Fréttir Greiningar

Hversu mikil áhrif hefur styrking krónu undanfarið á peningastefnunefnd?

15.05.2017 13:24

Krónan hefur styrkst um rúmlega 5% frá áramótum. Er það hraðari styrking en á sama tímabili í fyrra þrátt fyrir losun hafta og sjómannaverkfall á fyrstu mánuðum ársins. Mun meira flökt hefur verið í gengi krónu það sem af er ári en undanfarin ár. Kann það að setja peningastefnunefnd Seðlabankans í nokkurn vanda við að túlka áhrif gengisþróunarinnar á vaxtastefnu bankans til skemmri tíma, en svo virðist sem gengisþróunin hafi verið snar þáttur í vaxtaákvörðunum nefndarinnar undanfarin ár.

Meðvindur með krónu í liðinni viku

Krónan var í miklum styrkingarham í nýliðinni viku eftir rólega byrjun á maímánuði. Gagnvart evru nam styrking hennar 1,9% og gagnvart Bandaríkjadollar styrktist krónan um 1,3%. Meiri kraftur færðist í styrkinguna eftir því sem leið á vikuna, og er ekki ólíklegt að Seðlabankinn hafi beitt inngripum á markaði seinni part vikunnar til að hægja á henni. Það væru þá fyrstu inngrip bankans fyrir utan regluleg gjaldeyriskaup frá 25. apríl síðastliðnum. Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri nam að jafnaði 7 m.EUR dag hvern á fyrsta þriðjungi maímánaðar, en til samanburðar var dagleg velta að meðaltali ríflega 19 m.EUR á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Veltan var því lítil til og með 10. maí, en ekki liggja fyrir veltutölur fyrir seinni hluta síðustu viku. 

Hraðari styrking, meira flökt

Ýmsar skýringar kunna að vera á þróuninni undanfarið. Straumur ferðamanna til landsins eykst nú jafnt og þétt með hverri vikunni sem líður, og auk þess er líklega komið meira jafnvægi á gjaldeyrisflæði vegna útflutnings sjávarafurða en var á fyrstu mánuðum ársins. Þá má nefna að útflutningsfyrirtæki þurfa að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda um miðjan mánuðinn, sem hefur oft leitt til gjaldeyrisinnflæðis dagana á undan. Loks eru vísbendingar um að fjárfestingar erlendra aðila í innlendum fyrirtækjum fari vaxandi. Til að mynda er hugsanlegt að hluti innflæðisins í síðustu viku hafi tengst sölu Eyris Invest á tíu milljónum hluta í Marel fyrir tæplega 3,5 ma. kr., en fyrr á árinu seldi Eyrir erlendum fjárfesti Marel-bréf fyrir 4,3 ma. kr.

Styrking krónu frá áramótum til og með 12. maí nemur ríflega 5,3% miðað við viðskiptavegna gengisvísitölu. Er það talsvert meiri styrking en á sama tímabili í fyrra, þegar krónan styrktist um 1,8% frá áramótum til 12. maí. Hins vegar hefur flökt krónu verið umtalsvert meira á þessu ári en í fyrra, hvort sem horft er á daglegar gengisbreytingar eða þróun innan einstakra mánaða. Losun hafta er þar lykilþáttur, enda er mun hægara um vik fyrir innlenda og erlenda fjárfesta að eiga viðskipti inn og út úr krónu en raunin var í fyrra.

Gengisþróunin ræður miklu um stýrivexti Seðlabankans

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur fjórum sinnum lækkað stýrivexti í þessari uppsveiflu. Fyrstu tvær lækkanirnar voru undir lok árs 2014. Í nóvember það ár lækkaði nefndin vexti bankans um 0,25 prósentur og síðan um 0,5 prósentur í desember sama ár. Þá var verðbólgan 1% og vísbendingar komnar fram um lélegar hagvaxtartölur. Stýrivextir bankans voru þá þeir sömu og nú og raunstýrivaxtastigið því 0,9 prósentustigum hærra. Slaki var í hagkerfinu á þeim tíma og árstíðaleiðrétt atvinnuleysi var 5,6%.

Seinni tvö skiptin sem peningastefnunefndin ákvað að lækka stýrivexti bankans var á seinni hluta síðastliðins árs. Fyrri lækkunin var 0,5 prósentustiga lækkun í ágúst 2016 þegar verðbólgan var 1,1% og gengi krónunnar búið að hækka um 6,8% frá síðustu vaxtaákvörðun. Stýrivextir bankans voru þá 0,75 prósentum hærri en þeir eru núna og raunstýrivextir ríflega 1,5 prósentustigi hærri en nú. Framleiðsluspennan var þá minni.  

Í seinna skiptið sem bankinn lækkaði stýrivexti sína í fyrra var í desember og þá var lækkunin 0,25 prósentur.  Þá var gengi krónunnar búið að hækka um nær 6% frá októberfundi nefndarinnar og um ríflega 9% frá vaxtalækkuninni í ágúst það ár. Taldi peningastefnunefndin að verbólguhorfur hefðu batnað vegna gengisþróunarinnar.  Verðbólgan var þá 2,1% og raunstýrivaxtastigið svipað og nú. Framleiðsluspennan var þá minni.

Ljóst er að lækkun stýrivaxta í fyrra réðist mjög mikið af gengisþróun krónunnar. Gengi krónunnar hækkaði yfir árið um ríflega 18% sem er mesta styrking krónunnar sem mælst hefur á einu ári. Breytti þessi þróun verðbólguhorfum og –þróun m.a. umtalsvert. Gengisþróun krónunnar mun einnig ráða miklu um ákvarðanir peningastefnunefndar á þessu ári. Í því sambandi spáum við því að krónan komi til með að styrkjast í sumar og að það verði stór þáttur í þeirri ákvörðun peningastefnunefndar að lækka stýrivexti næsta haust. Verður einnig áhugavert að sjá að hversu miklu gengisþróun síðustu daga mun ráða um vaxtaákvörðunina á miðvikudaginn í þessari viku. Það flækir líklega nokkuð málið hvað peningastefnunefnd varðar að verulegur hluti styrkingar krónu hefur komið til eftir að Seðlabankinn lokaði þjóðhags- og verðbólguspá sinni sem birt verður á miðvikudag og nefndin byggir ákvörðun sína m.a. á.  Spáum við óbreyttum stýrivöxtum á miðvikudaginn. Gengi krónunnar hefur hins vegar styrkst um 2,2% frá því að við birtum þá spá og eykur það óvissuna í þeirri spá. Þess má geta að peningastefnunefndin fundar í dag og á morgun vegna vaxtaákvörðunarinnar sem tilkynnt verður um á miðvikudaginn. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall