Fréttir Greiningar

Hagvöxtur 2016 sá mesti í áratug

09.03.2017 12:02

Hagvöxtur í fyrra var 7,2%. Er þetta meiri vöxtur en spáð var, og mesti hagvöxtur frá árinu 2007. Vöxturinn var sér í lagi mikill á seinni hluta síðasta árs, og var hagvöxtur á 4. ársfjórðungi sá mesti á einum fjórðungi í um áratug. Hagvöxturinn var drifinn af þjónustuútflutningi, fjárfestingu einkaaðila og einkaneyslu. Þjóðartekjur uxu þó enn hraðar en landsframleiðsla vegna jákvæðra viðskiptakjaraáhrifa og afgangs af þáttatekjum. Þótt hagvöxturinn í fyrra hafi verið mikill, og talsvert umfram vöxt framleiðslugetu, er samsetning hans tiltölulega jákvæð og til marks um hversu mikið íslenskt hagkerfi hefur breyst frá síðustu áratugum.

Mikill vöxtur á lokafjórðungi síðasta árs

Í nýbirtum útgáfum Hagstofu Íslands um landsframleiðslu á 4. ársfjórðungi 2016 sem og þjóðhagsreikninga ársins í heild kemur fram að hagvöxtur á lokafjórðungi síðasta árs var 11,3%. Er það mesti vöxtur frá sama fjórðungi fyrir áratug, og talsvert meiri vöxtur en við áttum von á. Þessi mikli vöxtur skýrist að stórum hluta af nærri 26% vexti þjónustuútflutnings og 71% vexti íbúðafjárfestingar á milli ára.

Vöxtur íbúðafjárfestingar hefur aldrei fyrr mælst neitt í líkingu við ofangreinda tölu, en hafa ber í huga að ársfjórðungstölur þjóðhagsreikninga eru gjarnan endurskoðaðar hressilega. Einnig var vöxtur atvinnuvegafjárfestingar og einkaneyslu með myndarlegra móti, þótt áhrif þessara liða væru vægari en hinna fyrrnefndu. 

Ferðaþjónustan einn helsti drifkraftur hagvaxtar

Verg landsframleiðsla (VLF) árið 2016 var 2.420 ma. kr. m.v. bráðabirgðatölur Hagstofunnar, og óx hún að raungildi um 7,2% á milli ára. Síðasta ár er því hraðasta hagvaxtarár núverandi uppsveiflu, og þarf að fara aftur til útrásarársins 2007 til að finna hraðari hagvöxt. Hagvöxtur á mann var hins vegar 5,5% í fyrra, enda fjölgaði landsmönnum um 1,6%.

Líkt og búast mátti við spilaði hinn gríðarlegi vöxtur ferðaþjónustunnar stórt hlutverk í hagvaxtartölum síðasta árs. Alls óx þjónustuútflutningur um ríflega 19% að magni til á milli ára í fyrra, og nam framlag hans til hagvaxtar 4,9%. Til samanburðar óx vöruútflutningur um 3,7% og lagði  1,0% til hagvaxtar á síðasta ári. Þjónustuútflutningur nam tæpum 27% af VLF í fyrra en vöruútflutningur ríflega 22% af VLF, og var 2016 fyrsta árið frá því gerð þjóðhagsreikninga hófst árið 1945 sem þjónustuútflutningur mælist meiri en vöruútflutningur á þennan kvarða. 

Ár einkafjárfestingar

Árið 2016 var einnig ár fjárfestingar í einkageiranum. Í heild jókst fjárfesting um 22,7% á síðasta ári, og hefur vöxtur hennar ekki verið hraðari frá árinu 2006. Hlutfall fjárfestingar af VLF var 21,2% í fyrra, og er hlutfallið því komið talsvert yfir 20% viðmiðið sem talið er æskilegt lágmark fyrir þróuð hagkerfi. Hraðastur var vöxturinn í íbúðafjárfestingu, eða 33,7% og virðist sem vöxtur í þessum geira hafi tekið hressilega við sér á seinni helmingi ársins. Hljóta það að teljast jákvæð tíðindi í ljósi stöðunnar á húsnæðismarkaði, þar sem eftirspurn hefur tekið fram úr framboði síðustu misserin. Þá óx fjárfesting atvinnuvega um 24,7% í fyrra, en þar var vöxturinn raunar öllu hraðari á fyrri hluta ársins en þeim seinni. Vart þarf að nefna að fjárfesting vegna ferðaþjónustu átti sinn þátt í þessum myndarlega vexti atvinnuvegafjárfestingar, og eru heildaráhrif þess geira því enn meiri á vöxt en beinu áhrifin sem endurspeglast í útflutningstölunum. Vöxtur í opinberri fjárfestingu var hins vegar aðeins 2,5% í fyrra eftir 3,0% samdrátt árið áður.

Hlutfall einkaneyslu lækkar

Vöxtur einkaneyslu nam 6,9% í fyrra, og hefur vöxturinn ekki verið hraðari frá árinu 2005. Sér í lagi jukust útgjöld heimila erlendis hratt á síðasta ári, eða sem nemur um 29% að raunvirði á milli ára. Slík útgjöld námu í fyrra 13,6% af heildarútgjöldum heimila, en voru að jafnaði 11% af heildinni í síðustu uppsveiflu. Hafa útgjöld Íslendinga erlendis sem hlutfall af heildarneyslu heimilanna aldrei áður verið meiri, sem má hvort tveggja rekja til þess að árið 2016 var metár í utanlandsferðum Íslendinga og þess að netverslun hefur aukist verulega. 

Þrátt fyrir drjúgan einkaneysluvöxt lækkaði hlutfall einkaneyslu af VLF á síðasta ári, enda var vöxtur hennar aðeins undir hagvexti. Hlutfallið var 49% og hefur ekki verið lægra frá upphafsári þjóðhagsreikninga 1945. Gefur þetta til kynna að enn kunni að vera innstæða fyrir talsverðum einkaneysluvexti án þess að innra jafnvægi í hagkerfinu sé stefnt í voða.

Þá var vöxtur umsvifa hins opinbera á síðasta ári mun hægari en vöxtur í hagkerfinu almennt. Auk þess hæga vaxtar opinberrar fjárfestingar sem þegar hefur verið minnst á jókst samneysla aðeins um 1,5% í fyrra eftir hægan vöxt næstu tvö ár á undan. Hlutfall samneyslu af VLF var 23,1% árið 2016, en þetta hlutfall hefur að jafnaði verið 23,3% undanfarin 20 ár. 

Hvernig túlkar Seðlabankinn tölurnar?

Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er næstkomandi miðvikudagur, 15. mars. Mun peningastefnunefnd bankans eflaust taka talsvert mið af hinum nýju landsframleiðslutölum, enda var hagvöxtur í fyrra talsvert hraðari en sá 6,0% vöxtur sem bankinn áætlaði í þjóðhagsspá sinni í febrúar sl. Seðlabankamenn munu þó eflaust einnig líta til samsetningu hagvaxtarins, en rifja má upp að í desember sl. nefndi peningastefnunefndin að hagfelld samsetning hagvaxtar hefði áhrif á áhættumat nefndarinnar þrátt fyrir að útlit væri fyrir hraðari hagvöxt árið 2016 en áður var talið. 

Að mati okkar endurspegla framangreindar tölur vel hversu stórstígum breytingum hagkerfið hefur tekið frá síðustu hagsveiflu. Mun minni merki eru um ójafnvægi í hagkerfinu en í síðustu uppsveiflum þrátt fyrir að vöxtur sé hraður, hagsveiflan sé komin nokkuð til ára sinna og raungengið orðið hátt. Hófleg hlutföll bæði einkaneyslu og samneyslu af VLF í sögulegu ljósi eru einnig vonandi til marks um að heimilin sem og hið opinbera spenni bogann ekki of hátt þessa dagana, sem mun að sama skapi gera lendinguna mýkri þegar núverandi uppsveiflu lýkur.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall