Fréttir Greiningar

Kröftugur hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins

07.12.2016 10:57

Hagvöxtur mældist 6,2% á fyrstu níu mánuðum ársins. Er þetta talsvert kröftugur hagvöxtur og sá hraðasti sem mælst hefur í þessari uppsveiflu skv. tölum sem Hagstofan birti í morgun. Er um að ræða mesta hagvöxt sem mælst hefur í nokkru landi innan EES svæðisins á þessu tímabili. Raunar var 10,2% hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi en hafa ber í huga að miklar sveiflur eru í ársfjórðungstölum og því betra að horfa til lengri tíma þegar þróun hagkerfisins er metin. Af þessum sökum horfum við frekar til talna fyrir fyrstu níu mánuði ársins.

Hagvöxtur umfram spár

Hagvöxturinn á fyrstu níu mánuðum ársins er nokkuð yfir því sem flestar opinberar spár hafa hljóðað upp á fyrir árið í heild. Þannig spáðum við 5,1% hagvexti á árinu í nýjustu spá okkar sem birt var í september sl. og Seðlabankinn spáir 5,0% hagvexti í sinni nýjustu spá sem birt var samhliða vaxtaákvörðun bankans um miðjan nóvember sl.

Tölurnar benda til þess að framleiðsluspennan í hagkerfinu sé að myndast nokkuð hraðar en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í sinni síðustu spá. Hagvaxtartölurnar styðja við þá skoðun að peningastefnunefnd muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 14. desember nk. 

Hraður vöxtur í þjóðarútgjöldum

Talsvert hraður vöxtur er í þjóðarútgjöldum um þessar mundir eða 9,3% á fyrstu níu mánuðum ársins skv. tölum Hagstofunnar. Bæði einkaneysla og fjárfesting eru að vaxa hratt. Sú þróun er þó ekki nema lítillega umfram okkar spá, en við reiknuðum með 8,8% vexti þjóðarútgjalda á þessu ári í það heila. Seðlabankinn spáir einnig nokkuð hröðum vexti þjóðarútgjalda eða 8,7%.

Einkaneyslan jókst um 6,7% á fyrstu níu mánuðum ársins. Að baki liggur bætt fjárhagsleg staða heimilanna m.a. vegna mjög mikils vaxtar í kaupmætti ráðstöfunartekna. Er einkaneysluvöxturinn skv. tölum Hagstofunnar nokkuð undir spám fyrir árið í það heila, en við spáum 8,1% vexti og Seðlabankinn 7,6% vexti. Tölur Hagstofunnar eru hóflegar m.v. það sem lesa má úr kortaveltutölum, innflutningstölum og öðrum þáttum sem segja til um þróun einkaneyslu. 

Vöxtur fjárfestingar framar vonum

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins jókst fjárfesting um 27,4% að raunvirði frá sama tíma í fyrra. Fjárfesting virðist ætla að vaxa hraðar en við áttum von á þetta árið. Í þjóðhagsspá okkar í september sl. gerðum við ráð fyrir 21,3% vexti fjárfestingar á árinu. Vöxturinn er einnig yfir nýjustu spá Seðlabankans um 22,5% vöxt á árinu. Atvinnuvegafjárfesting vegur þyngst í þessum hraða vexti, en hún jókst um 34,2% á tímabilinu. Á sama tíma jókst íbúðafjárfesting um 18,7% og fjárfesting hins opinbera um 3,1%. Í öllum tilfellum er um nokkru hraðari vöxt að ræða en við höfðum gert ráð fyrir á árinu í heild. Hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu var 21,6% á fyrstu 9 mánuðum ársins, og var fjárfestingarstigið því ásættanlegt.

Ferðaþjónustan skýrir jákvæðari utanríkisviðskipti

Óhætt er að segja að afar hraður vöxtur ferðaþjónustunnar setur mark sitt á þróun utanríkisviðskipta í tölum Hagstofunnar, og á drjúgan hlut í myndarlegum hagvexti um þessar mundir. Alls óx útflutningur um 10,0% á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs, sem er nokkru hraðari vöxtur en við áætluðum fyrir árið í heild. Þar af jókst þjónustuútflutningur um 17,0% á meðan vöxtur vöruútflutnings var aðeins 3,3%. Vöxtur innflutnings á sama tíma var 16,6%. Meira samræmi var á milli vöru- og þjónustuinnflutnings en útflutnings. Jókst vöruinnflutningurinn um 14,7% en þjónustuinnflutningur um 20,3%.

Framlag utanríkisviðskipta er hagfelldara á fyrstu þremur ársfjórðungum en spár höfðu áætlað, og lítur út fyrir að sama muni eiga við um árið í heild, þökk sé ótrúlegum vexti í ferðaþjónustu.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall