Fréttir Greiningar

Spáum 0,4% hækkun neysluverðs í ágúst

16.08.2017 09:49

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% í ágúst frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 1,8% í 1,9% í ágúst.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru svipaðar og í síðustu spá. Þar vegast á forsendur um lægra gengi krónu annars vegar, og um hægari hækkun húsnæðisverðs hins vegar. Er nú útlit fyrir að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans í kring um næstu áramót, en verði síðan að jafnaði rétt um 3,0% út árið 2019.

Húsnæði, föt, matur og eldsneyti til hækkunar

Hækkandi íbúðaverð vegur hvað þyngst til hækkunar VNV í  ágúst líkt og fyrri daginn, þótt könnun okkar bendi til þess að hækkunin sé með minna móti miðað við undanfarna mánuði. Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, vegur til 0,18% hækkunar VNV. Í heild vegur húsnæðisliður VNV til 0,23% hækkunar í ágúst.

Farið er að síga á seinni hluta sumarútsala, og munu áhrif útsöluloka í fata- og skóverslunum vega til 0,19% hækkunar VNV skv. spá okkar. Útsölulok skýra einnig að mestu 0,04% hækkunaráhrif vegna húsgagna og heimilisbúnaðar í ágústspánni.

Verðhækkun á mat- og drykkjarvörum vegur til 0,04% hækkunar VNV í spá okkar. Þá vegur hækkandi eldsneytisverð einnig til 0,04% hækkunar vísitölunnar í mánuðinum. Skýringin í báðum tilfellum er að mestu lækkandi gengi krónu frá júníbyrjun.

Flugfargjöld og raftæki til lækkunar

Útlit er fyrir að flugfargjöld lækki talsvert í ágúst eftir ríflega 20% hækkun í júlí (-0,24% í VNV). Þá standa enn yfir útsölur í ýmsum tegundum verslana, og koma áhrif þeirra fram að nokkru leyti í ágúst, ekki síst í verði raftækja (-0,05% í VNV). Aðrir liðir vega samanlagt til 0,11% hækkunar VNV í mánuðinum.

Heldur meiri verðbólga á komandi mánuðum

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni heldur aukast næstu mánuðina. Við spáum 0,4% hækkun VNV í september, 0,2% hækkun í október, 0,2% hækkun í nóvember og 0,3% hækkun í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,5% í árslok.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,2% í mánuði hverjum að jafnaði. Áhrif útsöluloka munu svo lita septembermælingu VNV. Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni lækkun flugfargjalda í september. Áhrif af gengislækkun krónu frá júníbyrjun munu svo koma fram í verðhækkun ýmissa innfluttra vara á komandi mánuðum.

Verðbólga nokkuð yfir markmiði næstu ár

Útlit er fyrir fremur hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Gengislækkun krónu undanfarnar vikur hefur hins vegar áhrif á gengisforsendu okkar og gerum við nú ráð fyrir nokkru lægra gengi en áður á næstu árum. Hefur það nokkur áhrif til meiri verðbólgu á næstu fjórðungum í spá okkar. Á móti gerum við ráð fyrir öllu hægari hækkun íbúðaverðs, og eru heildaráhrifin þau að verðbólguspá okkar fyrir næstu ár breytist ekki verulega frá síðustu spá. 

Við teljum að verðbólga aukist nokkuð eftir því sem líður á komandi vetur, en nái jafnvægi undir næsta vor rétt yfir 2,5% verðbólgumarkmiðinu. Áætlum við að verðbólga verði að jafnaði 3,1% á næsta ári. Við spáum svo 2,9% verðbólgu að meðaltali árið 2019.

Verðbólguspá fyrir ágúst

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall