Fréttir Greiningar

Viðskiptajöfnuður aldrei hagstæðari

03.03.2017 10:14

Viðskiptaafgangur á síðastliðnu ári var sá mesti frá upphafi mælinga, sem má að mestu þakka sögulega miklum afgangi af þjónustuviðskiptum. Einnig hjálpar til að hrein erlend staða þjóðarbúsins var jákvæð í lok 4. ársfjórðungs, en hún hefur tekið miklum breytingum til batnaðar frá því sem áður var þegar hún mældist neikvæð um tugi prósenta af vergri landsframleiðslu. Þá voru viðskiptakjör hagstæð á síðasta ári. Hækkaði gengi krónunnar mikið á síðasta ári og var árið metár í því sambandi. Hækkunina má rekja að stórum hluta til hagstæðra utanríkisviðskipta þjóðarbúsins. 

 

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 44,7 ma. kr. á 4. ársfjórðungi 2016 samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær. Þegar lágu fyrir tölur um að þjónustujöfnuður væri hagstæður um 43,4 ma. kr. og að halli væri á vöruskiptum upp á 13,3 ma. kr. á fjórðungnum. Þá var jöfnuður frumþáttatekna hagstæður um 19,3 ma. kr. en halli af rekstrarframlögum nam um 4,8 mö. kr. Þetta er 31,4 mö. kr. meiri afgangur af viðskiptajöfnuði en mældist á 4. ársfjórðungi 2015 en þá mældist 13,3 ma. kr. afgangur (án áhrifa innlánstofnana í slitameðferð).

Meiri viðskiptaafgangur í ár en vænst var

Sé tekið mið af árinu 2016 í heild mælist afgangur af viðskiptajöfnuði 193,5 ma. kr., eða sem nemur um 8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) ársins. Hefur viðskiptajöfnuður aldrei áður mælst eins hagstæður eins og áður segir, og er útkoman jafnframt betri en við höfðum reiknað með (6-7% af VLF) og fjölluðum um í Morgunkorni í vikunni. Einnig er þetta hagstæðari niðurstaða en Seðlabankinn hafði áætlað í febrúar sl., en hann hafði áætlað að afgangurinn yrði 6,4% af VLF. Þegar lá fyrir að þjónustujöfnuður væri hagstæður um 260,3 ma. kr. og að halli á vöruskiptum væri 101,5 ma. kr. á árinu. Þá var jöfnuður frumþáttatekna hagstæður um 51,0 ma. kr. og halli af rekstrarframlögum upp á 16,4 ma. kr. 

Hrein erlend staða jákvæð um 1,1% af VLF

Erlendar eignir námu 3.837 mö. kr. í lok 4. ársfjórðungs, en  erlendar skuldir 3.811 mö. kr. Var hrein staða við útlönd þar með jákvæð um 26,4 ma. kr., sem jafngildir um 1,1% af VLF. Hefur staðan ekki verið hagstæðari frá því mælingar hófust, en til samanburðar má nefna að hún mældist að jafnaði neikvæð um  70% af VLF sé horft framhjá efnahag slitabúa gömlu bankanna. Frá 3. ársfjórðungi 2016 batnaði staðan um 35,8 ma. kr. á milli ársfjórðunga, en hrein fjármagnsviðskipti bættu stöðuna um 113 ma. kr. en gengis og verðbreytingar höfðu neikvæð áhrif upp á 79 ma. kr. Tölurnar fyrir 3. ársfjórðung hafa reyndar verið endurskoðar verulega og þá til lækkunar en endurskoðunin tengist nýjum gögnum sem Seðlabankanum hefur borist. Bentu fyrstu tölur til þess að hrein staða hefði verið jákvæð um 59,9 ma. kr. en endurskoðaðar tölur benda til þess að hún hafi verið neikvæð um 9,4 ma. kr. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall