Fréttir Greiningar

Lítilsháttar aukning verðbólgu í janúar

28.01.2016 11:35

Verðbólga jókst lítillega í janúar, og lækkaði VNV aðeins minna milli mánaða en við spáðum. Verðbólga er þó enn undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans og eru horfur á að svo verði fram yfir mitt ár.

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,58% í janúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Lækkun VNV er í hóflegri kantinum á birtum spám. Við spáðum 0,7% lækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,6 - 0,8% lækkun. Verðbólga mælist nú 2,1% en var 2,0% í desember síðastliðnum. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um tæplega 1,1% í janúar og miðað við þá vísitölu mælist 0,6% verðbólga undanfarna 12 mánuði, en verðbólga var 0,4% á þann mælikvarða í desember. 

Útsölur leiða lækkun VNV

Líkt og raunin er jafnan í janúar höfðu útsölur veruleg áhrif á vísitölu neysluverðs. Alls námu þessi áhrif 0,9% til lækkunar VNV að þessu sinni. Föt og skór lækkuðu í verði um 13% (-0,57% í VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður um 7,1% (-0,3% í VNV). Lækkunin á fötum og skóm var heldur minni en við spáðum og nokkuð minni en lækkunin var á sama tíma í fyrra. Á hinn bóginn virðast útsölur á heimilisbúnaði og raftækjum hafa verið mun dýpri en áður hefur verið janúarmánuði. Loks lækkaði verð á sjónvörpum, tölvum o.þ.h. um ríflega 5% (-0,08% í VNV), sem er svipuð lækkun og verið hefur síðustu ár. 

Eldsneytisverð lækkaði um 3,3% (-0,11% í VNV) í kjölfar verðlækkunar erlendis. Hins vegar rættist ekki spá okkar um talsverða lækkun á flugfargjöldum, og er það annað árið í röð sem verðkönnun gefur  allt aðra niðurstöðu fyrir þennan lið en mæling Hagstofu í janúarmánuði.

Húsnæðisliðurinn vó þyngst helstu undirliða til hækkunar VNV. Liðurinn í heild hækkaði um 0,8% (0,22% í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,8% (0,13% í VNV) en aðrir liðir skiluðu 0,09% hækkun á VNV. Líkt og fjallað er um í upphafi skýrir húsnæðisliðurinn stóran hluta verðbólgunnar þessa dagana, enda mælist verðbólga að honum undanskildum aðeins 0,6%. Húsnæðisliðurinn hefur hækkað um 6,2% undanfarið ár, og ræður þar mestu 8,6% hækkun á mældu markaðsverði íbúðarhúsnæðis.

Matur og drykkur hækkaði í verði um rúm 0,5% í janúar (0,08% í VNV) og áfengi og tóbak hækkaði um 1,4% (0,04% í VNV). Gjaldskrárhækkanir reyndust hins vegar með minna móti þessi áramótin, og raunar að hluta til minni en við höfðum gert ráð fyrir. Er það jákvætt, þar sem útlit var fyrir mikinn kostnaðarþrýsting á slíkum liðum eftir ríflega hækkun launa á síðasta ári.

Horfur á hóflegri verðbólgu fram á haust

Horfur fyrir þróun VNV næstu mánuði eru svipaðar og við áætluðum í nýjustu verðbólguspá okkar. Þó er líklegt að flugfargjöld hækki minna en við höfðum áætlað í febrúar, þar sem engin lækkun kom fram í janúar. Einnig gæti eldsneytisverð lækkað frekar, en útsöluverð hérlendis hefur þegar lækkað um 1,0% frá síðustu mælingu Hagstofu. Loks gætu föt og skór hækkað minna vegna útsöluloka en við reiknuðum með, enda hafa ekki sést teikn hingað til um að afnám vörugjalda á fatainnflutning frá löndum utan EES hafi skilað lækkun á þessum lið í VNV. Óvissan er því að okkar mati fremur til minni hækkunar í febrúar en við spáðum.

Bráðabirgðaspá okkar gerði ráð fyrir að VNV hækki um 0,7% í febrúar, um 0,6% í mars og um 0,2% í apríl. Verðbólga verður skv. spánni 1,8% í apríl, en sem fyrr segir er óvissan fremur niður á við en hitt. Verðbólga verður því nokkuð minni næsta kastið en spáð var af Seðlabankanum í nóvember, og verður raunar undir 2,5% markmiði Seðlabankans fram á næsta haust, gangi spáin eftir.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall