Fréttir Greiningar

Talsverð viðbrögð á gjaldeyrismarkaði við afnámi hafta

13.03.2017 12:06

Gengi krónunnar hefur lækkaði dag um 2,9% gagnvart evru og dollara og um 3,4% gagnvart pundi m.v. stöðuna á hádegi. Lækkunina má rekja að mestu til þeirra breytinga sem ríkisstjórnin tilkynnti um í gær, en samkvæmt þeim  munu heimili og fyrirtæki almennt ekki lengur verða bundin af takmörkunum sem lög um gjaldeyrismál setja m.a. á gjaldeyrisviðskipti, fjárfestingar erlendis, áhættuvarnir og lánaviðskipti. Einnig hefur skilaskylda innlendra aðila á erlendum gjaldeyri verið afnumin.

Eftir standa varúðarreglur 

Eftir afnám fjármagnshaftanna standa þó eftir varúðarreglur vegna vaxtamunarviðskipta og takmarkanir á afleiðuviðskipti með íslenskar krónur, sem eru þær tegundir spákaupmennsku sem urðu til þess að snjóhengja aflandskróna myndaðist. Innflæðistækið verður áfram til staðar. Reglum um það hefur verið breytt til að ríma við breytt gjaldeyrislög en engar breytingar voru hins vegar gerðar á binditíma eða bindihlutfalli. Eftir sem áður þurfa því þeir erlendu aðilar sem vilja fjárfesta í innlendum skuldabréfum eða innlánum að leggja fram sem svarar 40% af fjárfestingu sinni inn á vaxtalausa reikninga sem bundnir eru til 12 mánaða.

Samið við aflandskrónueigendur

Búið er að gera samkomulag um að aflandskrónueigendur selji u.þ.b. 90 ma.kr. til Seðlabankans á genginu 137,5 kr. á evru. Gjaldeyrisforðinn minnkar við þetta um 655 m.EUR. en hreinn gjaldeyrisforði  er núna 4,9 ma.EUR. Öðrum aflandskrónueigendum (u.þ.b. 100 ma.kr.) er boðið að gera samkomulag við Seðlabankann á sama gengi næstu tvær vikur. Meðferð þeirra krónueigna sem eftir sitja á lokuðum reikningum í Seðlabanka Íslands eftir þann tíma mun verða til skoðunar á næstu misserum.

Vitað er af tregðu að minnsta kosti eins þeirra aðila sem eiga verulega eign til þess að ganga til samninga á því verði sem aðrir hafa fallist á, samkvæmt vefsíðu fjármálaráðuneytisins. Vonir standa til að verulegur hluti annarra aflandskrónueigenda muni þekkjast boð Seðlabankans. Seðlabankinn bókfærir væntanlega hagnað upp á u.þ.b. 18 ma.kr. vegna þessara viðskipta, og hugsanlega talsvert meira ef góðar undirtektir verða við tilboði bankans hjá öðrum aflandskrónueigendum.

Verkefnastjórn um endurskoðun peningastefnunnar

Að lokum tilkynnti ríkisstjórnin i dag að hún hefði skipað þriggja manna verkefnisstjórn sem hefði það að markmiði að finna þann ramma peninga- og gjaldmiðilsstefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika með tilliti til hagvaxtar, verðbólgu, vaxta, gengis og atvinnustigs. Í endurskoðuninni verður rammi núverandi peningastefnu metinn, greint hvaða umbætur sé hægt að gera á peningastefnunni að því gefnu að halda skuli í megineinkenni núverandi peningastefnu sem byggir á verðbólgumarkmiði og greina aðra valkosti við peningamálastjórnun, svo sem útfærslur á gengismarkmiði, til dæmis með hefðbundnu fastgengi eða fastgengi í formi myntráðs. Stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir á þessu ári.

Jákvætt skref en skapar skammtíma óvissu

Það lokaskref sem nú er stigið við að ryðja úr vegi fjármagnshöftum varðar höft sem ekki hafa haft umtalsverð áhrif á heimili, fyrirtæki og lífeyrissjóði upp á síðkastið. Ólíklegt að afnám þeirra muni því hafa veruleg áhrif til aukningar á gjaldeyrisútflæði þegar frá líður. Afnámið kann þó að skapa óvissu og auka flökt krónunnar til skemmri tíma líkt og fyrstu viðbrögð gjaldeyrismarkaðarins bera vitni um. Við reiknum hins vegar með að Seðlabankinn beiti gjaldeyrisforða sínum til að koma í veg fyrir mjög mikinn gengisóstöðugleika, líkt og bankinn áréttaði við síðustu vaxtaákvörðun.

Skrefið sem nú er stigið við afnám gjaldeyrishafta og til að draga úr stöðu aflandskróna eru hins vegar jákvætt fyrir íslenskt efnahagslíf litið til lengri tíma og er liður í því að koma að nýju á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum. Ætti það að styrkja efnahagslífið, bæta lánshæfismat ríkisins og styrkja krónuna í leiðinni litið til lengri tíma. 
Ríkisstjórnin kynnti aðgerðirnar í gær sem hluta af aðgerðum til að stemma stigum við hækkun á gengi krónunnar. Ljóst er að ríkisstjórnin hefur áhyggjur af því að sterk króna sé farin að skaða útflutningsatvinnuvegi og vill a.m.k. hægja á styrkingu hennar. Að þeirra sögn eru framundan frekari aðgerðir til að vinna að þessu markmiði. Ekki var tilkynnt um hvaða aðgerðir stjórnvöld eru þar með í farvatninu, en fjármálaráðherra hefur nefnt að næstu skref gætu komið fram síðar í þessum mánuði. 

Prófsteinn á trúverðugleika peningastefnunnar

Peningastefnunefnd fundar í dag og á morgun vegna vaxtaákvörðunar Seðlabankans sem tilkynnt verður á miðvikudaginn. Í spá sem við birtum sl. föstudag spáðum við því að nefndin myndi halda vöxtum bankans óbreyttum. Teljum við að gengislækkun krónunnar í dag og sú óvissa sem ofangreint afnám fjármagnshafta skapar til skemmri tíma varðandi gengisþróun muni verða viðbótarrök þeirra nefndarmanna sem vilja halda vöxtum óbreyttum, enda hefur nefndin ítrekað bent á skref í haftalosun sem rök fyrir varfærni við fyrri vaxtaákvarðanir.

Á móti þessu vegur að fjármálaráðherra lýst því yfir í gær að hans vilji væri sá að Seðlabankinn myndi lækka vexti. Augljóst er því að pólitískur þrýstingur er til lækkunar vaxta. Trúverðugleiki peningastefnunnar hefur hins vegar aukist með verðbólgu við eða undir markmiði nú í þrjú ár samfleytt, en trúverðugleikinn byggir m.a. á því að peningastefnunefndin sé sjálfstæð í sínum ákvörðunum. Sá trúverðugleiki er sennilega aldrei jafn mikilvægur en á tíma sem þessum þar sem óvissan um gengisþróunina og þar með stóran áhrifaþátt verðbólguþróunar færist í aukana.

Við spáum því að nefndin standist þetta próf og haldi óbreyttum stýrivöxtum á miðvikudaginn. Teljum við að nefndin muni vilja bíða og sjá hver áhrif ofangreindra skrefa við haftaafnám komi til með að verða á gengisþróun á næstunni og þar með verðbólguhorfur.      

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall