Fréttir Greiningar

Uppfærð þjóðhagsspá - sígur á seinni hluta hagsveiflunnar

14.07.2017 13:52

 

Núverandi uppsveifla stefnir í að verða ein sú lengsta í seinni tíma hagsögu Íslands. Hagvöxtur í fyrra reyndist 7,2% skv. tölum Hagstofu, og hefur hann ekki verið hraðari frá árinu 2007. Uppsveiflan hefur nú náð hámarki að okkar mati, og sígur nú á seinni hluta hagsveiflunnar.

Útlit er fyrir myndarlegan hagvöxt á þessu ári, en að í kjölfarið dragi jafnt og þétt úr vextinum. Við spáum 5,3% hagvexti í ár, 3,0% vexti á næsta ári og 2,3% hagvexti árið 2019.

Vöxturinn í ár verður borinn uppi af þjónustuútflutningi, fjárfestingu heimila og fyrirtækja, svo og einkaneyslu. Hægari vöxtur á komandi árum skýrist af litlum vexti fjárfestingar, og hægari vexti einkaneyslu og útflutnings.

Mun færri merki eru um verulegt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum en raunin var í síðustu uppsveiflum. Því eru meiri líkur en áður á því að vaxtarskeiðinu ljúki með tiltölulega mjúkri lendingu. 

Áfram viðskiptaafgangur

Viðskiptaafgangur hefur verið verulegur undanfarin 4 ár. Vöxtur þjónustuútflutnings, sér í lagi ferðaþjónustu, hefur skýrt bróðurpart þessa vaxtar. Þessi myndarlegi afgangur hefur átt stóran þátt í að bæta erlenda stöðu þjóðarbúsins, og er nú svo komið að erlendar eignir þjóðarbúsins eru lítillega meiri en erlendar skuldir.

Horfur eru á að viðskiptaafgangur minnki jafnt og þétt eftir því sem líður á spátímann, samhliða minni afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum. Áfram litur þó út fyrir afgang af viðskiptajöfnuði út spátímann. Gerum við ráð fyrir að afgangurinn nemi tæplega 5% í ár, tæpum 4% á næsta ári og ríflega 3% árið 2019.

Fremur hófleg verðbólga framundan

Útlit er fyrir áframhaldandi fremur hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við teljum þó að verðbólga aukist á næstunni eftir því sem áhrif hraðrar styrkingar krónu síðustu misseri fjara út. 

Við áætlum að verðbólga fari yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans í kring um næstu áramót og verði að jafnaði 3,0% á næsta ári. Við spáum svo  2,9% verðbólgu að meðaltali árið 2019.

 

Vaxandi verðbólga mun leiða til lækkandi raunstýrivaxta á komandi fjórðungum að öðru jöfnu, og teljum við því að virkum stýrivöxtum verði haldið óbreyttum næsta kastið til að herða ekki á lækkun raunstýrivaxtanna. Á seinni hluta spátímans gæti hins vegar skapast svigrúm fyrir einhverja frekari lækkun stýrivaxta.

Þjóðhagsspá júlí 2017

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall