Fréttir Greiningar

Meiri verðbólga en vænst var í apríl

27.04.2017 11:39

Hröð hækkun íbúðaverðs undanfarið er helsta ástæða þess að 12 mánaða taktur verðbólgunnar jókst í apríl. Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði meira í mánuðinum en búist hafði verið við, og er útlit fyrir að húsnæðisliður VNV verði áfram helsti verðbólguvaldur hérlendis næsta kastið.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði VNV um 0,50% í apríl. Mæling aprílmánaðar er fyrir ofan allar birtar spár.  Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða, og í heild voru spárnar á bilinu 0,2% - 0,4% hækkun.  Verðbólga mælist nú 1,9% en var 1,6% í mars. VNV án húsnæðis stóð hins vegar í stað á milli mars og apríl og m.v. þá vísitölu mælist 1,8% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði.

Hröð hækkun íbúðaverðs segir til sín í VNV

Húsnæðisliður VNV vó þungt til hækkunar hennar í aprílmánuði. Í heild hækkaði liðurinn um tæp 1,6% (0,51% í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs, um 2,6% (0,49% í VNV). Er það meiri hækkun en spáð hafði verið, en við höfðum gert ráð fyrir mestri hækkun þessa liðar þennan mánuðinn af greiningaraðilum. Raunar hefur reiknuð húsaleiga ekki hækkað hraðar á milli mánaða síðan í apríl 2005, ef undan er skilinn september sl. þegar verið var að leiðrétta skekkju frá því fyrr á árinu.

Hagstofan birtir samhliða VNV vísitölu markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, sem liggur til grundvallar reiknaðri húsaleigu í VNV-mælingunni. Verulega hefur bætt í 12 mánaða hækkunartakt þeirrar vísitölu, og mælist nú árshækkun íbúðaverðs 20,4% samkvæmt henni. Er það hraðasti árstaktur frá apríl 2006. Þróunin er svipuð hvort sem litið er til fjölbýlis eða sérbýlis á höfuðborgarsvæði, og eins þegar litið er til landsbyggðar. Eins og sjá má af myndinni er þó árshækkun íbúðaverðs talsvert hóflegri en var þegar hæst hóaði á íbúðamarkaði árið 2005, en þá fór árstakturinn mest upp í 35%.

Líklegt er að hækkun íbúðaverðs hafi áfram talsverð hækkunaráhrif í VNV, enda verulegur eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði á sama tíma og framboð er takmarkað. Við þetta bætist að útreikningur VNV er með þeim hætti að þegar tiltekinn liður hækkar hraðar en aðrir eykst vægi hans í vísitölunni í kjölfarið. Hagstofan birti samhliða VNV-mælingunni nú uppfærðar vogir fyrir undirliði VNV líkt og jafnan í aprílmánuði, og hækkaði vægi reiknaðrar húsaleigu milli ára úr 14,9% í 18,7% og húsnæðisliðar í heild úr 28,1% í 32,5%. Hefur vægið aldrei verið meira frá því núverandi aðferðafræði var tekin upp fyrir 25 árum síðan. Frekari hækkun íbúðaverðs mun því vega enn þyngra en ella í VNV fyrir vikið.

Aðrir liðir ýmist til hækkunar eða lækkunar

Að húsnæðislið slepptum vó hækkun flugfargjalda þyngst til hækkunar VNV að þessu sinni (0,17% í VNV). Munaði þar mestu um 13,3% hækkun flugfargjalda til útlanda. Þá hækkaði eldsneytisverð um 1,1% í mánuðinum (0,02% í VNV), hótel og veitingastaðir um 0,3% (0,01% í VNV) og póstur og sími um 0,6% (0,01% í VNV). Síðastnefnda hækkunin var alfarið vegna 0,8% hækkunar á verði símaþjónustu, en sá liður hafði fram að því lækkað linnulaust frá ágúst 2015.

Á móti ofangreindri hækkun vó lækkun ýmissa undirliða, ekki síst innfluttra vara. Verð á mat og drykk lækkaði um 0,6% í aprílmánuði (-0,08% í VNV), bifreiðaverð lækkaði um 1,2% (-0,08% í VNV), húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði um 1,2% (-0,02% í VNV) og lyf og lækningavörur um 1,2% (-0,02% í VNV). Hins vegar kom nokkuð á óvart að fata- og skóverð lækkaði einungis um tæp 0,1% í apríl (engin áhrif í VNV) þar sem útlit hafði verið fyrir talsverða lækkun á þessum lið eftir auglýsta verðlækkun fataverslana á síðustu vikum. Kann að vera að þessi áhrif skili sér í maímælingu VNV í staðinn.

Útlit fyrir svipaða verðbólgu næstu mánuði

Horfur eru á að verðbólgutakturinn verði svipaður næstu mánuðina. Við spáum 0,3% hækkun VNV í maí, 0,2% hækkun í júní en 0,2% lækkun VNV í júlí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,0% í júlí.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,20% í mánuði hverjum að jafnaði. Höfum við hækkað spá okkar um húsnæðisverð næstu mánuði í ljósi núverandi aðstæðna á íbúðamarkaði. Ekki er þó útilokað að hækkunaráhrif liðarins verði enn meiri á næstunni í ljósi nýjustu talna og aukins vægis hans í VNV. Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni hækkun flugfargjalda í júní og júlí. Útsöluáhrif munu svo setja svip sinn á júlímælingu VNV að vanda. 

Í kjölfarið mun gengisþróun krónu og þróun á íbúðamarkaði ráða hvað mestu um verðbólguþróun. Verði lát á styrkingu krónunnar þegar fram í sækir mun húsnæðisliðurinn og annar innlendur kostnaðarþrýstingur fljótt segja til sín í aukinni verðbólgu. Við teljum þó að verðbólga verði hófleg út árið í það minnsta.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall