enda er þar um hráefni til eldsneytisframleiðslu að ræða. Ef við skoðum vísitölu sem mælir þróunina á 95 oktana bensíni segir hún samt sem áður svipaða sögu, þó lækkunin þar sé þó nokkuð minni. Sú vísitala stóð hvað hæst á árinu um miðjan júní og hefur frá þeim tíma lækkað um 30% í krónum talið.

Minni lækkun hér á landi í fyrstu sýn

Þessi þróun hefur eðlilega haft áhrif hér á landi og hafa olíufélögin lækkað útsöluverð á eldsneyti talsvert á undanförnum mánuðum. Þannig er algengt verð á lítra af 95 oktana bensíni í sjálfsafgreiðslu nú að á bilinu 186,5 til 195,2 krónur, en um miðjan júní sl. var lítraverðið 225,5 til 227,7 krónur. Nemur lækkunin á bensínlítranum þar með rúmlega 14% að jafnaði. Verð á díselolíu hefur lækkað aðeins meira, eða um rúm 16%. 

Fleiri þættir koma til sögu hérlendis

Af ofangreindri umfjöllun mætti komast að þeirri niðurstöðu að lækkun olíufélaganna hér á landi sé dropi í hafið m.v. hvað ætla mætti í samanburði við lækkunina erlendis. Það er þó ekki raunin enda koma aðrir þættir hér við sögu sem hafa áhrif á sambandið þarna á milli. Ber þar hæst að nefna opinbera álagningu á eldsneyti sem er að stórum hluta í fastri krónutölu og lækkar þar með ekki í hlutfalli við lækkun innkaupaverðs. Auk þess er ýmis rekstrarkostnaður hjá olíufélögunum í krónutölum sem innkaupsverð hefur heldur ekki áhrif á. Sé tekið tillit til þessara þátta þá má áætla að olíufélögin hafi lækkað verð á bensínlítranum, að frátöldum krónutölukostnaði, um 28% en dísel um 29%.

Minni verðbólga en ella

Lækkun á eldsneytisverði er augljóslega afar kær búbót fyrir hinn íslenska neytanda, enda vega eldsneytiskaup talsvert þungt í neysluútgjöldum heimila. Hefur lækkunin að undanförnu þar með haldið aftur af verðbólgu. Má hér t.a.m. nefna að í nóvember sl. mældist verðbólga 2,0% en hefði verið nær 2,5% ef ekki hefði verið fyrir lækkunina á eldsneytisverði.

Eldsneytiskaup ekki tekið minna í budduna um langt skeið

Áhrif af breytingum á eldsneytisverði eru þó mun meiri í verðbólgunni en sem nemur eldsneytiskaupum á einkabílinn. Þannig hefur lægra eldsneytisverð áhrif til lækkunar flutningskostnaðar sem hefur áhrif á almennt vöruverð í landinu, auk þess sem það hefur einnig áhrif til lækkunar á flugfargjöldum til og frá landinu og verð á ýmissi annarri þjónustu. Jafnframt má ætla að eldsneytisinnkaup hafi ekki vigtað minna í buddu landsmanna um langt skeið, eða a.m.k. frá 1997 sem er eins langt aftur og tölur Hagstofunnar ná um vægi þessa liða í einstökum mánuðum í vísitölu neysluverð. Þannig vegur eldsneytisliðurinn í vísitölunni nú 3,37% en hefur að jafnaði mælst um 4,8% frá 1997. Þetta þýðir jafnframt að áhrifin af því eru minni á verðbólguna þegar það breytist. Fall eldsneytisverðs á heimsmarkaði ásamt styrkingu krónu og almennri hækkun launa hefur því orðið til þess að nærri helmingi lægri hluti mánaðarlegra heimilistekna fer að jafnaði í eldsneytiskaup en raunin var í upphafi áratugarins.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall