Fréttir Greiningar

Kaupmáttur launa vex hraðar en einkaneysla

23.11.2016 10:43

Kaupmáttur launa hefur að jafnaði aukist um 10% í ár frá fyrra ári ef horft er til fyrstu 10 mánaða hvors árs. Er það hraðari aukning kaupmáttar en mælst hefur að jafnaði milli ára undanfarna áratugi. Mikill vöxtur einkaneyslu í ár helst í hendur við sögulega mikinn kaupmáttarvöxt. Síðasta uppsveifla var ólík að þessu leyti en þá var vöxtur einkaneyslu á tímabili margfalt hraðari en sem nam kaupmáttarvexti.

Nýbirtar tölur Hagstofu Íslands um launavísitölu og vísitölu kaupmáttar launa sýna að launavísitalan hækkaði um 0,3% í október. Undanfarna 12 mánuði nemur hækkun launavísitölunnar 10,4%. Það er nokkuð hægari árstaktur en mældist fyrr á árinu, enda gætti þá áhrifa tveggja kjarasamningsbundinna hækkana á tímabilinu hjá stórum hluta launþega. Engu að síður er hækkun launavísitölunnar mikil í sögulegu ljósi, sér í lagi þegar tekið er tillit til þess að verðbólgan hefur á sama tíma verið óvenju lítil miðað við íslenska hagsögu. Kaupmáttur launa hefur því vaxið meira í ár að jafnaði en dæmi eru um síðustu áratugi.

Hraðasta kaupmáttaraukning um áratuga skeið

Vísitala kaupmáttar launa hækkaði um 0,3% í október frá mánuðinum á undan og 12 mánaða hækkunartaktur vísitölunnar mældist því 8,5% í mánuðinum. Líkt og með launavísitölu var kaupmáttaraukning launa þó hraðari fyrr á árinu, og nam aukning kaupmáttar launa að jafnaði 10% á tímabilinu janúar-október frá sama tíma í fyrra. Fara þarf aftur um 18 ár til að finna svo hraða kaupmáttaraukningu í tölum Hagstofunnar, og þá aðeins um þriggja mánaða skeið.

Ástæða þess hversu hratt kaupmáttur launa vex þessa dagana er í sem stystu máli sú að hröð styrking krónunnar hefur vegið á móti verulegri hækkun innlends kostnaðar í verðlagsþróun hér á landi. Á móti ríflega 10% hækkun meðallauna m.v. launavísitölu í október og tæplega 13% árshækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis skv. VNV-mælingu sama mánaðar vegur rúmlega 14% styrking krónu á tímabilinu ásamt afar lítilli innfluttri verðbólgu. Því  er heildar kostnaðarþrýstingur á verðlag hóflegur þessa dagana og launþegar njóta að mestu leyti nafnhækkunar launa án þess að umtalsverð verðbólga éti hana upp.

Eiga heimilin fyrir einkaneysluvextinum?

Einkaneysla óx um 7,7% að raungildi á fyrri helmingi ársins frá sama tíma í fyrra skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Einkaneysluvöxturinn var því nokkru hægari samkvæmt þessum tölum en sem nam kaupmáttaraukningunni. Er þá ekki tekið tillit til þess að landsmönnum fjölgaði á tímabilinu, sem alla jafna ætti að skila ríflega 1% aukningu einkaneyslu milli ára, auk þess sem atvinnuleysi hefur minnkað og atvinnuþátttaka aukist á tímabilinu. Þetta samband kaupmáttar og einkaneyslu er því með allt öðrum hætti þessa dagana en var í uppsveiflunni fyrir u.þ.b. áratug síðan.

Á árunum 2004-2007 jókst einkaneysla til að mynda að jafnaði þrefalt hraðar en sem nam vexti kaupmáttar launa. Jafnvel þótt tekin sé í reikninginn fólksfjölgun, eignaáhrif og áhrif skattalækkana er ljóst að stór hluti einkaneysluvaxtarins á fyrra tímabilinu var fjármagnaður með aukinni skuldsetningu, enda jukust skuldir heimilanna hratt á þessum tíma. Þessa dagana eru heimilin hins vegar skuldléttari en þau hafa verið í tæpa tvo áratugi, og virðast þau ganga tiltölulega skynsamlega um gleðinnar dyr hvað varðar að eyða umfram efni. 

Við spáðum því í september að vöxtur einkaneyslu myndi nema 8,1% á yfirstandandi ári. Miðað við kaupmáttaraukningu launa, fólksfjöldaþróun og vísbendingar á borð við kortaveltu gæti vöxturinn jafnvel orðið heldur hraðari. Kaupmáttarþróunin er hins vegar til marks um að innstæða virðist vera hjá íslenskum heimilum fyrir þessum vexti og gott betur.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall