Fréttir Greiningar

Spáum 0,2 hækkun VNV í mars

14.03.2017 10:41

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í mars frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá hjaðnar verðbólga úr 1,9% í 1,8%. 

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað nokkuð frá síðustu spá okkar. Ein helsta ástæða þess er að við gerum ráð fyrir öllu sterkari krónu á spátímanum en áður, en einnig kemur til að skammtímaspá okkar hljóðar upp á minni hækkun VNV og við gerum nú ráð fyrir minni hækkun launa á yfirstandandi ári. Við gerum ráð fyrir að verðbólga hjaðni eftir því sem líður á árið 2017, og mælist 1,5% í árslok. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast að nýju, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á 3. ársfjórðungi 2018 og verða að jafnaði ríflega 3,0% á seinni hluta spátímans.

Húsnæði, föt og skór til hækkunar

Húsnæðisliður VNV hefur vegið þungt til hækkunar VNV undanfarna mánuði, og svo verður einnig nú að okkar mati. Könnun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, muni hækka um 1,5% í mars (0,25% áhrif í VNV). Er það í takti við þróunina undanfarna mánuði. Í heild vegur húsnæðisliður VNV til 0,26% hækkunar í mars.

Lítil hækkun fata- og skóverðs í febrúar kom okkur talsvert á óvart, og gerum við ráð fyrir að sá liður VNV hækki meira fyrir vikið í mars. Við spáum 5,7% hækkun á liðnum í heild (0,22% í VNV). Verð á fatnaði og skóm mun þrátt fyrir það verða nokkuð lægra í mars en það var fyrir vetrarútsölur, og koma þar til áhrif af styrkingu krónu og harðnandi samkeppni að okkar mati.

Af öðrum hækkunarliðum má nefna að við teljum að verðhækkun á þjónustu hótela og veitingastaða muni hafa áhrif til 0,04% hækkunar VNV að þessu sinni.

Eldsneyti, húsbúnaður, raftæki og flugfargjöld til lækkunar

Á móti ofangreindum þáttum vegur ýmislegt til lækkunar VNV í marsmánuði. Þar eru þyngst á metunum áhrif liðarins húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. (-0,14% í VNV). Lækkunin á þessum lið er annars vegar vegna verðlækkunar IKEA á vörum verslunarinnar um 10% að jafnaði, en flestar þeirra falla undir þennan lið. Hins vegar mældist óvenju mikil hækkun á raftækjum í febrúarmánuði, og raunar töluvert meiri hækkun en hægt var að skýra með útsölulokum. Gerum við ráð fyrir að sú hækkun gangi til baka að hluta nú.

Þá hefur eldsneyti lækkað í verði frá verðbólgumælingu febrúarmánaðar, enda styrktist krónan verulega í mánuðinum og olíuverð hefur lækkað talsvert á heimsmarkaði. Lækkunin nemur rúmlega 1,9% (-0,07% í VNV) skv. okkar mælingu. Einnig gefur verðmæling okkar til kynna að flugfargjöld hafi lækkað nokkuð í mars (-0,06% í VNV).

Verðbólga svipuð næstu mánuði

Horfur eru á að verðbólgutakturinn verði svipaður næstu mánuðina. Við spáum 0,3% hækkun VNV í apríl, 0,3% í maí og 0,1% hækkun í júní. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,7% um mitt árið.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,16% í mánuði hverjum að jafnaði. Liðurinn Hótel og veitingastaðir vegur einnig nokkuð til hækkunar næstu mánuði, sér í lagi í maí þegar háannatími ferðaþjónustunnar fer í hönd. Þá eigum við von á hækkun flugfargjalda í apríl og júní, en nokkurri lækkun í maí. Einnig má nefna að harðnandi samkeppni á eldsneytismarkaði gæti haft áhrif á eldsneytisverð, og gerum við ráð fyrir nokkurri lækkun þess í júní. Í júnímánuði teljum við auk þess að áhrifa gæti af lækkandi verði matvæla og húsgagna, svo nokkuð sé nefnt. 

Verðbólga undir markmiði fram á seinni hluta árs 2018

Útlit er fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki eftir á nýjan leik. Teljum við raunar að verðbólgutakturinn hjaðni nokkuð á seinni hluta ársins, ekki síst vegna hraðari styrkingar krónu yfir sumarmánuðina. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 1,6% á árinu 2017, og að í lok ársins mælist hún 1,5%. Í kjölfarið teljum við hins vegar að verðbólga muni fara vaxandi, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á þriðja ársfjórðungi 2018 og verða yfir markmiðinu fram til ársloka 2019. Spáum við 2,5% meðalverðbólgu árið 2018 en 3,3% verðbólgu að jafnaði árið 2019. Eðlilega eykst þó óvissa spárinnar eftir því sem lengra er skyggnst fram á veg.

 

Gengisþróun krónu er sem fyrr einn helsti áhrifaþáttur spár okkar, og gerum við eftir sem áður ráð fyrir styrkingu fram á lokafjórðung yfirstandandi árs. Alls mun styrkingin nema tæplega 8% frá núverandi gildum. Líkt og áður gerum við í kjölfarið ráð fyrir hægfara gengislækkun krónu á seinni hluta spátímans, þegar dregur úr viðskiptaafgangi og hátt raungengi fer að segja til sín af auknum þunga. Krónan er samt sem áður nokkru sterkari að jafnaði í spánni nú en í síðustu spá.

Hækkun launa mun áfram mynda hækkunarþrýsting á verðlag hérlendis, enda gerum við ráð fyrir nokkuð meiri hækkun launa en samrýmist verðbólgumarkmiðinu að viðbættum framleiðnivexti. Sá þrýstingur minnkar hins vegar jafnt og þétt þegar frá líður og dregur úr spennu á vinnumarkaði. Þá hefur ákvörðun aðila á stórum hluta almenns vinnumarkaðar um að bíða með endurskoðun kjarasamninga dregið úr skammtíma óvissu um launaþróun. Svipaða sögu má segja af verðþróun íbúðarhúsnæðis, þar sem við spáum áframhaldandi hækkun en að smám saman dragi úr hækkunarhraðanum.

Verðbólguspá fyrir mars

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall