Fréttir Greiningar

Óbreyttir stýrivextir í takti við spá

08.02.2017 11:39

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í takti við spá okkar og annarra sem spá opinberlega fyrir um stýrivexti bankans.  Meginvextir bankans, þ.e. vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,0%. 

Rök peningastefnunefndar fyrir að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum eru í takti við það sem við reiknuðum með. Segir nefndin að ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið og hækkun gengis krónunnar hafa hins vegar gert peningastefnunefnd mögulegt að ná lögboðnu markmiði um verðstöðugleika við lægra vaxtastig en ella.

Áfram hlutlaus framsýn leiðsögn

Framsýn leiðsögn nefndarinnar er áfram hlutlaus í yfirlýsingu hennar. Segir nefndin í yfirlýsingu sinni nú, líkt og í desember, að aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum muni ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn. 

Bankinn ætlar að draga úr skammtímasveiflun á gjaldeyrismarkaði 

Samhliða vaxtákvörðuninni í desember sl. boðaði nefndin að hún myndi ekki gera breytingar á inngripastefnu bankans þá en endurmeta stöðuna á fundi sínum nú. Segir nefndin í yfirlýsingu sinni nú að skammtímasveiflur í gengi krónunnar hafi það sem af er ári verið nokkuð meiri en síðustu tvö ár. Segir þar einnig að að sé stefnt að því að skammtímasveiflur verði minni á næstunni í samræmi við það markmið að draga úr sveiflum í gengi krónunnar. Tekið er fram að viðskipti bankans á gjaldeyrismarkaði munu einnig markast af því að ekki er þörf fyrir frekari stækkun gjaldeyrisforða og að hætta á tímabundnu ofrisi krónunnar í aðdraganda losunar fjármagnshafta hefur minnkað eftir að stór skref voru stigin nýlega. Bendir þetta til þess að bankinn muni ekki einvörðungu kaupa inn í forðann á næstunni ólíkt því sem hefur verið undanfarna mánuði og sérstaklega á síðastliðnu ári, heldur gæti hann orðið virkari á söluhlið ef frekari veikingarþrýstingur kemur fram á gjaldeyrismarkaði.

Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar í morgun að nú hefðu líkurnar aukist á því að bankinn færi að koma báðum megin inn á gjaldeyrismarkaðinum, þ.e. að hann færi bæði að selja og kaupa gjaldeyri á millibankamarkaðinum til að bregðast við skammtímasveiflum í gengi krónu. Sagði hann að mikilvægt væri að túlka þetta ekki þannig að það væri mat bankans að gengi krónunnar sé orðið of lágt, en bankinn hefur undanfarið einvörðungu keypt gjaldeyri á markaði og þannig unnið á móti styrkingu krónunnar. Bætti hann við að markmið bankans væri einkum það að draga úr skammtímasveiflum í gengi krónunnar og sérstaklega dagssveiflum. Í þessu sambandi er rétt að benda á að bankinn reiknar með því í spá sinni sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni nú að gengi krónunnar muni styrkjast á næstunni.

Aðspurður sagði Seðlabankastjóri að þetta væru ekki skilaboð um ósamhverf viðbrögð bankans við gengissveiflum. Sagði hann að þó ekki sé þörf á að stækka forðann megi vel vera að forðinn stækki. Seðlabankamenn eru heldur ekki að reyna að halda gengi krónunnar i einhverjum tilteknum gildum. Ef það verður áframhaldandi styrking, og ef það verður hægfara þróun, er ólíklegra að bankinn komi inn á gjaldeyrismarkaðinn og vinni á móti því en ef hreyfingin í krónunni verður snörp. Bætti hann við að Seðlabankinn er með innri reglur varðandi inngripin en þær eru ekki meitlaðar í stein. Ekki sé hægt að birta slíka reglu, þar sem það er ekki bankanum í hag að vera algerlega fyrirsjáanlegur á gjaldeyrismarkaði ólíkt því sem er í peningastjórnuninni þar sem bankinn á að vera fyrirsjáanlegur.  

Verðbólguhorfur hafa batnað

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú birti Seðlabankinn uppfærða verðbólguspá. Að mati bankans hafa verðbólguhorfurnar batnað lítillega frá nóvemberspánni þrátt fyrir meiri spennu í þjóðarbúskapnum. Þær byggjast þó á þeirri forsendu að kjarasamningar á vinnumarkaði losni ekki á næstunni. Um það ríkir hins vegar töluverð óvissa að mati bankans. Á móti innlendum verðbólguþrýstingi vegur lítil alþjóðleg verðbólga, hækkun gengis krónunnar sem bankinn spáir á spátímanum og aðhaldssöm peningastefna. Peningastefnan hefur skapað verðbólguvæntingum kjölfestu, haldið aftur af útlánavexti og stuðlað að meiri sparnaði en ella. Eru verðbólguvæntingar almennt í takti við verðbólgumarmið bankans og hafa lækkað um ½ - 1½ prósentu frá því fyrir ári.

Verðbólguspá bankans er tiltölulega bjartsýn, en bankinn gerir ráð fyrir 2,1% verðbólgu í ár, 2,5% á næsta ári og 2,8% árið 2019. Má því segja að bankinn spái verðbólgu við markmið næstu þrjú ár. Þessi hóflega verðbólga er í boði áframhaldandi styrkingar krónunnar í spá Seðlabankans, en styrkingin nemur að jafnaði ríflega 3% á ári í spánni. Á móti vegur svo áframhaldandi launaþrýstingur og hækkun húsnæðisverðs. Hækkun á gengi krónunnar gerir þannig að verkum að verðbólgan helst hófleg þrátt fyrir að laun á framleidda einingu eru að hækka umtalsvert á spátímabilinu. Í spálíkani bankans er reiknað með að jafnvægisraunstýrivextir séu 3%. Um það mat ríkir hins vegar veruleg óvissa. Bankinn segist vita að þessir vextir hafi verið að lækka hérlendis líkt og erlendis, en nákvæmlega hvað mikið er óvissa um.

Reiknar með meiri hagvexti

Seðlabankinn birti einnig uppfærða hagvaxtarspá samhliða ákvörðuninni nú. Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir nokkru meiri hagvexti í ár (5,3%) en í nóvemberspá sinni (4,5%). Einnig áætlar bankinn að vöxtur hafi verið talsvert meiri í fyrra (6,0%) en hann spáði í nóvember (5,0%). Horfur fyrir 2018 (3,1%) og 2019 (2,6%) eru hins vegar svipaðar og áður. Meiri vöxtur fjárfestingar skýrir að mestu leyti hækkun hagvaxtarspár fyrir yfirstandandi ár en meiri vöxtur þjónustuútflutnings, sérstaklega í ferðaþjónustu, hraðari vöxt í fyrra. Í ljósi þessa reiknar bankinn með því að framleiðsluspennan verði meiri í ár og atvinnuleysið minna en bankinn reiknaði með áður. Þó bankinn geri ráð fyrir áframhaldandi hækkun raungengis spáir hann eftir sem áður verulegum viðskiptaafgangi út spátímabilið, eða að meðaltali 4,4% af VLF á ári. Sagði aðalhagfræðingur Seðlabankans á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar að það felist í spánni að jafnvægiraungengið er að hækka. Sagði hann ástæðuna m.a. vera þá að viðskiptakjör eru að batna á tímabilinu, erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað og útflutningsvöxtur er mikill. Sagði hann að bankinn  viti ekki nákvæmlega hvar hið nýja jafnvægisraungengi er þó að þeir telji víst að það hafi verið að hækka. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall