Fréttir Greiningar

Spáum 0,25 prósentustiga lækkun stýrivaxta 16. nóvember

11.11.2016 10:30

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SBÍ) muni lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur á næsta vaxtaákvörðunardegi sínum 16. nóvember nk. Verður rökstuðningur nefndarinnar fyrir lækkun vaxta væntanlega sá að verðbólga er undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og útlit sé fyrir að verðbólgan verði hófleg næsta kastið samkvæmt nýrri verðbólguspá bankans, sem birt verður samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Vegna mikillar hækkunar á gengi krónunnar frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi og síðustu verðbólguspá bankans hafa verðbólguhorfur batnað umtalsvert.  

Nefndin mun að okkar mati taka fram í yfirlýsingu sinni nú að verðbólguvæntingar séu nálægt verðbólgumarkmiðinu og að þær hafi lækkað samhliða styrkingu krónunnar, en nefndin mun m.a. vera með í höndum niðurstöður nýrrar könnunar meðal aðila á fjármálamarkaði á verðbólguvæntingum. Hins vegar mun nefndin einnig vera með nýja hagvaxtarspá bankans þar sem líklegast verður reiknað með meiri hagvexti og þenslu í hagkerfinu en bankinn spáði áður. Þá er umtalsverð óvissa um stöðu kjarasamninga á næstu mánuðum og myndun nýrrar ríkisstjórnar í kjölfar nýafstaðinna Alþingiskosninga.  

Verðbólguhorfur hafa batnað mikið til skemmri tíma samhliða styrkingu krónunnar

Gengi krónunnar hefur hækkað um ríflega 4% gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu frá síðustu vaxtaákvörðun í byrjun október sl. þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi keypt umtalsvert af gjaldeyri á tímabilinu. Á sama mælikvarða hefur gengi krónunnar hækkað um ríflega 9% frá því að Seðlabankinn gerði síðast verðbólguspá sem var í ágúst sl.

Þessi þróun hefur haft umtalsverð áhrif á verðbólgu og verðbólguvæntingar. Samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá sem er frá því í október sl. mun verðbólgan haldast mjög hófleg næstu mánuði og mælast undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram á árið 2018. Byggði sú spá m.a. á þeim væntingum okkar að gengi krónunnar myndi styrkjast í bráð. Gengishækkun krónunnar hefur hins vegar verið mun hraðari en við reiknuðum með og verðbólguhorfur í nærtíð því batnað enn frekar en felst í þeirri spá. Við spáum því að verðbólgan aukist hratt á árinu 2018, fari yfir verðbólgumarkmiðið í byrjun þess árs vegna væntanlegrar gengislækkunar krónunnar en á því ári mun hægja á hagvexti hér á landi samkvæmt okkar spá.    

 

Peningastefnunefnd mun hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína nýja þjóðhags- og verðbólguspá bankans, sem birt verður samhliða vaxtaákvörðuninni nú. Verðbólguhorfur eru að okkar mati mun betri en felast í síðustu verðbólguspá Seðlabankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í ágúst sl. Sú spá bankans byggði á þeirri tæknilegu forsendu að gengisvísitalan héldist föst út spátímabilið, sem er allt annar veruleiki en raunin hefur verið enda hefur gengi krónunnar styrkst um ríflega 9% frá því gildi sem spá bankans byggði á. Gefur því auga leið að ný verðbólguspá bankans muni byggja á mun sterkari krónu en fyrri spá. Það eitt og sér hefur umtalsverð áhrif á verðbólguþróunina næsta kastið, enda er stór hluti neyslukörfunnar innfluttur, beint eða óbeint.

Við teljum líklegt að bankinn geri grundvallarbreytingu í nýrri verðbólguspá sinni þannig að hún muni ekki lengur byggja á föstu gengi heldur gengisferli sem væntanlega mun fela í sér styrkingu krónunnar í bráð en lækkun þegar lengra líður á spátímabilið. Bætir þetta enn frekar verðbólguhorfur í nærtíð en veikir þær þegar litið er til loka spátímabilsins.      

Þættir sem vega á móti áhrifum styrkingar krónunnar

Margt kann að vega á móti áhrifum styrkingar krónunnar á verðbólguþróunina næsta kastið. Í fyrsta lagi er vaxandi órói á vinnumarkaði og tvísýnna er með að núverandi kjarasamningar haldi en var við útgáfu síðustu Peningamála. Í öðru lagi hefur áhrif að í nýrri hagvaxtarspá bankans munu líklega felast væntingar um meiri hagvöxt og meiri framleiðsluspennu á spátímabilinu en fólst í ágústspá bankans. Þar má nefna að í fundargerð síðasta fundar peningastefnunefndar kemur fram að það hafi verið mat nefndarinnar að nýjustu vísbendingar bentu til þess að hagvöxturinn gæti jafnvel orðið kröftugri en nefndin hafði áður búist við. Í þessu sambandi bendum við á að hagvaxtarspá bankans frá því í ágúst er nokkuð undir okkar spá fyrir næsta ár, en bankinn spáði 4,1% hagvexti það ár á meðan við reiknum með 5,1% vexti. Í þriðja lagi er óvissa varðandi næstu ríkisstjórn, en myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir nýlegar kosningar hefur lítið miðað enn sem komið er.  

Að lokum má benda á að þó ný verðbólguspá bankans muni endurspegla bættar nærhorfur verðbólgunnar vegnar styrkingar krónunnar, teljum við að bankinn haldi sig við þá skoðun að verðbólguhorfur til lengri tíma séu enn á þann veg að verðbólgan muni aukast umtalsvert þegar líða tekur á spátímabilið. Er þar um að ræða svipaða þróun og finna má í okkar verðbólguspá. Í því sambandi má reikna með að sá gengisferill sem nú mun fylgja og móta nýja verðbólguspá bankans muni fela í sér lækkun á gengi krónunnar þegar kemur fram á seinni hluta spátímabilsins og draga mun úr spennu í hagkerfinu samkvæmt þjóðhagsspá bankans.  

Óbreyttir stýrivextir í október og hlutlaus framsýn leiðsögn í takti við spár

Peningastefnunefnd Seðlabankans hélt stýrivöxtum bankans óbreyttum í takti við spá okkar og flestra annarra sem spá opinberlega fyrir um stýrivexti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi sínum 5. október sl. Rök nefndarinnar fyrir óbreyttum stýrivöxtum voru í takti við það sem við reiknuðum með, þ.e. verðbólgan hafði aukist töluvert frá síðustu vaxtaákvörðun, m.a. vegna leiðréttingar Hagstofunnar, hagvöxtur verið mikill og hagvaxtarhorfur heldur að batna. Það vó að mati nefndarinnar á móti áhrifum nýlegrar styrkingar krónu og því að verðbólguvæntingar voru áfram við markmið.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í október var framsýna leiðsögnin hlutlaus líkt og áður. Sagði nefndin að  varfærni þurfi um þessar mundir við ákvörðun vaxta og að aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum muni ráðast af efnahagsþróuninni og því hvernig tekst til við losun fjármagnshafta. Nefndin virtist í þessu m.a. hafa augun á gengisþróun krónunnar og að væntanleg skref í losun fjármagnshafta sköpuðu mun meiri óvissu um þróun hennar. Virtist nefndin því vilja fara hægt í sakirnar varðandi frekari breytingar stýrivaxta þar til þetta skref hefði verið stigið. Nú þegar fyrsta skrefið í þessu ferli hefur verið stigið virðist óvissan hafa minnkað, en opnunin hefur a.m.k. ekki enn skapað lækkunarþrýsting á gengi krónunnar. Auk þessa hefur verulega bæst í gjaldeyrisforðann frá síðustu vaxtaákvörðun og bankinn er þannig í enn betri stöðu gangvart næsta skrefi sem stigið verður í losun hafta. 

Spáum annarri 0,25 prósentustiga vaxtalækkun á fyrsta ársfjórðungi næsta árs 

Talsvert aðhald er nú í peningamálum, hvort sem er mælt út frá mun á núverandi verðbólgu og stýrivöxtum eða verðbólguvæntingum og stýrivöxtum. Vegna hóflegrar verðbólgu á næstunni í okkar spá og væntanlega í nýrri spá Seðlabankans haldast raunstýrivextir áfram háir m.v. óbreytta stýrivexti. Þannig verður áfram umtalsvert aðhald í peningastjórnuninni á næstunni. Verði verðbólguþróunin í takti við þessar spár er að okkar mati líklegt að peningastefnunefndin muni lækka stýrivaxti bankans frekar á fyrstu mánuðum næsta árs og þá hugsanlega samhliða útgáfu nýrrar verðbólgu- og þjóðhagsspár í febrúar nk.

Að þessari lækkun í febrúar lokinni reiknum við með því að peningastefnunefndin muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út spátímabilið. Raunstýrivextir munu hins vegar fara lækkandi þegar
kemur fram á árið 2018 og verðbólgutakturinn eykst.

Framvinda stýrivaxta ræðst m.a. af samspili stjórnunar opinberra fjármála og peningamála. Niðurstaða yfirstandandi stjórnarmyndunar gæti haft áhrif á þetta samspil á spátíma okkar. Talsverð óvissa er um þann þátt spárinnar. Reiknum við þó með því að hið opinbera muni styðja peningastefnuna með nokkru aðhaldi á þessu þenslutímabili. Fjárhagsleg staða ríkisins hefur hins vegar batnað umtalsvert, sem endurspeglast m.a. í nýlegri hækkun á lánshæfiseinkunn þess hjá Moody‘s upp í A flokk. Í ljósi bættrar stöðu og aðhalds á ýmsum sviðum opinberra fjármála undanfarin ár er talsvert hávær krafa um aukin útgjöld bæði ríkis og sveitarfélaga. Teljum við líklegt að þetta valdi því að peningamálin og opinberu fjármálin gangi ekki jafn mikið í takt á spátímabilinu og æskilegt væri. 

Mikil óvissa um gengisþróun krónunnar 

Gengi krónu ræður miklu um þá þróun stýrivaxta sem hér er spáð. Gerum við ráð fyrir áframhaldandi styrkingu krónu fram á seinni hluta ársins 2017, og að styrkingin nemi u.þ.b. 5% frá núverandi gildum. Í kjölfarið teljum við hins vegar að gengi krónu taki að lækka á nýjan leik, enda raungengið þá orðið nokkuð hátt, farið að hægja á hagvexti og spennunni í hagkerfinu, og tekið að draga úr gjaldeyrisinnflæði með minnkandi viðskiptaafgangi. Veikingu krónu fylgir aukin verðbólga, en það mildar þó höggið að útlit er fyrir hægari hækkun á launakostnaði og íbúðaverði á seinni hluta spátímans. Samhliða aukinni verðbólgu má vænta þessa að verðbólguvæntingar aukist. Af þeim sökum munu raunstýrivextir lækka og draga úr aðhaldsstigi peningamála þegar kemur fram á árið 2018 að okkar mati. Rétt er að undirstrika að mikil óvissa er um þessa gengisspá sem skapar í leiðinni samsvarandi óvissu um ofangreinda verðbólgu- og stýrivaxtaspá. 

Stýrivaxtaspá okkar má finna hér.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall