Fréttir Greiningar

Íslendingar sjaldan verið bjartsýnni

01.06.2016 09:00

Íslenskir neytendur hafa sjaldan verið bjartsýnni á stöðu og horfur í efnahagslífinu en nú um þessar mundir. Þannig hækkaði Væntingavísitala Gallup (VVG) um 4,5 stig í maí frá fyrri mánuði, og er vísitalan nú komin upp í 135,6 stig. Er hér um tíunda mánuðinn í röð að ræða sem VVG mælist yfir 100 stigunum sem markar jafnvægi á milli bjart- og svartsýni, og raun hefur gildi vísitölunnar aðeins í 5% tilvika frá upphafi mælinga hennar (mars 2001) mælst hærra. Þetta má sjá í fréttatilkynningu sem Gallup birti í gær um Væntingavísitölu sína.

Allar undirvísitölur vel yfir 100 stigunum

Allar undirvísitölur VVG hækka á milli mánaða að vísitölunni fyrir mat á atvinnuástandi undanskilinni sem lækkar lítillega (-1,6 stig milli mánaða). Gildi þeirrar vísitölu er þó langt yfir 100 stigunum, eða 141,1 stig, og í raun hefur hún aðeins þrívegis mælst hærri en nú frá upphafi mælinga. Aðrar vísitölur mælast jafnframt talsvert langt yfir 100 stiga jafnvæginu milli jákvæðra og neikvæðra svara. Vísitala fyrir mat á núverandi ástandi mælist nú 140,9 stig (+3,6 stig), vísitalan fyrir mat á efnahagslífinu mælist 135,3 stig (+5,5 stig) og væntingar til næstu 6 mánaða mælast nú 132,0 stig (+ 5,1 stig).

Hversu lengi getur gott batnað?

Gildi undirvísitölunnar fyrir núverandi ástand mælist hærra en gildið fyrir væntingar til 6 mánaða þriðja mánuðinn í röð. Undanfarin 8 ár hefur hið gagnstæða nánast alltaf verið uppi á teningnum og er mælingin nú því heldur líkari því sem var á uppgangsárunum 2005-2007 þegar mat á núverandi ástandi var undantekningalaust talsvert hærra en 6 mánaða væntingarnar. Hafa ber í huga að spurningin sem Gallup notar til að mæla 6 mánaða væntingar tekur mið af mati á núverandi ástandi, en spurt er hvort svarandinn telji að aðstæður í efnahagslífinu muni verða betri, óbreyttar eða verri en þær eru í dag. Það er því eðlilegt að þegar talsverður meirihluti neytenda er á því að aðstæður séu almennt góðar séu að sama skapi heldur færri en ella sem telja að þær muni batna enn frekar.

Neysla landans á siglingu

Fylgni VVG við þróun einkaneyslu hefur sögulega verið talsverð. Mælingin nú, líkt og undanfarnar mælingar VVG, ríma því við aðrar vísbendingar um einkaneyslu sem benda til þess að neysla landans vaxi hröðum skrefum þessa dagana. Teljum við góðar líkur á að einkaneysluvöxtur nú það sem af er ári sé sá mesti síðan á hinu mikla einkaneysluári 2007. Þessi mikli vöxtur kemur þó ekki á óvart enda eykst kaupmáttur launa nú hröðum skrefum auk þess sem staðan á vinnumarkaði er stöðugt að verða betri.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall