Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 24. ágúst

15.08.2016 10:18

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SBÍ) muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi sínum 24. ágúst nk. Verður rökstuðningur nefndarinnar fyrir óbreyttum vöxtum væntanlega sá að verðbólga er undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og útlit fyrir að verðbólgan verði hófleg næsta kastið samkvæmt uppfærðri verðbólguspá bankans, sem birt verður samhliða stýrivaxtaákvörðuninni.  

Nefndin mun að okkar mati taka fram í yfirlýsingu sinni nú að aðhald peningastefnunnar hefur aukist meira en áður var búist við samfara hjöðnun verðbólgunnar. Verðbólguvæntingar hafa þokast nær markmiði og verðbólguhorfur í nærtíð batnað samhliða styrkingu krónunnar undanfarið. Kröftugur vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum og vaxandi spenna á vinnumarkaði gæti eftir sem áður leitt til aukins verðbólguþrýstings og orðið til þess að nafnvextir bankans þyrftu að hækka.  

Verðbólga hefur hjaðnað, verðbólguvæntingar lækkað og aðhald peningastjórnunar aukist

Tvær mælingar hafa bæst í vísitölu neysluverðs (VNV) frá síðustu vaxtaákvörðun. VNV hækkaði um 0,18% í júní og en í júlí lækkaði VNV um 0,32%. Verðbólgan hefur hjaðnað frá síðustu vaxtaákvörðun úr 1,7% í 1,1%. Undirliggjandi veðbólga m.v. kjaravísitölu 3 hefur lækkað frá júnífundi nefndarinnar úr 2,2% í  1,4%. Sökum minni verðbólgu hefur taumhald peningastefnunnar, mælt með mun liðinnar verðbólgu og virkra stýrivaxta Seðlabankans, aukist frá síðustu vaxtaákvörðun. Mælast virkir raunstýrivextir nú 4,65% á þann mælikvarða, en voru 4,05% í júníbyrjun.

Verðbólguvæntingar, mælt út frá mun á verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum á skuldabréfamarkaði, hafa lækkað frá síðustu vaxtaákvörðun. Hefur verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði lækkað um 0,2 prósentur a frá fyrsta júní og farið úr 3,0% í 2,8% bæði til 5 og 10 ára. Virkir raunstýrivextir Seðlabankans hafa því einnig hækkað mældir sem munurinn á virkum stýrivöxtum og verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði. Færa má rök fyrir því að áhættuleiðrétt verðbólguálag sé komið niður að eða undir verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Peningastefnunefnd mun við ákvörðun sína nú vera með niðurstöður nýrrar könnunar á verðbólguvæntingum aðila á fjármálamarkaði. Síðast var slík könnun gerð í byrjun maí síðastliðins í tengslum við vaxtaákvörðunina þá og útgáfu Peningamála. Samkvæmt þeirri könnun reiknuðu markaðsaðilar með því að verðbólga yrði 3,2% eftir eitt ár og 3,4% eftir tvö ár. Reiknum við með því að ný könnun sýni breytingar í þessum væntingum sem endurspegli bættar verðbólguhorfur í nærtíð a.m.k. Líklegt er því að aðhald peningamála mælist einnig meira á þann kvarða en síðastliðið vor. 

Verðbólguhorfur hafa batnað mikið samhliða styrkingu krónunnar

Gengi krónunnar hefur hækkað um 5,3% frá síðustu vaxtaákvörðun þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi keypt umtalsvert af gjaldeyri á tímabilinu. Hefur þessi þróun haft umtalsverð áhrif á verðbólgu og verðbólguvæntingar okkar. Samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá sem birt var 12. ágúst sl. mun verðbólgan haldast mjög hófleg næstu mánuði og mælast undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram í árslok 2017. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 1,6% á árinu 2017 og í lok næsta árs mælist hún 2,2%. Við spáum því hins vegar að verðbólgan aukist hratt á árinu 2018, fari yfir verðbólgumarkmiðið í byrjun þess árs og yfir efri þolmörk markmiðsins, sem eru 4,0%, á 3. fjórðungi þess árs.

Verðbólguhorfur eru að okkar mati mun betri en felast í síðustu verðbólguspá Seðlabankans, en sú spá var birt var samhliða vaxtaákvörðuninni 11. maí sl. Sú spá var að okkar mati of svartsýn á áhrif kjarasamninga á verðbólgu næsta kastið, en auk þess hefur gengi krónunnar þróast með allt öðrum hætti en gert var ráð fyrir í spánni. Byggir spá bankans á því að gengisvísitalan haldist föst út spátímabilið frá spádegi í 188,8 stigum. Nú er gengisvísitalan hins vegar 178,7 stig, og hefur gengi krónunnar því styrkst um 5,6% á þann kvarða frá því Seðlabankinn gerði verðbólguspá sína. Hefur þetta umtalsverð áhrif á verðbólguþróunina vegna þess hvað stór hluti neyslukörfunnar er innfluttur, beint eða óbeint.  

Peningastefnunefnd mun hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína uppfærða þjóðhags- og verðbólguspá bankans, sem birt verður samhliða vaxtaákvörðuninni nú. Teljum við að ný verðbólguspá bankans muni endurspegla bættar nærhorfur verðbólgunnar. Spá bankans mun hins vegar líkt og áður byggja á föstu gengi krónunnar út spátímabilið, og þannig verða svartsýnni á verðólguhorfur í nærtíð en okkar þar sem við reiknum með styrkingu krónunnar fram á mitt næsta ár í okkar spá. Í ljósi sögunnar er líklegt að bankinn haldi sig við þá skoðun að verðbólguhorfur til lengri tíma hafi lítið breyst, og að þær séu enn á þann veg að verðbólgan muni aukast umtalsvert þegar kemur fram á næsta ár. Reiknum við með því að endurskoðun hagvaxtarspár muni ekki breyta henni í stórum dráttum. Teljum við þó að hagvaxtarspá bankans fyrri þetta ár, sem hljóðar upp á 4,5% hagvöxt, gæti verið hækkuð aðeins, en á móti kunni hagvaxtarspáin fyrir árin 2017 (4,0%) og 2018 (3,0) að vera lækkuð m.a. vegna hægari hagvaxtar í helstu viðskiptalöndunum og meiri óvissu um iðnaðaruppbyggingu en áður var reiknað með.  

Óbreyttir stýrivextir í júní í takti við spár

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi 1. júní sl. Var það í takti við spá okkar og annarra sem birta spár um stýrivexti bankans. Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingu nefndarinnar var líka orðrétt óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun. Talar nefndin um að alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafi veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt, en að sama skapi séu vísbendingar um að peningastefnan hafi skapað verðbólguvæntingum traustari kjölfestu en áður  og stuðlað að því að verðbólga hefur aukist minna en vænta mátti í kjölfar mikilla launahækkana. Segir nefndin í yfirlýsingu sinni að það breyti ekki því að miðað við spá Seðlabankans sem birt var í maí er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni. 

Samkvæmt fundargerð peningastefnunefndar vegna ofangreindar vaxtaákvörðunar taldi enginn nefndarmaður tilefni til að breyta vöxtum bankans að þessu sinni. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti. 

Spáum óbreyttum stýrivöxtum út spátímabilið 

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti í þrígang á síðastliðnu ári, þ.e. í júní, ágúst og nóvember, um samanlagt 1,25% til að mæta horfum á vaxandi verðbólgu, miklum innlendum launahækkunum og vaxandi framleiðsluspennu í hagkerfinu. Samhliða þessum hækkunum gaf nefndin út skýra framsýna leiðsögn í þá veru að þörf væri á auknu aðhaldi peningastefnunnar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst að mati nefndarinnar af framvindunni.

Peningastefnunefndin hefur á síðustu fimm vaxtaákvörðunarfundum sínum ákveðið að halda vöxtum óbreyttum, en verðbólguþróunin hefur verið talsvert hagfelldari undanfarið en Seðlabankinn hafði spáð. Virkir raunstýrivextir hafa verið að hækka og eru nú nokkuð háir. Talsvert aðhald hefur því verið í peningastjórnuninni og hefur það aðhald aukist m.a. vegna minni verðbólgu og lægri verðbólguvæntinga. Þrátt fyrir ákvörðun um óbreytta vexti hefur nefndin haldið framsýnni leiðsögn sinni óbreyttri og hefur sagt að miðað við spá bankans sé líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings.

Vegna lítillar verðbólgu í okkar spá haldast raunstýrivextir háir áfram og þannig verður umtalsvert aðhald í peningastjórnuninni á stærstum hluta spátímabilsins, þrátt fyrir að ekki verði um frekari hækkun virkra nafnstýrivaxta að ræða. Í þessu ljósi spáum við óbreyttum virkum stýrivöxtum bæði
í ár og á næsta ári.

Mikil óvissa um gengisþróun krónunnar 

Gangi áætlun stjórnvalda um afléttingu gjaldeyrishafta eftir hefur það í för með sér aukna óvissu um gengisþróun krónu, en Seðlabankinn hefur haft styrk tök á henni undanfarið. Líkur eru á að skref í þessa átt verði stigin fyrir fyrirhugaðar Alþingiskosningar 29. október nk.  Má segja að þetta sé einn af stærstu óvissuþáttum stýrivaxtaspár okkar og í leiðinni spár okkar um verðbólguþróun. Spá okkar um stýrivexti byggir á því að þær tilslakanir sem gerðar verða á gjaldeyrishöftum á spátímabilinu verði framkvæmdar þannig að þær munu ekki raska stöðugleikanum á gjaldeyrismarkaðinum og ekki kalla á hækkun stýrivaxta til að tryggja þann stöðugleika. Áætlun um losun hafta styður við þessa forsendu okkar enda er þar lögð áhersla á að takmarka sveiflur á gengi krónu og lágmarka hættu á greiðslujafnaðaráfalli eftir því sem afléttingu hafta vindur fram. 

Miðað við stöðu hagkerfisins í hagsveiflunni, umtalsverðan afgang af utanríkisviðskiptum og stórbætta erlenda stöðu þjóðarbúsins teljum við líkur á því að raungengi krónunnar muni hækka áfram fram á næsta ár. Að hluta mun það að okkar mati eiga sér stað fyrir tilstilli þess að nafngengi krónunnar muni hækka frekar, líkt og við reiknum með í okkar spá. 

Stýrivaxtaspá okkar má nálgast hér

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall