Fréttir Greiningar

Met í utanlandsferðum Íslendinga

28.11.2016 09:16

Það er orðið nokkuð ljóst að árið í ár verður fjölmennasta ár í sögu landsins í utanlandsferðum Íslendinga, hvort sem litið er á hausa eða hlutfall af mannfjölda. Á fyrstu tíu mánuðum ársins voru brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll (KEF) þegar komnar upp í 450 þús. skv. tölum Ferðamálastofu Íslands. Skv. nýrri farþegaspá Isavia er reiknað með að rúmlega 74 þús. Íslendingar bætist við á síðustu tveimur mánuðum ársins. Sé það tekið með í reikninginn fara brottfarir Íslendinga um KEF upp í 524 þús. á árinu í heild, sem er metfjöldi frá upphafi. Jafngildir þetta 16,4% aukningu á milli ára, eða sem nemur tæplega 74 þús. brottförum. Hér spilar að sjálfsögðu inn í það mikla aðdráttarafl sem EM í Frakklandi hafði á landann í sumar, en skv. okkar útreikningum þá virðist sem metið hefði verið slegið þrátt fyrir að þeirra áhrifa hefði ekki gætt. 

... sem verður slegið á næsta ári

Skv. farþegaspá Isavia mun brottförum Íslendinga um KEF fjölga um 7,4% á milli ára á næsta ári og verða tæplega 563 þús. talsins. Ef sú spá rætist er nokkuð ljóst að metið í ár verður slegið strax á næsta ári. Þetta á ekki einungis við um heildarfjölda brottfara, heldur á einnig við sé tekið tillit til fólksfjölgunar eins og sést á myndinni hér fyrir ofan. Þessi aukning helst í hendur við aðrar tölur er varða neyslu landans sem virðist vera á ágætis siglingu um þessar mundir. Sú þróun helst svo aftur í hendur við hagfellda þróun veigamikla þátta sem varða hag heimilanna, eins og kaupmátt, eignastöðu og atvinnuástand. Sér í lagi hefur gengi krónunnar án efa spilað stóru rullu í aukinni ferðagleði, en hún hefur styrkst nánast linnulaust undanfarin misseri og þar með aukið kaupmátt Íslendinga í útlöndum. Í þessu samhengi má einnig nefna stóraukið flugframboð til og frá landinu, fjölgun áfangastaða og síðast en ekki síst að flugmiðinn til útlanda hefur sjaldan verið ódýrari en um þessar mundir. 

Þó bætir enn í gjaldeyrisinnflæði frá ferðaþjónustu

Þrátt fyrir að horfur eru á talsverðri aukningu á utanlandsferðum Íslendinga og þar með gjaldeyriskaupum þeirra ætti ekki að skorta gjaldeyri hérlendis því útlit er fyrir að enn meira gjaldeyrisinnstreymi verði til landsins á næsta ári frá ferðaþjónustu en í ár. Sem kunnugt er þá hefur gríðarlegur uppgangur í ferðaþjónustunni hér landi á síðustu árum gert það að verkum að ferðaþjónustan er orðin langstærsta atvinnugreinin í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. Horfur eru á að hún komi til með að eflast enn frekar, enda virðist engum blöðum um það að fletta að ævintýralegur vöxtur erlendra ferðamanna hér á landi komi til með að halda áfram. Nýjasta spá þess efnis er frá Isavia, þar sem spáð er 25% fjölgun á erlendum ferðamönnum sem koma hingað til lands í gegnum KEF á næsta ári. Ekki er annað hægt að segja en að það sé verulegur vöxtur, sér í lagi m.v. það sem á undan er gengið, en engu að síður teljum við að óvissan í þessari spá fremur liggi upp á við. 

Ferðaþjónusta ber áfram uppi viðskiptaafgangi

Spá Isavia um 25% fjölgun þýðir að erlendir ferðamenn verða 444 þús. fleiri á næsta ári en þeir verða í ár, eða samanlagt um 2.241 þús. Þessi fjölgun ein og sér jafngildir um 80% af áætluðum heildarfjölda brottfara Íslendinga um KEF á næsta ári, og virðist borðleggjandi að okkar litla þjóð á ekki möguleika að skáka brottförum útlendinga um KEF nema þá að hver Íslendingur fari um 7 sinnum til útlanda á árinu. M.v. spá Isavia verður ferðamannajöfnuður, þ.e. komur erlendra ferðamenna hingað umfram utanlandsferðir Íslendinga, nálægt 1,7 milljónum á næsta ári samanborið við tæpar 1,3 milljónir í ár og 812 þús. í fyrra, eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Þetta þýðir að von er á enn meira gjaldeyrisinnstreymi frá ferðamönnum á næsta ári en því sem nú er að renna sitt skeið. Á fyrstu 10 mánuðum þessa árs nam nettó gjaldeyrisinnstreymi til landsins vegna kortaveltu ferðamanna 103 mö. kr. og reikna má með að sú tala fari upp í um 120 ma. kr. á árinu í heild. M.v. ofangreinda farþegaspá Isavia og þeirri þróun sem verið hefur í kortaveltutölum má gróflega áætla að kortveltujöfnuður gæti orðið jákvæður í kringum 180 ma. kr. á næsta ári. Á móti þessu mikla innflæði vegur raunar vaxandi halli á vöruskiptum, en þó eru horfur á að viðskiptaafgangur verði á heildina litið allmyndarlegur og gjaldeyrisinnflæði frá utanríkisviðskiptum því umtalsvert enn um sinn.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall