Fréttir Greiningar

Lækkun stýrivaxta þvert á spár

14.12.2016 11:15

Peningastefnunefnd Seðlabankans kom enn á óvart í morgun þegar hún tilkynnti að hún hefði ákvæðið að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur. Tekur vaxtabreytingin strax gildi. Spár lágu á bilinu frá óbreyttum vöxtum í 0,25 prósentustiga lækkun. Spáðum við óbreyttum vöxtum, líkt og meirihluti spáaðila. Talsverð viðbrögð hafa verið á innlendum fjármálamarkaði en óverðtryggð ávöxtunarkrafa hefur lækkað um 0,13-0,22 prósentur. Lækkun verðtryggðrar kröfu hefur verið minni. Einnig hafa innlend hlutabréf hækkað nokkuð í verði. 

Er þetta þriðja vaxtaákvörðunin af fjórum frá miðju ári þar sem vaxtaákvörðun Seðlabankans er þvert á flestar spár, sem vekur spurningar um fyrirsjáanleika peningastefnunnar. Aðspurður að því á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar sagði Seðlabankastjóri að það væri gott að hafa fyrirsjáanleika en það væri ekki alltaf hægt sérstaklega nú þegar um væri að ræða mjög miklar fínstillingar á stýrivöxtum bankans. 

Hækkun gengis krónunnar skapar svigrúm 

Í yfirlýsingu vegna vaxtaákvörðunarinnar segir nefndin að kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið virðist hafa styrkst og aðhald peningastefnunnar að einhverju leyti aukist í gegnum hækkun gengis krónunnar. Segir hún að þetta gefi henni svigrúm til að lækka nafnvexti nú.

Gengi krónunnar hefur styrkst um 1½% gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu frá síðasta fundi nefndarinnar og er þegar orðið nokkuð hærra en bankinn spáði að gengi krónunnar yrði á næsta ári. Rifja má upp í þessu samhengi að milli vaxtaákvörðunarinnar 16. nóvember sl. og vaxtaákvörðunarinnar þar áður, sem var í byrjun október sl., styrktist krónan um 4,6% en nefndin ákvað þá að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Einnig má nefna að stærsti hluti af þeirrar styrkingar krónunnar sem bankinn spáði að yrði fram á næsta ár var þegar kominn fram þegar nefndin tók ákvörðun sína og kynnti í nóvember. Í ljósi ofangreinds má segja að nefndin sé að bregðast núna við forsendum sem voru að mestu komnar fram fyrir lækkun stýrivaxta við síðustu vaxtaákvörðun, en við spáðum því þá að þeir myndu lækka stýrivexti sína um 0,25 prósentur. Virðist nefndin í yfirlýsingum sínum undanfarið slá nokkuð úr og í um hvort gengisþróun krónu sé í takti við væntingar þeirra eða gefi tilefni til breytinga á peningastefnunni eins og nú var raunin.

Þeir tveir sem vildu lækkun síðast hafa fengið liðsauka

Í fundargerð vegna fundar nefndarinnar í nóvember kom fram að tveir af fimm nefndarmönnum vildu þá lækka vexti. Endurspeglar það þá óvissu sem var um ákvörðun þeirra þá. Sagði Seðlabankastjóri á kynningafundinum vegna vaxtaákvörðunarinnar nú að ákvörðunin síðast hefði verið mjög fínt jafnvægi og að ákvörðunin þá hefði getað farið á annan hátt. Virðist nú að þessir tveir sem vildu lækkun á fundi nefndarinnar í nóvember hafi fengið liðsauka í ákvörðun um lækkun vaxta. Teljum við hins vegar ólíklegt að einhugur hafi verð innan nefndarinnar um þessa ákvörðun nú, enda að okkar mati ekki það mikið gerst frá síðasta fundi nefndarinnar í nóvember að það hefði almennt átt að kalla á breytta afstöðu nefndarmanna.   

Gefa lítið fyrir verri ytri skilyrði

Í yfirlýsingu sinni nú vísar nefndin til þess að verðbólgan er undir markmiðinu og hefur haldist þar um þriggja ára skeið þrátt fyrir miklar launahækkanir og öran vöxt eftirspurnar. Segir nefndin að hagfelld ytri skilyrði,  hækkun á gengi krónunnar og aðhaldssöm peningastefna hefur skapað verðbólguvæntingum kjölfestu.

Ekki er þó minnst á að ytri skilyrði hafa breyst nokkuð til hins verra undanfarið, með hækkun olíuverðs, vaxandi verðbólguvæntingum og hækkandi langtímavöxtum. Aðspurður að þessum þætti sagði seðlabankastjóri á fundinum vegna vaxtaákvörðunarinnar að það væri rétt að þessi skilyrði hefðu versnað en að þau væru engu að síður enn mjög góð og að hluta hafi þetta líka verið inni í spá bankans sem birt var í nóvember. 

Óbreytt framsýn leiðsögn 

Peningastefnunefndin heldur óbreyttri framsýnni leiðsögn frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Er nefndin enn hlutlaus varðandi það hvort næsta skref í vaxtaákvörðunum hans sé til hækkunar eða lækkunar. Segir hún að kröftugur vöxtur eftirspurnar og óvissa vegna efnahagsstefnu nýrrar ríkisstjórnar, órói á vinnumarkaði og óvissa um áhrif næstu skrefa við losun fjármagnshafta kalli á varkárni við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn. Við spáum því að nefndin muni lækka stýrivexti bankans frekar á fyrri helmingi næsta árs. 

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall