Fréttir Greiningar

Hefur gengisstöðugleiki minnkað eða aukist?

24.03.2017 11:38

Daglegt flökt krónunnar á gjaldeyrismarkaði hefur margfaldast á þessu ári. Flöktið síðustu vikur hefur verið af svipaðri stærðargráðu og þekktist var á þeim árum sem gjaldeyrismarkaður var að fullu frjáls og spákaupmennska litaði oft skammtímahreyfingar. Stjórnvöld virðast þessa dagana hafa nokkuð mismunandi áherslur hvað varðar það í hverju stöðugleiki í gengismálum felist, og samrýmist veiking krónu frá haftalosuninni væntanlega fremur áherslum ríkisstjórnarinnar en Seðlabankans hvað það varðar.
 
 Frá því tilkynnt var um losun fjármagnshafta fyrir tæpum tveimur vikum síðan hefur gengi krónu lækkað um 4,1% m.v. gengisvísitölu. Verulegar sveiflur hafa verið á milli daga í gengisþróuninni, og hefur daglegt flökt hennar því náð nýjum hæðum síðustu daga eftir að hafa aukist talsvert það sem af var ári miðað við undanfarin misseri.

 Eins og sjá má af myndinni er flökt krónu undanfarnar vikur margfalt á við flöktið síðustu tvö ár. Þarf raunar að fara aftur til ársins 2009, þegar gjaldeyrismarkaður var enn að koma undir sig fótunum eftir hrun krónu og tilkomu gjaldeyrishafta haustið áður, til að finna viðlíka gildi á daglega flöktinu. Flökt af núverandi stærðargráðu var hins vegar ekki óþekkt á tímabilinu 2001-2007, meðan gjaldeyrishreyfingar voru óheftar og spákaupmennska lítt takmörkuð.

Áherslumunur hjá stjórnvöldum?

Samfara umfangsmikilli styrkingu krónu síðustu misserin hefur þrýstingur á stjórnvöld aukist um að bregðast við með einhverjum hætti. Stjórnvöld virðast hins vegar leggja nokkuð mismunandi skilning í því hvað felist í stöðugleika í gengismálum. Þannig skipaði ríkisstjórnin í fyrra sérfræðihóp um samkeppnishæfni þjóðarbúsins í ljósi styrkingar krónu, sem skilaði af sér greinargerð um efnið í síðasta mánuði. Einnig hefur fjármálaráðherra nýlega ítrekað í fjölmiðlun að aðgerðir til að stemma stigu við styrkingu krónunnar verði kynntar í þessum mánuði. Áherslur ríkisstjórnarinnar snúa því fyrst og fremst að því að vinna gegn áframhaldandi verulegri styrkingu krónu.
 
Stjórnendur Seðlabankans hafa talað með nokkuð öðrum hætti og bent á að styrking krónu væri a.m.k. að hluta til aðlögun að breyttri stöðu hagkerfisins með t.a.m. stórauknum útflutningstekjum, bættri erlendri stöðu þjóðarbúsins og hagstæðri þróun viðskiptakjara.  Í aðsendri grein í  Fréttablaðinu um síðustu áramót benti Seðlabankastjóri á að Seðlabankinn hafi unnið á móti styrkingu gengisins með umfangsmiklum gjaldeyriskaupum og komið að mestu í veg fyrir vaxtamunarviðskipti upp á síðkastið með innflæðishöftum sem sett voru síðastliðið sumar. Það væri hins vegar ekki hægt að fullyrða með óyggjandi hætti að gengi krónu væri komið mikið yfir jafnvægi. 
 

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans við vaxtaákvörðun í síðustu viku kom fram sú skoðun nefndarinnar að hugsanlegt væri að betra jafnvægi skapaðist milli inn- og útstreymis á gjaldeyrismarkaði við losun hafta, en skammtímahreyfingar kynnu að aukast. Seðlabankinn myndi eftir sem áður draga úr skammtímagengissveiflum þegar tilefni væri til.

Eins og sjá má af myndinni hefur dregið úr hraða styrkingar krónunnar ef síðustu mánuðir eru bornir saman við tímabilið frá júlí til nóvember. Eftir gengislækkun síðustu daga er gengi krónu reyndar á svipuðum slóðum og í ársbyrjun m.v. gengisvísitölu. Í þeim skilningi er því væntanlega meiri stöðugleiki í gengi krónu en var lengst af á seinni helmingi síðasta árs, sem ætti að hugnast ríkisstjórninni. Margföldun á flökti er hins vegar til marks um meiri skoðanaskipti á markaði og mögulega einnig merki um að aðilar á markaði nýti aukið frelsi til gjaldeyrisviðskipta í talsverðum mæli, þótt hrein spákaupmennska án samsvarandi gjaldeyrisviðskipta sé ekki möguleg ólíkt því sem var fyrir hrun. Aukið flökt má því líta á, a.m.k. að talsverðu leyti, sem einskonar heilbrigðismerki á markaði, og líkt og fram kemur að ofan áttu Seðlabankamenn allt eins von á að þessi yrði raunin við haftalosunina. Einnig er rétt að halda til að haga að Seðlabankinn hefur sjaldan haft meiri burði en nú um stundir til að leggjast á móti skammtímasveiflum á genginu í hvora áttina sem er, telji hann þær fara úr hófi fram.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall