Fréttir Greiningar

Fjöldi ferðamanna í heiminum vex hratt

05.04.2017 09:12

Ferðaþjónustan hefur á síðustu áratugum verið á meðal þeirra greina sem vaxið hafa hraðast í heiminum. Sífellt fleiri áfangastaðir standa ferðamanninum til boða. Hefur greinin skapað störf og gjaldeyristekjur, og staðið að baki umtalsverðum hagvexti og samfélagsþróun í mörgum löndum. Vegur greinin á heimsvísu um 10% af landsframleiðslu, 7% af gjaldeyristekjum vegna útflutnings á vöru og þjónustu og á vinnumarkaði starfar einn af hverjum ellefu við greinina. 

Alþjóðlegum ferðamönnum í heiminum fjölgaði í fyrra um 3,9% og var það sjöunda árið í röð þar sem vöxtur mældist. Hefur ekki mælst jafn langt samfellt vaxtarskeið á þennan kvarða síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Var heildarfjöldi ferðamanna í heiminum 1.235 milljónir í fyrra og fjölgaði um 46 milljónir frá árinu 2015. Þess má geta að alþjóðlegir ferðamenn í heiminum voru 25 milljónir árið 1950. Kemur þetta fram í gögnum sem World Tourism Organization (UNWTO) hefur birt. 

Ferðamönnum á heimsvísu fjölgar mun hraðar en jarðarbúum

Vöxturinn í fjölda alþjóðlegra ferðamanna á heimsvísu var í fyrra nær fjórfaldur vöxtur íbúa í heiminum. Er það sama þróun og verið hefur undanfarin ár, en hlutfall alþjóðlegra ferðamanna af íbúum í heimunum fer sífellt hækkandi. Hlutfallið var tæplega 17% í fyrra en til samanburðar var það ríflega 9% árið 1995. Vöxtur alþjóðlegra ferðamanna hefur því að jafnaði verði ríflega fjórum sinnum hraðari en íbúafjölgun í heiminum á tímabilinu. Ástæðan er sú að sífellt stærri hluti jarðarbúa fær tækifæri til að ferðast alþjóðlega, m.a. með bættum flugsamgöngum, lægri flugfargjöldum og vaxandi kaupmætti.

UNWTO spáir því að alþjóðlegum ferðamönnum fjölgi um 3-4% í ár, að árlegur vöxtur ferðamanna fram til ársins 2030 verði ríflega 3% og að heildarfjöldi ferðamanna í heiminum verði þá orðinn 1,8 milljarðar. Er slíkur vöxtur ríflega þrisvar sinnum hraðari en reiknað er með í íbúafjölgun í heiminum á tímabilinu. Hlutfall alþjóðlegra farþega af heildaríbúafjölda í heiminum verður þá orðið rúmlega fimmtungur árið 2030 gangi spá stofnunarinnar eftir.   

Tífalt hraðari vöxtur ferðamanna hér á landi en á heimsvísu

Fjölgun alþjóðlegra ferðamanna hér á landi var 40% í fyrra eða ríflega tífalt hraðari en í heiminum öllum. Munurinn í ár verður einnig mikill ef spár ganga eftir, en líkt og fram kemur í nýlegri skýrslu okkar um ferðaþjónustuna reiknum við með 30% vexti í fjölda ferðamanna þetta árið sem er um 8-10 sinnum meiri vöxtur en UNWTO spáir að verði í fjölda ferðamanna í heiminum.

Fjöldi alþjóðlegra ferðamanna sem komu hingað til lands var um 0,1% af heildarfjölda alþjóðlegra ferðamanna í heiminum í fyrra. Sú mikla fjölgun ferðamanna sem hér var í fyrra, þ.e. 40% á milli ára, var ekki nema 0,6% af heildarfjölgun alþjóðlegra ferðamanna í heiminum. Sýnir þetta í raun hvað markaðurinn er stór og vöxtur hans mikill.

Langtímaspár um fjölgun alþjóðlegra ferðamanna í heiminum gefa tilefni til bjartsýni varðandi vöxt ferðaþjónustunnar hér á landi litið til lengri tíma. Ísland er ekki uppselt m.t.t. samgangna, gistirýmis eða auðlindanýtingar á þessu sviði. Í þessu ljósi eru tækifærin mikil fyrir Ísland í stórum og hratt vaxandi markaði alþjóðlegrar ferðamennsku. 

Íslendingar með nær tíu sinnum fleiri utanlandsferðir á mann 

Íslendingar sem ferðuðust erlendis á síðastliðnu ári hafa aldrei verið fleiri.  Samtals námu brottfarir Íslendinga um KEF ríflega 536 þús. á síðastliðnu ári eða 161% af íbúafjölda í landinu. Er það hlutfall nær tíu sinnum hærra en almennt í heiminum, en eins og áður sagði var þetta hlutfall fyrir alla íbúa heimsins 17% í fyrra. Hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra og var til samanburðar rétt tæplega 80% þegar núverandi efnahagsuppsveifla hófst. Hlutfallið hérlendis hefur hækkað hratt undanfarin ár, m.a. vegna aukins framboðs af flugi, lækkunar flugfargjalda, hækkunar gengis krónunnar og bættrar fjárhagslegrar stöðu íslenskra heimila. Reiknum við með að Íslendingar slái enn annað metið á þessu sviði í ár, en á fyrstu tveimur mánuðum ársins var 23% fjölgun á milli ára í brottförum Íslendinga um KEF.  

 

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall