Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 14. desember nk.

09.12.2016 10:18

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SBÍ) muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi sínum 14. desember nk. Verður rökstuðningur nefndarinnar fyrir óbreyttum vöxtum væntanlega sá að þrátt fyrir að verðbólgan og verðbólguvæntingar haldist við verðbólgumarkmiðið þá kalli kröftugur vöxtur eftirspurnar, óvissa varðandi stefnuna í ríkisfjármálum, órói á vinnumarkaði og óvissa varðandi losun fjármagnshafta á óbreytta vexti. Mun nefndin líklegast einnig vísa til þess að þó svo að verðbólgan sé undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans hefur hún aukist frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi í takti við spá bankans. Einnig mun nefndin eflaust vísa til þess að hagvöxtur í ár virðist ætla að vera umfram spá bankans. 

Nefndin mun að okkar mati vera áfram með hlutlausa framsýna leiðsögn í yfirlýsingu sinni vegna vaxtaákvörðunarinnar nú. Mun hún líklegast segja líkt og í yfirlýsingu sinni í nóvember að aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.  

Verðbólgan að aukast en horfur á að verðbólgan haldist undir markmiði  

Verðbólgan hefur aukist frá síðustu vaxtaákvörðun í nóvember. Mælist verðbólgan nú 2,1% en var 1,8% þegar peningastefnunefndin fundaði um miðjan nóvember. Útlit er fyrir að verðbólgan á fjórða fjórðungi þessa árs verði í takti við spá bankans sem hljóðar upp á 2,1%. Til samanburðar mældist verðbólgan 1,3% á þriðja fjórðungi þessa árs. Miklar innlendar kostnaðarverðshækkanir samhliða vaxandi framleiðsluspennu og í kjölfar mikilla launahækkana og aukins hraða í hækkun húsnæðisverðs er að skapa verðbólguna, en á móti vegur umtalsverð styrking krónunnar undanfarna mánuði og lítil innflutt verðbólga.

Gengi krónunnar hefur hækkað um 2% gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu frá síðustu vaxtaákvörðun um miðjan nóvember. Hefur styrkingin átt sér stað þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi keypt umtalsvert af gjaldeyri á tímabilinu, en gjaldeyriskaup bankans voru þrefalt meiri í nóvember sl. en á sama tímabili í fyrra. Gengi krónunnar hefur styrkst um ríflega 19% á ofangreindan mælikvarða frá upphafi árs. Hefur það haft umtalsverð áhrif á verðbólguþróunina á tímabilinu og mun áhrifa þessa halda áfram að gæta á næstu mánuðum.  

Horfur varðandi gengisþróun næstu missera hefur breyst undanfarið að okkar mati. Má nú reikna með meiri styrkingu en áður. Ástæðan er m.a. hagfelldari viðskiptajöfnuður en vænst var, mikill bati á erlendri stöðu þjóðarbúsins og hraðari hagvöxtur í ár en áður var búist við. Á sama tíma hafa horfur varðandi hækkun launa og húsnæðisverðs á næstunni breyst í þá veru að nú má reikna með meiri hækkunum. Þannig er útlit fyrir meiri hækkun innlendra kostnaðarþátta á næstunni og skapar það mótvægi við áhrif sterkari krónu á verðbólguþróunina.

Samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá sem birt er samhliða þessari stýrivaxtaspá mun verðbólgan mælast undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram á árið 2018. Er það nokkuð minni verðbólga en  Seðlabankinn spáir. Við spáum því hins vegar að verðbólgan aukist nokkuð á árinu 2018, fari yfir verðbólgumarkmiðið um mitt það ár og verði nokkuð meiri en Seðlabankinn spáir.    

Hagvöxturinn í ár yfir spá Seðlabankans  

Hagvöxtur mældist 6,2% á fyrstu níu mánuðum ársins. Er þetta talsvert kröftugur hagvöxtur og sá hraðasti sem mælst hefur í þessari uppsveiflu skv. tölum sem Hagstofan birti 7. desember sl. Hagvöxturinn á fyrstu níu mánuðum ársins er nokkuð yfir því sem Seðlabankinn spáir fyrir árið í heild, en hann reiknar með 5,0% hagvexti í sinni nýjustu spá sem birt var samhliða vaxtaákvörðun bankans um miðjan nóvember sl. Tölurnar benda til þess að framleiðsluspennan í hagkerfinu sé að myndast nokkuð hraðar en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í þeirri spá.

Talsvert hraður vöxtur er í þjóðarútgjöldum um þessar mundir, eða 9,3% á fyrstu níu mánuðum ársins skv. tölum Hagstofunnar. Bæði einkaneysla og fjárfesting eru að vaxa hratt. Sú þróun er þó ekki nema lítillega umfram sá Seðlabankans sem hljóðar upp á 8,7%. Þar vegast á áhrif meiri fjárfestingarvaxtar en vænst var á móti hóflegri vexti einkaneyslu en bankinn spáir. Framlag utanríkisviðskipta virðist hins vegar ætla að verða hagfelldara en reiknað er með í spá Seðlabankans, þökk sé miklum vexti í ferðaþjónustu.

Óbreyttir stýrivextir í nóvember og hlutlaus framsýn leiðsögn

Seðlabankans hélt stýrivöxtum bankans óbreyttum 16. nóvember sl. Í yfirlýsingu nefndarinnar vegna ákvörðunarinnar segir að horfur séu á kröftugri hagvexti á þessu og næsta ári en bankinn spáði í ágúst, og að skýrari merki eru um að hraður vöxtur eftirspurnar sé farinn að reyna á þanþol innlendra framleiðsluþátta. Á móti er í spá bankans sem birt var samhliða ákvörðuninni reiknað með mun minni verðbólgu en bankinn gerði í fyrri spá sinni sem birt var í ágúst, en segir jafnframt að breytt verðbólguspá bankans gefi ekki jafn mikið tilefni til viðbragða peningastefnunnar og ætla mætti vegna þess að peningastefnunefnd hefur byggt ákvarðanir sínar á undanförnu á væntingum um að frekari styrking krónu væri líkleg.

Tveir nefndarmenn peningastefnunefndar greiddu atkvæði gegn tillögu bankastjóra Seðlabankans um óbreytta vexti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Vildu þessir aðilar lækka vexti um 0,25 prósentur. Í krafti meirihlutaatkvæða var tillaga bankastjórans hins vegar samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2. Fram kemur í fundargerðinni að helstu rök fyrir því að lækka vexti voru þau að aðhald peningastefunnar hefði aukist meira en áður var búist við vegna gengishækkunar krónunnar. Horfur væru á að krónan héldi áfram að styrkjast fram á næsta ár. Hið þétta taumhald væri ekki fyllilega tímabært í ljósi verðbólguþróunarinnar og því væri tilefni til að slaka tímabundið eitthvað á taumhaldinu sem skapaðist vegna gengishækkunarinnar. 

Spáum 0,5 prósentustiga vaxtalækkun á fyrsta árshelmingi næsta árs 

Talsvert aðhald er nú í peningamálum, hvort sem er mælt út frá mun á núverandi verðbólgu og stýrivöxtum eða verðbólguvæntingum og stýrivöxtum. Vegna hóflegrar verðbólgu á næstunni í okkar spá, sem og spá Seðlabankans, haldast raunstýrivextir áfram háir m.v. óbreytta stýrivexti. Þannig má reikna með að áfram verði umtalsvert aðhald í peningastjórnuninni á næstunni.

Í febrúar á næsta ári mun Seðlabankinn birta uppfærða hagvaxtar- og verðbólguspá. Meiri styrking krónunnar en hann spáði í nóvember mun hafa áhrif á spá bankans til lækkunar á verðbólgu í nærtíð, en krónan er þegar orðin nærri 3% sterkari en bankinn spáði að hún yrði á næsta ári í sinni nýjustu verðbólguspá. Við reiknum með því að gengi krónunnar verði að meðaltali 8% hærra á næsta ári en gert er ráð fyrir í nýjustu spá Seðlabankans.. Á móti áhrifum sterkari krónu á verðbólgu og verðbólguhorfur kemur hugsanlega áhrif af aukinni framleiðsluspennu í hagkerfinu. Reiknum við með því að peningastefnunefndin muni á fyrsta fjórðungi næsta árs, og þá líklegast í febrúar, bregðast við bættum verðbólguhorfum með því að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur.

Reiknum við síðan með annarri 0,25 prósentustiga lækkun stýrivaxta á öðrum ársfjórðungi, en bankinn mun í maí birta nýja verðbólgu og hagvaxtarspá. Eftir það reiknum við með því að nefndin muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út spátímabilið sem nær til loka árs 2018. Aðhaldsstigið mun hins vegar minnka á árinu 2018 að okkar mati vegna aukinnar verðbólgu, en þá reiknum við á móti með því að það dragi úr hagvexti og spennunni í hagkerfinu. 

Óvissa um efnahagsstefnu næstu ríkisstjórnar  

Framvinda stýrivaxta ræðst m.a. af samspili stjórnunar opinberra fjármála og peningamála. Niðurstaða yfirstandandi stjórnarmyndunar gæti haft áhrif á þetta samspil á spátíma okkar. Talsverð óvissa er um þann þátt spárinnar en línur í stjórnarmyndurnarviðræðum eru óskýrar. Spá okkar byggir á því að hið opinbera muni styðja peningastefnuna með nokkru aðhaldi á þessu þenslutímabili. Fjárhagsleg staða ríkisins hefur hins vegar batnað umtalsvert, sem endurspeglast m.a. í nýlegri hækkun á lánshæfiseinkunn þess hjá Moody‘s upp í A flokk. Í ljósi bættrar stöðu og aðhalds á ýmsum sviðum opinberra fjármála undanfarin ár er talsvert hávær krafa um aukin útgjöld bæði ríkis og sveitarfélaga. Teljum við líklegt að þetta valdi því að peningamálin og opinberu fjármálin gangi ekki jafn mikið í takt á spátímabilinu og æskilegt væri. 

Stýrivaxtaspá okkar má nálgast hér.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall