Fréttir Greiningar

Spáum 0,6% lækkun neysluverðs í janúar

13.01.2017 11:05

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,6% í janúar frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá verður verðbólga óbreytt í 1,9%. Hefur verðbólga þar með verið undir 2,5% markmiði Seðlabankans í 3 ár samfleytt.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa versnað lítillega frá síðustu spá okkar. Er það annars vegar vegna heldur meiri hækkunar VNV næstu mánuði en við gerðum áður ráð fyrir, en hins vegar vegna heldur lægra gengis krónu að jafnaði. Við gerum þó eftir sem áður ráð fyrir hóflegri verðbólgu til skemmri tíma litið, og verður hún raunar undir verðbólgumarkmiðinu allt fram á 2. ársfjórðung 2018 samkvæmt spánni. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast allhratt og verða við 4,0% efri þolmörk verðbólgumarkmiðs bankans á síðasta fjórðungi þess árs, en hjaðna síðan heldur að nýju. Hagstofan birtir mælingu VNV kl. 09:00 þann 27. janúar næstkomandi.

Húsnæði, eldsneyti, áfengi og tóbak til hækkunar

Húsnæðisliður VNV hefur vegið hvað þyngst til hækkunar VNV undanfarna mánuði, og verður það einnig raunin nú að okkar mati. Könnun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, muni hækka um 1,3% í janúar (0,21% áhrif í VNV). Lækkun á veitugjöldum og viðhaldskostnaði vegur þó lítillega á móti þessum áhrifum, og heild vegur húsnæðisliður VNV til 0,20% hækkunar í desember. 

Eldsneytisverð hefur hækkað talsvert hérlendis undanfarið í kjölfar snarprar hækkunar á heimsmarkaðsverði eldsneytis í desemberbyrjun, auk hækkunar á í ýmsum opinberum gjöldum tengdum því. Frá síðustu mælingu Hagstofunnar nemur hækkunin að jafnaði 3,8% (0,14% í VNV) samkvæmt könnun okkar.
 
Þá hækkaði verð á áfengi og tóbaki nokkuð um áramótin vegna hækkunar opinberra gjalda, og hefur það samtals áhrif til rúmlega 0,09% hækkunar VNV í spá okkar. Loks má nefna að hækkun á matvælaverði hefur áhrif til 0,06% hækkunar, sem má að langmestu leyti rekja til verðhækkunar á mjólkurvörum (0,05% í VNV) í byrjun janúar. Jafnframt gerum við ráð fyrir verðhækkun á þjónustu hótela og veitingahúsa sem hefur áhrif til 0,05% hækkunar VNV í spánni.

Útsöluáhrif, flugfargjöld og bifreiðaverð til lækkunar

Að vanda vega útsölur talsvert til lækkunar VNV í janúarmánuði. Teljum við að útsölur á fötum og skóm vegi til 0,58% lækkunar VNV nú og útsölur á húsgögnum og heimilistækjum til 0,24% lækkunar. Eins og sést á myndinni eru áhrifin sambærileg og síðustu ár á heildina litið. Auk þess vegur verðlækkun á sjónvörpum, tölvum og hljómtækjum til 0,06% lækkunar VNV í spánni. 

Þá teljum við að lækkun flugfargjalda vegi til 0,10% lækkunar VNV að þessu sinni. Óvissa er þó nokkur um þennan lið, þar sem spá okkar fyrir hann í desember reyndist fjarri niðurstöðu Hagstofunnar. Einnig bendir verðkönnun okkar til þess að verð nýrra bifreiða hafi lækkað umtalsvert síðustu vikur, og hefur það áhrif til 0,15% lækkunar VNV í spánni nú. Gangi það eftir hefur bifreiðaverð lækkað um nærri 7% frá miðju síðasta ári.

Verðbólga svipuð næstu mánuði

Horfur eru á að verðbólgutakturinn breytist ekki verulega næstu mánuðina. Við spáum 0,6% hækkun VNV í febrúar, 0,5% hækkun í mars og 0,3% hækkun í apríl. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,0% í apríl nk. 

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,18% í mánuði hverjum að jafnaði. Í febrúar og mars ganga útsöluáhrif til baka að mestu, en við gerum þó ráð fyrir að verð innfluttra vara á borð við föt, húsgögn og raftæki verði almennt lægra í lok ársfjórðungsins vegna styrkingar krónu og afnáms tolla á hluta þessara vara. Þá gerum við ráð fyrir að flugfargjöld lækki í febrúar, en hækki heldur að nýju í mars og apríl. Loks vegur matur og drykkur til lækkunar VNV í febrúarmánuði.

Verðbólga undir markmiði fram á vorið 2018

Útlit er fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki eftir á nýjan leik. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 1,8% á árinu 2017, og að í lok næsta árs mælist hún 1,9%. Í kjölfarið teljum við hins vegar að verðbólga muni fara vaxandi, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á öðrum ársfjórðungi 2018 og verða við 4,0% efri þolmörk markmiðsins á síðasta fjórðungi þess árs. Við birtum nú í fyrsta sinn spá fyrir 2019, og gerum við ráð fyrir að verðbólga hjaðni heldur að nýju það ár og mælist 3,3% í lok spátímans. Eðlilega eykst þó óvissa spárinnar eftir því sem lengra er skyggnst fram á við.

Gengisþróun krónu er sem fyrr einn helsti gangráður spár okkar, og gerum við eftir sem áður ráð fyrir styrkingu fram á lokafjórðung yfirstandandi árs. Alls mun styrkingin nema tæplega 8% frá núverandi gildum. Gengislækkun krónu frá síðustu spá veldur því hins vegar að gengið nær ekki alveg sömu hæðum í spá okkar nú og í desemberspánni. Líkt og áður gerum við í kjölfarið ráð fyrir hægfara gengislækkun krónu á seinni hluta spátímans, þegar dregur úr viðskiptaafgangi og hátt raungengi fer að segja til sín af auknum þunga. Gengi krónu verður þrátt fyrir þá gengislækkun heldur hærra í árslok 2019 en núverandi gengi, gangi spáin eftir.

Hækkun launa mun áfram mynda hækkunarþrýsting á verðlag hérlendis, enda gerum við ráð fyrir nokkuð meiri hækkun launa en samrýmist verðbólgumarkmiðinu að viðbættum framleiðnivexti. Sá þrýstingur minnkar hins vegar jafnt og þétt þegar frá líður og dregur úr spennu á vinnumarkaði. Svipaða sögu má segja af verðþróun íbúðarhúsnæðis, þar sem við spáum áframhaldandi hækkun en að smám saman dragi úr hækkunarhraðanum.

Verðbólguspá fyrir janúar 2017

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall