Fréttir Greiningar

Spáum 0,4% hækkun VNV í maí 2017

12.05.2017 10:42

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4 í maí frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá verður verðbólga óbreytt í 1,9% frá síðasta mánuði.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru lítið breyttar frá síðustu spá okkar. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði undir 2,5% markmiði Seðlabankans allt árið 2017, og mælist 2,2% í árslok. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast að nýju, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á 1. ársfjórðungi 2018 og verða að jafnaði 3,3% á seinni hluta spátímans.

Húsnæði, matur og gisting til hækkunar

Líkt og undanfarið er húsnæðisliður VNV helsti hækkunarvaldur hennar að þessu sinni. Mikill gangur hefur verið á fasteignamarkaði undanfarið, og bendir könnun okkar til þess að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, muni hækka um 2,0% að þessu sinni (0,35% áhrif í VNV). Af öðrum liðum sem vega til hækkunar VNV í maí er einna helst að nefna þjónustu hótela og veitingastaða, sem sigla nú inn í háannatíma ferðaþjónustunnar (0,06% í VNV) og mat og drykk, þar sem við eigum t.d. von á nokkurri verðhækkun á kjötvörum, brauðmeti og svo ávöxtum (0,10% í VNV). Innlendur launakostnaður segir að okkar mati til sín í hækkandi verði innlendrar matvælaframleiðslu í maí, og gæti raunar einnig haft áhrif á verðlag innlendra vara í júní, en nokkuð er um tilkynningar um hækkanir frá innlendum framleiðsluaðilum í kjölfar launahækkana í maí.

Flug, eldsneyti, föt og húsbúnaður til lækkunar

Á móti ofangreindum hækkunarliðum vega ýmsir liðir til lækkunar VNV í maí. Þar vegur þyngst lækkun flugfargjalda, en verðkönnun okkar bendir til þess að þau muni vega til 0,09% lækkunar VNV í mánuðinum. Þá hefur eldsneytisverð hér á landi lækkað nokkuð í kjölfar snarprar verðlækkunar á heimsmarkaði (-0,06% í VNV). Einnig teljum við að verð á fatnaði og skóm muni lækka (-0,02%), sem og húsgögn og heimilisbúnaður (-0,01%) í ljósi vaxandi samkeppni og styrkingar krónu. Aðrir liðir hafa minni áhrif á mælingu VNV, en vega samanlagt til 0,05% hækkunar vísitölunnar í maí.

Verðbólga svipuð næsta kastið

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aðeins hækka næstu mánuðina. Við spáum 0,3% hækkun VNV í júní, 0,2% lækkun vísitölunnar í júlí og 0,4% hækkun í ágúst. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,2% í ágústmánuði.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,22% í mánuði hverjum að jafnaði. Áhrif hraðrar hækkunar húsnæðisverðs á VNV eru enn meiri en ella þar sem Hagstofan jók í vor vægi reiknaðrar húsaleigu í útreikningi vísitölunnar í samræmi við verklag við útreikning hennar. Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni hækkun flugfargjalda í júní og júlí, en lækkun í ágúst. Útsöluáhrif munu svo setja svip sinn á júlímælingu VNV að vanda og útsölulok að sama skapi á ágústmælinguna.

Verðbólga undir markmiði út árið 2017

Útlit er fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki eftir. Við teljum að verðbólga verði á svipuðum slóðum og verið hefur út yfirstandandi ár, haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og mælist 2,2% í desember nk. Hins vegar verður verðbólgutakturinn hraðari í spá okkar eftir því sem líður á næsta vetur. Áætlum við að verðbólga fari yfir 2,5% verðbólgumarkmiðið á 1. fjórðungi ársins 2018 og verði að jafnaði aðeins yfir markmiðinu það ár. Við spáum 2,8% verðbólgu að jafnaði á næsta ári, og 3,3% verðbólgu að meðaltali árið 2019.

Helstu áhrifaþættir næstu misserin

Gengisþróun krónu er sem fyrr einn helsti áhrifaþáttur spár okkar, og gerum við líkt og áður ráð fyrir styrkingu fram á lokafjórðung yfirstandandi árs. Spáum við u.þ.b. 4% styrkingu á tímabilinu. Líkt og áður gerum við í kjölfarið ráð fyrir hægfara gengislækkun krónu á seinni hluta spátímans, þegar dregur úr viðskiptaafgangi og hátt raungengi fer að segja til sín af auknum þunga.
 
Hækkun launa mun áfram mynda hækkunarþrýsting á verðlag hérlendis, enda gerum við ráð fyrir nokkuð meiri hækkun launa en samrýmist verðbólgumarkmiðinu að viðbættum framleiðnivexti. Sá þrýstingur minnkar hins vegar jafnt og þétt þegar frá líður og dregur úr spennu á vinnumarkaði. Talsverð óvissa er þó um þróun á vinnumarkaði á seinni hluta spátímans, enda verða samningar lausir hjá stórum opinberum launþegahópum á seinni hluta ársins. Það gæti svo aftur haft áhrif á endurskoðun kjarasamninga á almennum markaði upp úr næstu áramótum.
 
Við gerum ráð fyrir allhraðri hækkun íbúðaverðs næstu mánuði líkt og verið hefur undanfarið. Í kjölfarið spáum áframhaldandi hækkun en að smám saman dragi úr hækkunarhraðanum.

Verðbólguspá maí 2017

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall