Fréttir Greiningar

Væntingar neytenda dempast í apríl

26.04.2017 11:23

Væntingavísitala Gallup (VVG) lækkar lítillega á milli mars og apríl (-2,6 stig) og stendur vísitalan nú í 126,6 stigum. Gildi VVG er að engu síður talsvert umfram þau 100 stig sem marka jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni meðal neytenda og endurspeglar þar með almenna bjartsýni á meðal neytenda. Þetta má sjá í Væntingavísitölu Gallup fyrir aprílmánuð sem Gallup birti í gærmorgun. 

Flestar undirvísitölur lækka

Ofangreinda lækkun má rekja til þróunar á nærri öllum undirvísitölum VVG. Gildi undirvísitölunnar um mat á atvinnuástandi lækkar mest (-4,1 stig), en sú vísitala stendur þó enn verulega hátt, eða í 136,7 stigum, m.v. sögulegt meðaltal (94,2 stig). Eins lækka vísitölurnar sem eiga að endurspegla mat neytenda á núverandi stöðu (-3,9 stig) og væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði (-1,7 stig). Mælist sú fyrrnefnda 149,5 stig, sem er mjög hátt sögulega séð (81 stiga meðaltal), og sú síðarnefnda 111,4 stig sem er aðeins hærra en sögulegt meðalgildi (102,4 stig). Undirvísitalan sem mælir mat neytenda á efnahagslífinu hækkar hins vegar (2,2 stig) og mælist 116,8 stig (89,5 stig sögulega).
 
Vísitalan fyrir mat á núverandi ástandi hefur núna mælst hærri en væntingar til aðstæðna eftir hálft ár samfellt í 14 mánuði, og á því tímabili hafa vísitölurnar mælst talsvert yfir 100 stigunum. Þá stöðu má túlka sem svo að Íslendingar séu almennt ánægðir með núverandi ástand í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, auk þess sem fleiri en færri vænta þess að ástandið komi til með að verða enn betra í náinni framtíð. 

Gengi krónunnar að hafa áhrif?

Talsverð fylgni hefur verið á milli VVG og gengis krónunnar, sem endurspeglast ágætlega í þróuninni nú eins og sjá má nokkuð greinilega á myndinni hér fyrir neðan. Gæti því lækkun VVG nú tengst því að krónan hefur að jafnaði verið 1,5% veikari það sem af er aprílmánuði en hún var í mars. Hefur gengi krónunnar að jafnaði mælst 161,1 stig það sem af er apríl m.v. vísitölu meðalgengis, samanborið við 158,7 stig í mars. Á síðustu vikum hefur krónan þó styrkst nánast linnulaust frá degi til dags, og stendur vísitalan nú í 156,2 stigum. Útlit er fyrir að krónan styrkist enn frekar með hækkandi sól, enda nær gjaldeyrisinnflæði vegna viðskiptaafgangs væntanlega hámarki yfir sumarmánuðina samhliða háannatíma ferðaþjónustunnar. Má því ætla að VVG komi til með að hækka að nýju á komandi mánuðum. 

Teikn um mikinn einkaneysluvöxt

Þróun VVG rímar jafnframt vel við einkaneyslu, en lítið lát virðist vera á vexti hennar. Það má t.a.m. ráða af tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun,  og sjá má á myndinni hér fyrir neðan hversu vel VVG fylgir kortatölunum. Nýjustu tölur Seðlabankans um greiðslumiðlun eru fyrir marsmánuð, og skv. þeim jókst kortavelta Íslendinga um 12,8% að raunvirði á milli ára. Sé litið á fyrsta ársfjórðung í heild þá nam aukningin 10,4% sem er í samræmi við þróunina á síðastliðnu ári. Kaupmáttur launa óx hins vegar nokkru hægar en kortavelta að raunvirði á fyrsta fjórðungi, en eins og fram kemur í frétt okkar um þróun kaupmáttar er um tímabundna lægð að ræða í kaupmáttarþróuninni en þessi þróun kemur í kjölfarið á tímabili þar sem kaupmáttaraukning var talsvert hraðari en vöxtur einkaneyslu. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall