Fréttir Greiningar

Óbreyttir stýrivextir í takti við spá

15.03.2017 11:07

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í takti við spá okkar, en opinberar spár greiningaraðila voru frá óbreyttum vöxtum að 0,25 prósentustiga lækkun. Rök nefndarinnar fyrir því að halda stýrivöxtum óbreyttum eru í takti við það sem við reiknuðum með, þ.e. meiri hagvöxtur en vænst var, vísbendingar um áframhaldandi öran vöxt eftirspurnar á þessu ári og óvissa um gengisþróun krónunnar næsta kastið eftir losum fjármagnshafta en á móti vegur  minni óvissa á vinnumarkaði og hækkun gengis krónunnar frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar.

Talsverð viðbrögð hafa verið á mörkuðum við ákvörðuninni það sem af er degi. Krafa óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði talsvert við opnun, en sú hækkun hefur gengið til baka. Þá hefur velta á skuldabréfamarkaði verið töluverð. Þá hefur gengi krónu styrkst um tæpa prósentu í morgun, en óvíst er að hversu miklu leyti má skrifa það á vaxtaákvörðunina enda stutt liðið frá afnámi hafta.

Óvissa um áhrif afnáms hafta

Varðandi áhrif af nýlegu afnámi gjaldeyrishafta segir nefndin að það sé of snemmt að segja til um efnahagsleg áhrif þess. Segir hún að hugsanlegt sé að betra jafnvægi skapist á milli inn- og útstreymis á gjaldeyrismarkaði, en skammtímahreyfingar kunna að aukast eins og sést hafa merki um síðustu daga. Bætir nefndin við að Seðlabankinn mun eftir sem áður draga úr skammtíma gengissveiflum þegar tilefni er til.

Fram kom á kynningarfundi Seðlabankans vegna vaxtaákvörðunarinnar í morgun að peningastefnunefndin mun horfa meira til munar á innlendum og erlendum vöxtum við vaxtaákvarðanir sínar á næstunni vegna þess að virkni hans m.t.t. verðbólgumarkmiðsins hefur aukist eftir afnám fjármagnshafta. 

Áfram hlutlaus tónn

Peningastefnunefndin heldur hlutlausum tón varðandi næstu skref í peningamálum, líkt og í síðustu ákvörðunum. Segir nefndin að traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið og hækkun gengis krónunnar hafi gert peningastefnunefnd mögulegt að ná lögboðnu markmiði um verðstöðugleika við lægra vaxtastig en ella. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn. Eru þetta sömu setningar og voru í yfirlýsingu nefndarinnar vegna síðustu vaxtaákvörðun 8. febrúar sl.

Seðlabankastjóri sagði á ofangreindum kynningarfundi að hann telji ekki endilega augljóst að krónan komi til með að styrkjast á næstunni, m.a. í ljósi þess hvað gengi hennar er þegar orðið hátt. Bætti hann við að eftir því sem óvissan tengd efnahagslífinu minnkar og verðbólguvæntingar festast í sessi haldi jafnvægisnafn og -raunvextir áfram að síga niður. Þá sagði hann að peningastefnan hefði öðlast trúverðugleika sem sést m.a. á því að undanfarið þegar gengi krónunnar hefur sveiflast umtalsvert þá hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lítið breyst. 

Þættir í viðbragðsáætlun til að stemma stigu við styrkingu krónunnar

Aðspurður um viðbragðsáætlun ríkisstjórnarinnar til að draga úr hækkun gengis krónunnar, sem nefnt var á kynningarfundi ríkisstjórnar og Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta um síðustu helgi, þá sagði Seðlabankastjóri að hann gæti ekki upplýst um þætti í þeirri áætlun og að hún væri ekki endilega að fullu mótuð. Hins vegar gæti Seðlabankinn hugsanlega komið að því. Sagði hann að ef aðhaldssamari fjármálastefna væri hluti af þeirri áætlun þá gæti það leitt til þess að Seðlabankinn gæti verið með lægri vexti en ella. Einnig sagði hann að ef ríkisstjórninni líkar illa við hækkun gengis krónunnar þá getur ríkið tekið á rótum þeirrar styrkingar, m.a. með skattlagningu og aðgangsstýringu í ferðaþjónustu sem hefur verið stór þáttur í styrkingu krónunnar undanfarið. Sagði hann að ef aðgerðir af þessu tagi eru hluti af pakkanum getur það haft afgerandi áhrif á gengi krónunnar í framhaldinu. 

Við reiknum með vaxtalækkun 

Líkt og við sögðum í stýrivaxtaspá okkar vegna ákvörðunarinnar nú teljum við líklegt að krónan muni styrkjast frekar fram eftir yfirstandandi ári. Ný verðbólguspá okkar hljóðar upp á hjaðnandi verðbólgu eftir því sem líður á árið, ekki síst vegna þeirrar styrkingar. Ef verðbólgutakturinn minnkar að nýju á komandi mánuðum samhliða því að styrkingarferli krónu festir sig í sessi á nýjan leik teljum við rök fyrir því hjá peningastefnunefndinni að lækka stýrivexti svo peningalegt aðhald aukist ekki frekar með hækkandi raunvöxtum. Spáum við því að stýrivextirnir verði lækkaðir um 0,25 prósentur á vaxtaákvörðunardeginum 17. maí, og aftur þann 14. júní næstkomandi. Virkir stýrivextir SBÍ, þ.e. vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða þá orðnir 4,5%. Í kjölfarið spáum við því að vextirnir verði óbreyttir út árið en raunvextir lækki jafnt og þétt þegar frá líður vegna vaxandi verðbólgu.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall