Fréttir Greiningar

Kröftugur vöxtur í kortunum í upphafi árs

18.02.2016 11:00

Mikill vöxtur var í kortaveltu í upphafi nýs árs, hvort sem litið er til notkunar landsmanna eða erlendra ferðamanna hér á landi. Er vöxturinn til marks um að bæði einkaneysla og þjónustuútflutningur fer af stað með trukki á þessu ári. Þessar fyrstu tölur eru einnig í samræmi við þá skoðun okkar að þrátt fyrir myndarlegan vöxt innlendrar eftirspurnar muni verða talsverður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd í ár.

Kortavelta einstaklinga jókst um 8,7% að raunvirði á milli ára í janúarmánuði m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Er það í takti við þá þróun sem verið hefur að undanförnu, en kortaveltan, sem og aðrir hagvísar sem gefa vísbendingar um einkaneyslu, gefa til kynna að hún vaxi ansi hressilega um þessar mundir. Þetta má ráða af nýlega birtum kortaveltutölum sem Seðlabanki Íslands sendi frá sér.

...áfram meiri vöxtur í kortaveltu í útlöndum

Alls jókst kortavelta Íslendinga innanlands um 6,6% að raunvirði, sem er nokkuð meiri aukning en verið hefur að jafnaði síðasta árið. Mun meiri aukning var í kortaveltu Íslendinga í útlöndum, eða um 28% að raunvirði. Ætla má að það megi að einhverjum hluta rekja netverslunar erlendis enda var þessi aukning verulega umfram þá 10% fjölgun sem var á brottförum Íslendinga á sama tíma. Í krónutölu jókst kortavelta Íslendinga í útlöndum talsvert minna, eða um 16%, enda var gengi krónunnar að jafnaði um 9% sterkara nú í janúar sl. en það hafði verið í janúar í fyrra m.v. gengisvísitölu krónu.

 

Erlend kortavelta vex hraðar en ferðamannafjöldi

Kortavelta útlendinga hér á landi nam alls 11,7 mö. kr. í janúar og var í krónutölu rúmum 60% meiri en hún var á sama tíma í fyrra. Þessi gríðarlegi vöxtur í kortaveltu er verulega umfram þann vöxt sem var á brottförum þeirra á sama tímabili, en samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu Íslands fjölgaði erlendum ferðamönnum um tæp 24% á milli ára í janúar og voru samtals 77,6 þús. talsins.

 

... má að stórum hluta rekja til WOW air

Af ofangreindum tölum mætti ætla að hver ferðamaður sem var hér á landi í janúarmánuði hafi eytt að jafnaði 150 þús. með kortum í mánuðinum en sú tala hefur aldrei áður náð sömu hæðum. Það er þó ekki raunin þar sem þessa gríðarlegu aukningu má að miklu leyti rekja til 2,2 ma. kr. aukinnar kortaveltu þeirra fyrir farþegaflutninga með flugi sem ríflega þrefaldaðist milli ára. Þetta má sjá í tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Í fréttatilkynningu setursins sem birt var nú í morgun kemur fram að ein skýring er að WOW opnaði bókanir til og frá San Francisco og Los Angeles en sú velta kemur fram hjá innlendum færsluhirðum. Eru þetta því fyrirfram greiðslur og gæti aukin velta í þessum flokki verið merki  um fjölgun erlendra ferðamanna síðar á árinu, hvort sem er til landsins eða hjá innlendum flugfélögum, sem hvort tveggja kemur inn í tölur um þjónustujöfnuð.

 

Myndarlegt gjaldeyrisinnstreymi vegna kortaveltu

Kortavelta Íslendinga í útlöndum nam alls 7,6 mö. kr. í janúar sl., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga í útlöndum) þar með jákvæður um 4,0 ma. kr. í mánuðinum. Er hér um að ræða langhagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í janúarmánuði, en í janúar í fyrra náði þessi jöfnuður í fyrsta sinn jákvæðri útkomu og var hann þá jákvæður um 0,7 ma. kr. Þetta kann að gefa tóninn hvað varðar þróun þjónustujafnaðar á fyrsta fjórðungi ársins. Við teljum líklegt að þjónustujöfnuðurinn verði hagstæðari á yfirstandandi ársfjórðungi en raunin var á sama tíma í fyrra, og raunar áætlum við að afgangur af þjónustujöfnuði á þessu ári verði í kring um 220 ma. kr. samanborið við u.þ.b. 180 ma. kr. afgang í fyrra.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall