Fréttir Greiningar

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í maí

13.05.2016 10:03

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,3% í maí frá aprílmánuði. Verðbólga helst samkvæmt spánni óbreytt í 1,6%, og verður þar með áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Verð-bólguhorfur til meðallangs tíma eru lítið breyttar frá síðustu spá okkar. Horfur eru á að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram undir lok yfirstandandi árs. Verðbólga mun hins vegar verða nokkuð yfir markmiðinu árin 2017 og 2018. Hagstofan birtir VNV fyrir maí kl. 09:00 þann 27. maí næstkomandi.

Húsnæði, matur, gisting og eldsneyti hækkar 

Að þessu sinni eru það fjórir undirliðir sem skýra stærstan hluta hækkunar VNV í spá okkar: húsnæðisliður, matur og drykkur, gisting og eldsneyti. Af þeim vegur húsnæðisliðurinn þyngst (0,19% í VNV). Við gerum ráð fyrir að reiknuð húsaleiga hækki um 0,8% milli mánaða (0,12% í VNV) og byggjum þá spá á athugun okkar á þróun íbúðaverðs, en lítil hækkun þessa liðar síðustu mánuði hefur komið okkur nokkuð á óvart. Að þessum undirlið slepptum hefur verð á viðhaldsþjónustu mest áhrif á húsnæðisliðinn (0,05%), en nýgerðir kjarasamningar höfðu mikil áhrif á þennan lið í byggingarvísitölu fyrir maí.

Við áætlum að hækkun á matvöru- og drykkjarverði hafi áhrif til 0,05% hækkunar VNV í maí. Er það að mestu vegna verðhækkunar á kjöti og fiski (0,03% í VNV) og ávöxtum (0,02% í VNV). Nú fer í hönd háannatími í ferðaþjónustunni, og teljum við að verð á gistingu muni hækka tæp 10% í maímánuði (0,04% í VNV). Er það í takti við þróunina í fyrra. Eldsneytisverð hefur hækkað um 1,5% (0,05% í VNV) að jafnaði frá síðustu mælingu Hagstofu, í takti við hækkun eldsneytisverðs á heimsmarkaði.

Af lækkunarliðum munar mestu um lækkun flugfargjalda til útlanda (-0,08% í VNV), en verðkönnun okkar bendir til þess að liðurinn lækki talsvert í ár, líkt og raunin var síðustu ár. Af öðrum liðum má nefna að við reiknum með lítilli verðbreytingu á fatnaði og skóm að þessu sinni, en sá liður hefur hækkað þó nokkuð í maí á síðustu árum. Telja má að svigrúm sé enn til staðar fyrir meiri verðlækkun á fötum vegna niðurfellingar tolla sem og styrkingar krónunnar, en í apríl hafði fataliðurinn einungis lækkað um 3,1% síðasta árið. Mun meiri lækkun hefur verið á skóm á sama tímabili, eða um 7,8% og má ætla að þar séu ofangreind áhrif komin fram að mestu leyti.

Svipuð verðbólga næstu mánuði

Litið til næstu mánaða spáum við 0,4% hækkun VNV í júní, 0,1% lækkun í júlí og 0,5% hækkun í ágúst. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,7% um mitt ár en ná lágmarki í 1,4% í ágúst. 

Eins og fyrri daginn hefur húsnæðisliðurinn hvað mestu hækkunaráhrifin í heildina litið á næstu mánuðum, eða 0,14% áhrif í VNV í mánuði hverjum að jafnaði. Í júní gerum við auk þess ráð fyrir hækkunaráhrifum af flugfargjöldum, hótelum og veitingastöðum. Í júlímánuði lita útsöluáhrif mælinguna, en hækkun flugfargjalda vegur á móti. Hið gagnstæða gerist svo í ágústspánni, þar sem útsölulok vega til hækkunar en lækkun flugfargjalda þrýstir niður VNV.

Vaxandi verðbólga á seinni árshelmingi

Á seinni hluta ársins eykst verðbólga jafnt og þétt í spá okkar, og fer verðbólgan í 2,5% markmið Seðlabankans í lok ársins. Á næsta ári er útlit fyrir að verðbólgan verði að jafnaði 3,2% og árið 2018 gerum við ráð fyrir 3,6% meðalverðbólgu. Aukinn verðbólgu-þrýstingur skýrist af áhrifum hraðrar hækkunar á innlendum launakostnaði, viðvarandi raunhækkun á íbúðaverði og því að áhrif innfluttrar verðhjöðnunar fjara út, svo nokkuð sé nefnt.

Styrking krónu myndi skila minni verðbólgu

Krónan er, líkt og jafnan, einn helsti óvissuþátturinn í spá okkar, en í ofangreindri spá höldum við gengi krónunnar óbreyttu næstu misserin. Til skemmri tíma virðast þó meiri líkur á styrkingu hennar en veikingu, enda hefur innflæði gjaldeyris verið viðvarandi síðustu misserin og er nú svo komið að nægt svigrúm virðist vera til að mæta hugsanlegu útflæði vegna aflandskrónaútboðs og erlendrar fjárfestingar innlendra aðila í kjölfar afléttingar hafta.

Frekari styrking krónu myndi leiða til minni verðbólgu en hér er spáð, og má sem dæmi nefna að ef krónan styrkist um 5% til áramóta gefur spálíkan okkar þá niðurstöðu að verðbólga verði 1,9% í árslok og einnig nokkru minni á næsta ári en ella. Enn sem komið er virðist svigrúm fyrir frekari styrkingu krónu án þess að það stefni ytra jafnvægi  þjóðarbúsins í voða. Veruleg viðbótarstyrking krónu myndi þó á endanum grafa undan samkeppnishæfni þeirra innlendu fyrirtækja sem helst keppa við erlend og auka að sama skapi hættu á ytra ójafnvægi hagkerfisins og gengisfalli síðar meir. Einnig gæti hækkun launa reynst hraðari næsta kastið en við gerum ráð fyrir, sem vegur þá til aukinnar verðbólgu á næstu misserum.

Verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall