Fréttir Greiningar

Kortavelta Íslendinga í útlöndum sjaldan verið meiri

15.05.2017 12:42

Gríðarlegur vöxtur var í kortaveltu Íslendinga í útlöndum í apríl sl. og í krónum talið er veltan erlendis sú næstmesta frá upphafi, þ.e. á eftir júní í fyrra þegar áhrif EM í knattspyrnu voru hvað mest. Sé hins vegar leiðrétt fyrir þróuninni á gengi krónunnar á tímabilinu þá er um mestu veltu að ræða frá upphafi. Þessi þróun kemur ekki á óvart enda rímar hún vel við þá gríðarlegu aukningu sem var á utanlandsferðum landans í apríl sl. sem og þá staðreynd að verslun Íslendinga er að færast í auknum mæli út fyrir landsteinana. Þrátt fyrir þessa þróun hefur aldrei áður mælst eins mikill afgangur af kortaveltujöfnuði í apríl og þeim síðastliðna, sem aftur á rætur að rekja til þess hversu margir erlendir ferðamenn eru orðnir hér á landi í samanburði við fjölda Íslendinga. Þetta má ráða af tölum Seðlabanka Íslands um kortaveltu sem voru birtar síðastliðinn föstudag.

Áfram teikn um mikinn einkaneysluvöxt

Alls jókst kortavelta Íslendinga í útlöndum um 62% að raunvirði á milli ára í apríl sl., sem er mesti vöxtur hennar eins langt aftur og tölur ná. Rímar þetta vel við tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll (KEF) í apríl sl. sem við fjölluðum um í Morgunkorni nýverið. Þannig var apríl sl. næstfjölmennasti mánuður í sögunni í utanlandsferðum Íslendinga og var fjöldi þeirra litlu minni en þegar landinn flykktist út á EM í fyrra (62,2 þús. á móti 67,1 þús.).  Hér gætir einnig áhrifa páska, sem voru í mars í fyrra en í apríl í ár, en þau áhrif eru þó ekki sjáanleg í tölum um kortaveltu Íslendinga innanlands sem nánast stóð í stað. Þannig jókst kortavelta Íslendinga innanlands aðeins um 0,2% að raunvirði (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis), sem er hægasti vöxtur hennar í tvö ár. Kann það svo aftur að skýrast að einhverju leyti af því að hátt í fimmtungur þjóðarinnar var á faraldsfæti í mánuðinum, og þar með ekki hér heima til þess að strauja kortin sín. Að þessu samanlögðu var ágætis vöxtur í kortaveltu Íslendinga í apríl sl., eða um 7,3% í heild að raunvirði, sem er þó aðeins hóflegri vöxtur en var að jafnaði á fyrsta ársfjórðungi (10,4%). 

Stærri hluti einkaneyslunnar erlendis frá 

Ofangreind þróun gefur nokkuð skýr merki um að myndarlegur einkaneysluvöxtur sé í pípunum og eins bendir hún til þess að sífellt stærri hluti einkaneyslunnar sé erlendis frá. Þetta kemur ekki eingöngu til af mikilli aukningu á utanlandsferðum landans heldur hafa viðskipti Íslendinga við erlendar netverslanir stóraukist, eins og við höfum oft áður fjallað um. Nú í apríl nam velta einstaklinga í útlöndum um 17,3% af heildarkortaveltu þeirra og hefur þessi hlutdeild aldrei áður verið eins há. Þessi þróun er vel sýnileg á neðangreindri mynd. 

Vísbendingar um að ferðamaðurinn eyði minna

Heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi nam rúmlega 18,2 mö. kr. í apríl sl., og líkt og búast mátti við út frá tölum um fjölda erlendra gesta hér á landi í mánuðinum hefur hún aldrei verið meiri í apríl. M.v. sama tíma í fyrra straujuðu erlendir ferðamenn kortin sín fyrir um 25% hærri fjárhæð í krónum talið en á sama tíma í fyrra. Það er þó mun hægari aukning en var á fjölda erlendra ferðamanna hér á landi á sama tímabili (62%), og er hér um að ræða fimmta mánuðinn í röð sem slíkt er upp á teningnum. Að teknu tilliti til gengishreyfinga jókst kortavelta þeirra um 47% sem er mun nær þróuninni á fjölda þeirra. Gefur þetta til kynna að ferðamenn taki meira mið af eyðslu sinni í heimamynt en í krónum talið í Íslandsferð sinni, sem þýðir augljóslega að þeir fá færri krónur úr að spila eftir því sem krónan styrkist gagnvart öðrum myntum. 

Engu að síður metafgangur af kortaveltujöfnuði í apríl

Alls nam kortavelta Íslendinga í útlöndum 11,9 mö. kr. í apríl sl., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga í útlöndum) því jákvæður um rúma 6,4 ma. kr. í mánuðinum.  Þetta er hagstæðasta útkoma þessa jafnaðar í aprílmánuði frá upphafi, en munurinn er þó minni á milli ára en verið hefur síðustu misserin. Engu að síður kyndir þessi þróun undir enn hagstæðari þjónustuviðskipti í ár en var á síðastliðnu ári.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall